Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.10.2013, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27.10. 2013
Svipmynd
M
ánasteinn – Drengurinn
sem aldrei var til er nýj-
asta bók Sjóns og þar
segir hann sögu hins
samkynhneigða Mána
Steins sem er sextán ára árið 1918 þegar
spænska veikin herjar á bæjarbúa í
Reykjavík. Útgáfurétturinn að Mánasteini
hefur þegar verið seldur til Danmerkur,
Svíþjóðar og Finnlands. Fleiri lönd munu
örugglega bætast í hópinn áður en langt
um líður því verk Sjóns hafa vakið veru-
lega athygli erlendis. Skáldsaga hans
Skugga-Baldur hlaut eins og kunnugt er
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið
2005 og hefur komið út í um 30 löndum.
Skugga-Baldur, Rökkurbýsnir og Argóar-
flísin komu út á nokkrum árum í Bretlandi
og fyrr á þessu ári komu þessar þrjár
bækur út samtímis í Bandaríkjunum. Það
vakti sérstaka athygli þegar enski rithöf-
undurinn A.S. Byatt skrifaði afar lofsam-
lega grein um bækurnar þrjár í The New
York Review of Books og sagði um Sjón:
„Hann hefur breytt sýn minni á heiminn.“
„Ég get ekki annað en verið auð-
mjúkur,“ segir Sjón spurður um þessi um-
mæli. „Byatt hefur lesið og séð ýmislegt
og að fá þessa einkunn frá henni er falleg
og mikil gjöf. Auðvitað vonast ég alltaf til
að skáldskapur minn hafi þau áhrif á fólk
að það sjái hluti í nýju ljósi. Sjálfur ólst
ég upp við bókmenntir eftir fólk sem færði
bókmenntaformið í nýjar og óvæntar áttir.
Af íslenskum höfundum las ég Thor, Guð-
berg og Svövu ásamt gömlu meisturunum
og atómskáldunum. Auðvitað las ég svo
súrrealistana mér til óbóta á sínum tíma
og þeir umbyltu fagurfræði ljóðsins með
því að virkja líkingar á nýstárlegan hátt og
skapa með því nýjan veruleika samanber
hina frægu setningu: „Hann var fagur eins
og óvænt stefnumót saumavélar og regn-
hlífar á skurðarborði.“ Súrrealisminn færði
heiminum nýja fegurð, en enginn veit svo-
sem í hverju hún felst, öðru en því að hún
er óvænt og furðuleg.“
Velgengni erlendis
Nú er mjög erfitt fyrir þá höfunda sem
ekki skrifa á ensku að koma bókum sínum
á enskan markað. Bækur þínar hafa komið
út í Englandi og þrjár bóka þinna komu
nýlega út í Bandaríkjunum. Segðu mér frá
þeirri útgáfu og viðtökunum.
„Það var stórt skref á sínum tíma þegar
forlag í London ákvað að gefa Skugga-
Baldur út. Það eitt að enski útgáfurétt-
urinn skyldi seljast þótti mjög merkilegt
árið 2006. Síðan þá hafa verk æ fleiri ís-
lenskra höfunda verið að koma út á ensku
og þetta skiptir máli vegna þess að enskan
er heimsmál og viðkomandi bók verður að-
gengileg fólki um allan heim. Það er alltaf
gleðilegt fyrir rithöfund að eignast nýja
lesendur.
Útgefandinn í New York tók þá óvæntu
og að mörgum þykir furðulegu ákvörðun
að gefa allar bækurnar þrjár út samtímis.
Argóarflísin kom út innbundin og var eins
konar flaggskip en hinar tvær komu út í
kilju. Það hefur verið skrifað vel um þess-
ar bækur í Bandaríkjunum og einnig í
Kanada. Fólki þykir söguefnin vera sérstök
og reynir auðvitað að setja bækurnar í
samhengi við það sem það þekkir úr ís-
lenskum bókmenntum, sem er yfirleitt
Halldór Laxness og Íslendingasögurnar. Ég
er íslenskur höfundur og hef unnið með ís-
lenskan sagnaarf og hef lært bæði af Ís-
lendingasögum og Halldóri Laxness en
sæki jafnfram ýmislegt í framúrstefnu og
módernisma.
Við íslensku rithöfundarnir vinnum hér
heima í umhverfi þar sem maður verður
tiltölulega fljótt þekkt stærð. Það eru mik-
ið til sömu gagnrýnendur sem skrifa um
bækur manns og hafa bæði lyft undir
mann og bent á það sem betur má fara.
Það er frábært að fá viðbrögð að utan frá
fólki sem les bækurnar ekki endilega í
sama menningarlega samhengi og er hér,
en um leið verða bækurnar líka að spjara
sig.
Það sem kom mér mest á óvart varðandi
viðtökur erlendis eru hinar miklu og góðu
viðtökur sem Rökkurbýsnir hafa fengið.
Þetta er bók sem gerist á 17. öld og
fjallar um kall sem var utangarðs og lenti
upp á kant við yfirvöld. Ég hélt að sagan
yrði útlendingum nokkuð erfið og þung
undir tönn en svo virðist ekki vera. Ég
man að þegar ég ákvað að skrifa hana var
ég með tvö verk í takinu. Annað verkið
átti að gerast í heimi spíritismans og hin
hugmyndin var að skrifa bók upp úr ævi
Jóns lærða. Ásgerður, eiginkona mín, benti
mér á að margar bækur hefðu verið skrif-
aðar um heim spíritismans en enginn um
Jón lærða. Ég ákvað þá að skrifa um Jón
lærða, en hugsaði með mér að sú bók yrði
sennilega ekki rétta bókin til að fylgja eft-
ir framanum erlendis því útlendingar
myndu örugglega ekki skilja hana. En
stundum gleymir maður að líta sér nær og
skoða hvaða bókum maður sjálfur hefur
gaman af. Við Íslendingar höfum gaman af
að lesa bækur sem gerast í framandi sam-
félögum og á tímum sem eru okkur
ókunnugir. Rökkurbýsnir virðist tala til út-
lendinga á þennan sama hátt.“
Lít á bækurnar sem gjörning
Segðu mér aðeins frá nýju bókinni þinni,
Mánasteini.
„Bókin fjallar um sextán ára strák sem
býr í Reykjavík árið 1918 og er utanveltu í
samfélaginu af mörgum ástæðum, ekki
bara vegna þess að hann er samkyn-
hneigður. Samkynhneigðin breytir í raun-
inni ekki svo miklu fyrir hann af því að
hann er hvort sem er til hliðar í samfélag-
„Mér hefur stundum fundist að því stærra sem viðfangsefnið er þeim mun meira spennandi er að þjappa því saman.“
Morgunblaðið/Ómar
Reyni að feta nýjar slóðir
MÁNASTEINN ER NÝ SKÁLDSAGA EFTIR SJÓN, EN ÚTGÁFURÉTTUR AÐ HENNI HEFUR ÞEGAR VERIÐ SELDUR TIL NOKKURRA LANDA.
Í VIÐTALI RÆÐIR SJÓN UM NÝJU BÓKINA, VELGENGNINA OG MIKILVÆGI ÞESS AÐ HLÚA VEL AÐ MENNINGUNNI.
Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is