Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.08.2013, Side 12
Viðtal
12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4.8. 2013
Í
fallegri íbúð við sjávarsíðuna í Garðabæ býr Ingveldur
Gísladóttir ásamt eiginmanni sínum. Ingveldur, sem er
alltaf kölluð Inga, er vel til höfð, þrjósk og töffaraleg
kona sem reykir Capri og hugsar lítið um það að hún
sé með ólæknandi krabbamein. Hún hefur gengið í
gegnum fleiri raunir en flestir og þakkar þrjóskunni, óbilandi
trú á sjálfri sér og votti af hroka það að standa keik í dag.
Erfiðast að gefa frá sér barn
Inga er fædd á Selfossi árið 1949 en ólst upp í Vest-
mannaeyjum. Sautján ára missti hún mömmu sína úr nýrna-
sjúkdómi og eignaðist sitt fyrsta barn nýorðin átján ára. Ári
seinna varð hún ólétt að öðru barni sem hún neyddist til að
gefa frá sér þar sem barnsfaðir hennar var alkóhólisti og
móðurmissirinn erfiður. „Að gefa þetta barn er erfiðasta lífs-
reynsla sem ég hef gengið í gegnum. Það er ólýsanleg lífs-
reynsla og fylgir manni alla ævi. Ég hugsa að ég hafi orðið
hálfgeðveik í kjölfarið því ég sat á sama stólnum og prjónaði
næstu sjö mánuðina.“
Inga valdi dóttur sinni góða foreldra með hjálp vinkonu
móður sinnar og sendi með henni þau skilaboð að sig langaði
til að kynnast henni síðar meir. Það gekk eftir og í dag eiga
þær í góðu sambandi auk þess sem dóttirin, Ragna, elur upp
son systur sinnar sem er látin.
Lífið í Eyjum
Stuttu eftir að Inga gaf Rögnu frá sér kynntist hún mann-
inum sínum, Eyjólfi Péturssyni, sem var skipstjóri á togara og
því lítið heima við. Sjálf vann Inga við hitt og þetta, hún rak
ferðaskrifstofu, vann sem ljósmyndari, setti upp poppkorns-
verksmiðju, setti á neglur og fleira. Auk þess tók hún virkan
þátt í pólitík og er mikil framsóknarkona. „Ég hafði alltaf
hugmyndir að verkefnum, þau komu bara til mín.“
Síðar ráku þau hjónin söluturninn Jolla í Hafnarfirði. Sam-
tals urðu börnin fimm og Inga segir auðveldara að ala upp
börn í Vestmannaeyjum en annars staðar. Lífið var þó enginn
dans á rósum. Þrjú barnanna lentu í óreglu og það elsta, Gísli,
lenti fimm ára gamall í slæmu slysi sem setti mark sitt á líf
hans. Hann skaðaðist í andliti, missti sjón á öðru auga og gat
illa sofið vegna martraða mánuðina á eftir. Í kjölfarið varð
hann fyrir miklu aðkasti og ofbeldi frá skólafélögum og fólki í
bænum sem uppnefndi hann og lagði í einelti, að sögn Ingu.
„Þetta gjörsamlega rústar lífi barna og getur fyllt þau mikilli
reiði.“ Gísli flutti um tvítugt frá Vestmannaeyjum en Inga og
Eyjólfur árið 1993.
Gekk milli lækna
Fyrir ellefu árum fór Inga smám saman að finna fyrir mikilli
þreytu. Að sögn heimilislæknis var þetta einungis hluti af
breytingaskeiðinu og ekkert til að hafa áhyggjur af. Sömu
sögu var að segja stuttu síðar þegar Ingu fór að blæða mikið
en úrskurðurinn var sá að þetta væru eftirköst blæðinga.
„Ég veit alveg hvernig blæðingar eru, ég er löngu hætt á
blæðingum og þetta eru engin eftirköst,“ segir Inga sem gekk
næstu fjögur til fimm árin milli lækna og viðurkennir að hug-
urinn hafi reikað til mömmu hennar sem dó 41 árs gömul.
„En af því að þeir sögðu að ekkert væri að mér og sendu
mig ekki í rannsóknir píndi ég mig áfram í vinnu en fór svo
bara niður í kjallara og hreinlega grét úr þreytu.“ Í ljósi
reynslunnar er það mat Ingu að konur á miðjum aldri eigi
ekki að fara til karllækna þar sem þeir þekki kvenlíkamann
ekki af eigin raun.
Nokkrir mánuðir ólifaðir
Á nýársdag árið 2006 var svo komið að Inga var hætt að geta
haft þvaglát og leitaði til neyðarmóttöku. Fljótt kom í ljós að
hún væri með krabbamein í nýra sem var fjarlægt en hún
greindist einnig með sjaldgæft krabbamein sem heitir Bellini
og er hún eini Íslendingurinn sem þjáist af því.
Meinið liggur upp með hryggsúlunni, beggja vegna mænu, í
og við lungu og í hálsi. Á þessum tíma höfðu 143 ein-
staklingar í heiminum öllum greinst með þetta krabbamein og
vitað var um þrjá sem höfðu lifað lengur en þrjú ár eftir
greiningu. Ingu var tilkynnt að hún ætti þrjá til fimm mánuði
eftir ólifaða.
„Ég sætti mig við það en ákvað rosalega margt á þessari
stundu, þetta var eins konar örlagastund. Ég puntaði mig upp
og fór í myndatöku hjá ljósmyndara. Ég ákvað að ferðast
mikið, gera allt sem mig dreymdi um og fór hreinlega á fullt.
Ég ferðaðist til Kína og gerði allt sem mér datt í hug þrátt
fyrir að ég tryði því aldrei að ég væri að fara að deyja.“ Inga
segist í raun aldrei hafa litið á sig sem veika þrátt fyrir að
fara í lyfjagjöf á hverjum degi og hafa nokkrum sinnum verið
nær dauða en lífi. „Ég hef alltaf náð að rífa mig upp.“
„Ég hef alltaf náð
að rífa mig upp“
INGVELDUR GÍSLADÓTTIR HEFUR ÁTT ERFIÐA EN VIÐBURÐARÍKA ÆVI. NÚ BERST HÚN VIÐ SJALDGÆFT
OG ALVARLEGT KRABBAMEIN EN LÆTUR EKKI HUGFALLAST. ERFIÐARA VAR AÐ GEFA FRÁ SÉR BARN.
Edda Sif Pálsdóttir esp2@hi.is