Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.10.2013, Blaðsíða 51
27.10. 2013 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 51
vallaratriði. Meirihluti þingsins var
andvígur flestum þeim tillögum sem
forsetinn og nánustu samstarfsmenn
hans töldu skipta sköpum fyrir þá
viðleitni að eðlilegar forsendur at-
vinnulífs, viðskipta, rekstrar og
framleiðslu gætu orðið til í Rúss-
landi. Raunar var svo mikill meiri-
hluti þingsins andvígur stefnu for-
setans að mögulegt hefði verið að
stöðva nánast öll stefnumál hans. Á
hinn bóginn gætti töluverðs hroka í
liði forsetans. Hann hafði raðað í
kringum sig ungu fólki sem hafði
(eða taldi sig hafa) nútímalegri hug-
myndir um efnahags- og fjármál en
þeir sem kosnir höfðu verið til
Æðstaráðsins þremur árum áður.
Árið 1990 virtist tilheyra löngu liðnu
tímaskeiði. Þannig ofmátu allir að-
ilar styrk sinn – og það er hættuleg
staða.
Stóra spurningin er þessi: Var
raunverulega hætta á borgarastríði
haustið 1993? Þetta hef ég oft rætt
við rússneska vini og kunningja í
gegnum tíðina. Margir halda að svo
hafi ekki verið en aðrir benda á að
borgarastríð séu ekki alltaf fyr-
irsjáanleg. Þegar átök eru einu sinni
hafin getur verið erfitt að snúa við.
Spurningin hljóti því á endanum að
vera sú, hversu nálægt því herinn og
sérsveitir innanríkisráðuneytisins
hafi verið að veita andstæðingum
Jeltsíns virkan stuðning. Og hvað
hefði gerst ef almenningur hefði
vopnast?
Ég man vel eftir augnabliki þegar
mér sýndist að raunverulegt borg-
arastríð yrði ekki umflúið. Það var
liðið á kvöld þennan fræga sunnu-
dag, 3. október og ég var kominn
heim. Þó að ég væri ekki lengur í
miðbænum gat ég heyrt skothvelli af
og til. Á milli átta og níu um kvöldið
sýndi sjónvarpsstöð, sem hafði tek-
ist að flytja útsendingaraðstöðuna
frá Ostankino, viðtal við Egor Gajd-
ar sem gegndi mikilvægu hlutverki
aðstoðarforsætisráðherra, en Jeltsín
hafði þá nýskipað hann í það emb-
ætti eftir hálfgerða útlegð í kjölfar
stutts en stormasams tímabils í
stöðu forsætisráðherra. Viðtalið
virtist tekið á einhverjum gangi.
Lýsingin var skuggaleg og Gajdar
sjálfur ekki síður þegar hann hvatti
lýðræðissinnaða Moskvubúa til að
safnast saman í miðbænum „til varn-
ar lýðræðinu“ eins og hann orðaði
það. Rétt eins og þeir Rutskoj og
Khasbulatov sem hvöttu almenning
til að berjast fyrir lýðræði, var það
lýðræðið sem Gajdar var efst í huga í
haustmyrkrinu þetta furðulega
kvöld. Það fór um mann við að sjá
viðtalið. Hvað myndi gerast ef fólk
flykktist nú í miðbæinn? Orðrómur
(sem aldrei var staðfestur) var strax
kominn á kreik um að borgaryf-
irvöld í Moskvu hygðust dreifa vopn-
um, því það væri eina leiðin til að
stöðva framrás varðliðanna. Raunar
er ekki gott að skilja hvers vegna
þeir vildu hertaka einmitt borg-
arstjórnarskrifstofur Moskvu og
sjónvarpshúsið. Síðari staðurinn var
vissulega táknrænn, en gat þó ekki
ráðið úrslitum í neinni baráttu. Valið
á hinum staðnum réðst kannski af
því að húsið var há bygging í næsta
nágrenni þinghússins og gat því haft
strategíska þýðingu. En líklegast
héldu stuðningsmenn þingsins – sem
nú var farið að nefna uppreisn-
armenn – að með því að taka þessa
staði sýndu þeir styrk sinn og
tryggðu sér þá stuðning fleiri aðila.
Langtímaáhrif á rússneska
pólitík
Ég sé það þegar ég les tuttugu ára
gamla grein sjálfs mín með þeirri
dramatísku fyrirsögn „Uppreisn,
bylting, borgarastríð! Hvað fór úr-
skeiðis í Moskvu 3. október?“ að mér
hefur enginn vafi fundist leika á því
að aðgerðir Jeltsíns væru réttmætar
og nauðsynlegar til að rjúfa patt-
stöðuna og losna við andstöðu þings-
ins. Í dag er ég á allt annarri skoðun.
Ákvörðunin var örlagarík og andúð
Vesturlanda á gömlu harðlínuöfl-
unum sem enn réðu miklu í Rúss-
landi var svo megn að Jeltsín reynd-
ist auðvelt að réttlæta aðgerðir sínar
og skýra þær á Vesturlöndum. En
fórnarkostnaðurinn var gríðarlegur.
Þetta var auðvitað freklegt inngrip í
lýðræðislegt ferli. Þingið átti tvö ár
eftir af fimm ára kjörtímabili sínu.
Var svo brýnt að ljúka gerð nýrrar
stjórnarskrár að ekki mætti eyða
tveimur árum til viðbótar í það?
Á þessum tíma snerist allt um
hraða. Þegar Sovétríkin voru leyst
upp í árslok 1991 átti að koma í gegn
umfangsmiklum efnahagsumbótum
á mettíma. Til þess var Egor Gajdar,
mikilsmetinn og afburðaskýr hag-
fræðingur, settur í embætti for-
sætisráðherra þrátt fyrir mikla and-
stöðu í þinginu, sem á endanum
bolaði honum líka úr embættinu.
Bandaríski hagfræðingurinn Jeffrey
Sachs hafði þá verið ráðgjafi Pól-
verja í efnahagsmálum og hélt þeirri
hugmynd mjög á lofti að hagkerfum
kommúnistaríkjanna þyrfti að um-
bylta í einskonar leiftursókn þar
sem öllum meginforsendum kerf-
isins væri umbreytt á fáeinum mán-
uðum. Þetta krafðist skilvirkrar að-
komu þings og harðsnúinnar
ríkisstjórnar sem gæti keyrt í gegn
nauðsynlegar breytingar. Þannig
yrði til á skömmum tíma sá grund-
völlur frjáls atvinnulífs sem skapað
gæti auð í samfélaginu og sett upp-
byggingu af stað. Þó að þessar hug-
myndir væru umdeildar var víð-
tækur stuðningur við þær meðal
helstu samstarfsmanna Jeltsíns og
ekkert hik á stuðningsmönnum for-
setans að hrinda slíku prógrammi í
framkvæmd í ársbyrjun 1992. Það
fór óstjórnlega í taugarnar á þeim
hve mikilli andstöðu þessar hug-
myndir mættu í þinginu og í raun-
inni sættu menn sig ekki við þessa
stöðu. Þar sem Vesturlönd þrýstu á
um hraðar umbætur og almenn tor-
tryggni ríkti meðal frjálslyndari afla
gagnvart kommúnistunum á þinginu
(yfir 80 prósent þingmanna höfðu til-
heyrt Kommúnistaflokknum þegar
kosið var til þingsins árið 1990), var
tilhneigingin hjá liðsmönnum forset-
ans að virða viðhorf þingsins einskis,
en leita allra leiða til að sniðganga
það.
Það má segja að hinn fullkomni
ósigur Khasbúlatovs, Rútskojs og
kempunnar Makashovs hafi orðið til
þess að Jeltsín virtist hafa pálmann í
höndunum. Hann gat án allrar and-
stöðu komið stjórnarskrá í gegn.
Hún var lögð í þjóðaratkvæði 12.
desember 1993 og samþykkt með 57
prósentum atkvæða. Um leið var
kosið til nýs þings, Dúmunnar, sem
hafði allt aðra og hagstæðari sam-
setningu fyrir Jeltsín en Æðstaráðið
hafði haft.
En sennilega var þessi „sigur“
Jeltsíns þó tvíeggjaður. Hann ríkti
nú í krafti þess styrks sem herinn
hafði veitt honum haustið 1993, en
vinsældir hans dvínuðu fljótt. Í for-
setakosningunum 1996 neyddist
hann til að fara fram á stuðning auð-
jöfranna sem tekist hafði að ná til sín
helstu verðmætum gömlu Sovétríkj-
anna. Tækifærið til að verja eðlileg
stjórnmál og þroska pólitíska um-
ræðu, sem í margra augum ein-
kenndi þá viðleitni sem Gorbatjsov
hafði staðið fyrir, var farið. Nú sner-
ist allt um að skapa sér hverju sinni
stuðning þeirra afla sem gætu
tryggt stöðu forsetans.
Moskva í dag: Minning og
órói
Það er dálítið drungalegur eftirmið-
dagur í Moskvu. Ég er búinn að
mæla mér mót við Olgu Romanovu,
blaðakonu sem nú starfar við há-
skóla í Moskvu og er meðal helstu
aktívista mótmælanna í borginni.
Hún var kosin í hið svokallaða Sam-
hæfingarráð andstöðuaflanna í des-
ember í fyrra. Olga varð þekkt fyrir
það að takast með harðfylgi að fá
dóm manns síns, Aleksej Kozlov,
styttan og ná honum þar með úr
fangelsi. Aleksej hafði verið dæmdur
fyrir fjármálamisferli tengt fyr-
irtæki sem hann rak. Dómurinn var í
augum flestra sem höfðu unnið með
honum í eðli sínu pólitískur þar sem
hann byggðist á hæpnum for-
sendum. Þessi árangur Olgu varð til
þess að fólk áttaði sig betur á mik-
ilvægi þess að tefla fram hæfum lög-
mönnum í réttarsal sem gætu tekið
á málum á forsendum dómaranna
frekar en að láta vörnina byggjast á
réttlætisbaráttu. „Lög snúast ekki
um réttlæti,“ segir Olga án þess að
nokkur háðstónn sé í röddinni.
Í dag er Olga að stýra fundi sam-
taka sem hún stofnaði eftir að maður
hennar fór í fangelsi. Þau heita því
skemmtilega nafni „Innisitjandi
Rússland“ og eru hagsmunasamtök
fanga og aðstandenda þeirra. Félag-
ið tekur upp mál sem varða meðferð
fanga í rússneskum fangelsum og
rekur þau gagnvart yfirvöldum.
Eins og svo mörg önnur félög sem
eru stofnuð í kringum tiltekin mark-
mið eða áhugamál hefur þetta félag
þó líka almenna pólitíska skírskotun.
Félagarnir eru pólitískt virkir og
taka þátt í mótmælunum. Stór hluti
umræðnanna á fundinum er um
ástandið í borginni – og landinu.
Talið berst að atburðunum 1993.
Ég segi Olgu að mér finnist merki-
legt hvað skoðanir eru enn skiptar
um þessa atburði. Hún tekst öll á
loft. Já, það verður varla nokkurn
tímann sátt um þá. Ég er viss um að
í okkar hópi eru allar skoðanir til á
því sem Jeltsín gerði. Hún lætur
þetta ekki duga. Áður en ég veit af
er hún farin að gera almenna skoð-
anakönnun meðal fundarmanna.
Gerði Jeltsín rétt eða rangt í því að
rjúfa þingið? En Olga hefur á end-
anum rangt fyrir sér. Hennar fólk er
allt á einu máli: Þetta var versta
klúður Jeltsíns. Hann tapaði lög-
mæti sínu sem forseti, hann tapaði
tiltrú margra mikilvægustu stuðn-
ingsmanna sinna og hann kom af
stað þróun sem hefur leitt til hálf-
gerðs forsetaeinræðis þar sem lítið
er gefið fyrir eðlilega pólitíska tog-
streitu og átök en áherslan öll á skil-
virka forystu – eða að minnsta kosti
forystu sem getur látið líta svo út að
hún sé skilvirk.
Einn fundarmanna, rúmlega sjö-
tug kona, segir að árlega minnist
hún og dálítill hópur fólks sem tók
þátt í að verja þinghúsið haustið
1993 þessara atburða með samkomu
við Hvíta húsið. „Þetta var upphafið
að allri lögleysunni sem við erum
vitni að nú,“ segir hún. „Það hefði
ekki þurft annað en ögn af þol-
inmæði, leyfa umræðunum og tog-
streitunni að hafa sinn gang. Á end-
anum hefði eitthvað komið út úr því.
Og við værum á öðrum stað en í
dag.“
Olga Romanova er blaðamaður en kennir líka við háskóla í Moskvu. Hún á
sæti í Samhæfingarráði andstöðuaflanna og stýrir samtökum sem beita sér fyr-
ir því að réttindi fanga séu virt.
Ljósmynd/Jón Ólafsson
Moskva hefur gerbreyst á 20 árum. Háhýsi „Moskva city“, nýbyggðs fjármálahverfis, gnæfa yfir ána og byggingarnar í kring.
Ljósmynd/Jón Ólafsson
*„ Ég sé að mérhefur enginnvafi fundist leika á
því að aðgerðir
Jeltsíns væru rétt-
mætar og nauðsyn-
legar til að rjúfa
pattstöðuna og
losna við andstöðu
þingsins. Í dag er
ég á allt annarri
skoðun.“
Höfundur greinarinnar er Jón Ólafsson heimspek-
ingur. Hann var fréttaritari Ríkisútvarpsins í
Moskvu á árunum 1989 til 1992 og tíður gestur þar
síðan. Haustið 1993 fylgdist hann með átökunum við
Hvíta húsið, aðsetur Æðstaráðsins, þegar upp úr
sauð á milli forsetans Boris Jeltsíns og forystu þings-
ins og skrifaði grein um þau sem Morgunblaðið birti
10. október 1993. Hann var aftur í Moskvu í haust,
tuttugu árum síðar, og komst þá að því að lítil sátt er
um ástæður þessara atburða, hvað knúði deiluaðila áfram eða um afleið-
ingar þeirra.
Lítil sátt um ástæður atburða
Jón Ólafsson