Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.10.2013, Blaðsíða 47
27.10. 2013 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 47
því að ekki væri almennur hljóm-
grunnur fyrir honum hér á landi.
„Það gladdi mig,“ segir Anna
Pála. „Mikilvægt er að taka fast á
móti fordómum af þessu tagi og ég
er stolt af samstöðunni sem hinseg-
in fólk og fjölmargir aðrir sýndu í
þessu máli. Mótmælin voru frið-
samleg en árangursrík og við áttum
mjög fallega stund í Þróttaraheim-
ilinu í Laugardalnum á sama tíma
og Graham prédikaði í Höllinni,“
segir Anna Pála og lýkur einnig
lofsorði á Laugarneskirkju sem
sýndi andstöðu sína við málflutning
Grahams með því að efna til guðs-
þjónustu sem sérstaklega var ætluð
hinsegin fólki. Að sögn Önnu Pálu
eru orð góðra gjalda verð „en ekk-
ert jafnast þó á við stuðning í
verki“.
Blórabögglar Pútíns
Það var ekki bara hér heima sem
gustaði um hinsegin fólk í sumar.
Heimsmeistaramótið í frjálsum
íþróttum, sem fram fór í Moskvu,
beindi sjónum að ástandinu þar.
Ummæli stangarstökkvarans Ye-
lenu Isinbayevu vöktu óskipta at-
hygli en svo virtist sem hún væri
andvíg „áróðri samkynhneigðra“ í
landinu. Hún dró síðar í land.
„Ástandið í Rússlandi er ógnvæn-
legt,“ segir Anna Pála. „Það er
engu líkara en Vladimír Pútín vilji
gera hinsegin fólk að blórabögglum
fyrir allt sem miður fer þar eystra.
Það er stórhættulegt þegar stjórn-
völd í ríki taka þennan pól í hæðina.
Markmið Pútíns er án efa að kaupa
sér vinsældir með því að ýta undir
þjóðrembu og íhaldsleg gildi.“
Hún brýnir fyrir okkur Íslend-
ingum að falla ekki í þessa gryfju.
„Það er þekkt í mannkynssögunni
að þjóðremba fær oft hljómgrunn í
kjölfar mikilla erfiðleika og hér hef-
ur sannarlega verið á brattann að
sækja síðustu fimm árin. Þetta
gerðist ekki strax eftir hrunið en nú
virðist það geta verið að gerast.
Íhaldssamari gildi eiga alltént í
auknum mæli upp á pallborðið og
þeim fylgja gjarnan fordómar í garð
minnihlutahópa eins og hinsegin
fólks. Það er alls ekki neikvætt að
vera stolt af uppruna sínum en
gleymum því ekki að gjarnan er
stutt yfir í þjóðrembuna.“
Ættleiðingar og blóðgjöf
Spurð um framtíðina segir Anna
Pála áhugaverða tíma framundan í
baráttunni fyrir fullum mannrétt-
indum hinsegin fólks. Mikið hafi
unnist í þeirri baráttu á umliðnum
árum en varasamt sé að stilla Ís-
landi upp sem hinsegin útópíu. Það
sé landið ekki.
Margt má ennþá laga, að hennar
dómi. Til dæmis sé gríðarlega erfitt
fyrir samkynhneigð pör að ættleiða
börn. „Það er næsta baráttumál.
Engir samningar eru til við önnur
lönd varðandi ættleiðingar samkyn-
hneigðra para en ég hef fulla trú á
því að það breytist fljótlega, innan
fimm ára eða svo. Það er ekkert því
til fyrirstöðu að Ísland verði fyrsta
landið í heiminum sem nær slíkum
samningi ef til þess er nægur vilji,“
segir Anna Pála ákveðin.
„Baráttan núna snýst ekki lengur
fyrst og fremst um lagaleg réttindi
heldur jöfn lífsgæði. Stjórnvöld hafa
haft vilja til að vinna að réttindum
hinsegin fólks og engin breyting
hefur orðið á því við stjórnarskiptin.
Það er mjög jákvætt.“
Hún nefnir fleiri mál, svo sem
lýðheilsumálin. „Andleg heilsa
skiptir ekki minna máli en líkamleg.
Það þarf líka að skoða betur áfeng-
is- og vímugjafanotkun hinsegin
fólks. Það er eitthvað sem ég held
að hafi verið vandamál gegnum tíð-
ina þótt það vanti rannsóknir hér-
lendis. Það er ekki skrýtið þegar
fólk hefur mátt búa við mikla for-
dóma og útilokun. Ég hef líka t.d.
heyrt um rannsóknir erlendis sem
benda til þess að krabbamein sé al-
gengara meðal hinsegin fólks en
annarra. Gera má því skóna að
skýringin á því sé fyrst og fremst
álag og streita. Síðan er það auðvit-
að með miklum ólíkindum að
hommar megi ekki ennþá gefa blóð
á Íslandi. Það er eitt mesta rang-
lætismál okkar tíma og dæmi um
beina mismunun sem enn við-
gengst.“
Hún gerir stutt hlé á máli sínu.
„Grunnurinn er samt góður,“ seg-
ir hún síðan með þungri áherslu.
„Velvilji almennur og þverpólitísk
samstaða um okkar réttindi. Von-
andi náum við að byggja ofan á
þann grunn. Við verðum samt að
gæta okkar á því að stutt getur
verið í værukærðina og meðvirkn-
ina. Enn getur brugðið til veggja
vona. Sumir segja að baráttunni sé
lokið hér heima en ég tengi alltaf
minna og minna við það sjónarmið.
Og svo lengi sem fullum mannrétt-
indum hefur ekki verið náð á
heimsvísu heldur barátta hinsegin
fólks áfram.“
Frá Gleðigöngunni 2013. Umræðan í kjölfarið kom mörgum á óvart.
Morgunblaðið/Ómar
„Sem betur fer njóta langflestir góðs stuðnings
þegar þeir koma út úr skápnum, það á til dæm-
is við um mig, en því miður ekki allir. Það er
mjög frelsandi að taka þetta skref og lífið verð-
ur svo miklu betra á eftir,“ segir Anna Pála
Sverrisdóttir, formaður Samtakanna 78.
Um 1.100 manns eiga aðild að Samtökunum 78 sem Önnu Pálu þykir
helst til lítið, þótt eitthvað hafi verið um nýskráningar að undanförnu.
Oft sé rætt um að tíundi hver maður sé hinsegin og það segi sig því
sjálft að þetta hlutfall ætti að vera mun hærra, allt að 32.000 manns.
„Mér finnst lágmark að 1% þjóðarinnar sé í Samtökunum 78.“
Hún segir félagsmenn á öllum aldri og ólíka aldurshópa eiga ágæta
samleið. Anna Pála segir ekki óalgengt að eldra fólkið sé meðvitaðra
um mikilvægi baráttunnar fyrir fullum mannréttindum enda hafi það
alla jafna mætt meira mótlæti en yngra fólkið. Reynsluheimurinn er
að vonum ólíkur og sumt fólk brenndara en annað. Eins og gengur. Á
móti búi fólk yfir mikilli samkennd og mannlegri hlýju.
„Nú er komin ný og frábær kynslóð inn í félagið. Kynslóð sem
kemur í senn með mikla þekkingu, skýra sýn og almenn skemmtileg-
heit. Það er frábært að hafa fengið tækifæri til að leiða þetta góða
starf og taka þátt í að gera Samtökin 78 ennþá sýnilegri í samfélaginu.
Við erum að gera mjög mikið fyrir mjög lítið og fræðslustarfið alltaf
að eflast. Því miður urðum við að minnka starfshlutfall fram-
kvæmdastjórans okkar niður í 50% vegna kreppuniðurskurðar en
vonandi er það bara tímabundið.“
Tengdi í fyrstu ekki við samtökin
Þegar Anna Pála kom sjálf út úr skápnum árið 2009 kveðst hún ekki
hafa tengt sérstaklega við samtökin. „Mér fannst þau auðvitað nauð-
synleg en ekki endilega eiga erindi við mig. Þessu viðhorfi langar mig
að breyta. Allt hinsegin fólk á að vilja taka þátt í starfi samtakanna.
Búið er að ryðja brautina fyrir okkur yngra fólkið og við skuldum því
öfluga fólki að halda baráttunni áfram – af fullum þunga.“
Anna Pála staldrar við þá staðreynd að enginn af 63 þingmönnum
þjóðarinnar sé hinsegin – alltént ekki opinberlega. Þá vill hún sjá
fleira hinsegin fólk í valdastöðum, bæði í stjórnmálum og atvinnulíf-
inu. Hún segir forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur vissulega
hafa haft áhrif á baráttu hinsegin fólks en líklega meira gagnvart um-
heiminum en nærumhverfinu. „Fullur sigur verður síðan ekki unninn
fyrr en transmanneskja sest á ráðherrastól eða tekur við stjórninni í
einu af stærstu fyrirtækjum landsins.“
ÓLÍKUR REYNSLUHEIMUR