Morgunblaðið - 06.12.2013, Blaðsíða 37
hana og talað við hana um allt sem
lá mér á hjarta. Stundum átti hún
til að hringja í mig á undarlegustu
tímum og þegar ég náði ekki að
svara biðu mín alltaf stór-
skemmtileg skilaboð inni á talhólf-
inu.
Amma var einstök kona og það
sem einkenndi hana hvað mest
var hugulsemin og umhyggjan en
hún hætti aldrei, og þá meina ég
aldrei, að hugsa um aðra. Stund-
um var hún andvaka heilu næt-
urnar með áhyggjur af fólkinu
sínu og þegar hún var komin inn
á spítalann í síðasta sinn var hún
áhyggjufull yfir því að komast
ekki heim að undirbúa jólin, baka
flatkökur og kaupa allar jólagjaf-
irnar.
Ég er ótrúlega stolt yfir því að
mér sé stundum líkt við ömmu
enda var hún stórkostleg mann-
eskja sem mig langar að reyna að
líkjast. Elsku amma, það verður
engin eins og þú. Ég kveð þig nú
með bæninni sem þú kenndir mér
þegar ég var lítil:
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Stella Sif Jónsdóttir.
Hólmvísk jól hjá fimm ára
stelpu. Stofan opnuð klukkan sex
og dúkkurnar hennar, sem höfðu
allar horfið fyrir nokkrum dögum
í sitt árlega jólaferðalag, sitja
núna þarna allar í splunkunýjum
kjólum og hafa aldrei verið glæsi-
legri. Þökk sé Hinnu frænku.
Hver á frænku sem meira að
segja saumar ný föt á dúkkurnar
þínar um jólin? Eru svona frænk-
ur yfirleitt til? Ja, ég veit ekki
hvort það eru fleiri en þessi eina
– hún Hinna frænka mín. Ég
reyndar efa það. Hún Hinna
frænka mín var einstök.
Hún dreifði einhvern veginn
elsku allt um kring. Hún lét sig
allt varða og þótti vænna um sitt
fólk en gengur og gerist. Og við
vorum öll hennar fólk.
Endalaus flatkökubakstur
sem allir nutu. Og þá meina ég
allir. Um jólin fengu allir sinn
flatkökuskammt, börn, barna-
börn, barnabarnabörn, bræðra-
börn og börnin þeirra og tengda-
foreldrar þeirra líka og meira að
segja konan á efri hæðinni hjá
mér bara af því að hún hafði hitt
Hinnu einu sinni og sagt að flat-
kökurnar minntu hana á bernsk-
una. Næstu jól fékk hún líka flat-
kökur frá Hinnu.
Svona var Hinna frænka mín –
alltumvefjandi og hafði það gjaf-
mildasta minni sem sögur fara af.
Ef hún gat glatt þá gerði hún það.
Varðveittar minningar í mynd-
um. Um hver jól sendi Hinna
okkur jólakveðjur, skrifaðar eig-
in hendi og með kortinu fylgdu
alltaf myndir af okkur sem hún
hafði tekið. Hún safnaði jafnvel í
heilu albúmin myndum fyrir
hvern og einn í Hellufjölskyld-
unni. Það eru ekki mörg ár síðan
hún afhenti okkur Onna slíkt al-
búm.
Já, það eru svo endalaust
margar fallegar og ógleymanleg-
ar myndir sem koma upp í hug-
ann, núna þegar hún Hinna
frænka kveður.
Kökudunkar fullir af ilmandi
hjónabandssælu í tjaldútilegu.
Kleinur og partar að hætti ömmu
á Hellu með Hinnu-handbragði.
Óteljandi sérsaumaðar sængur-
gjafir þegar allir í stórfjölskyld-
unni eignuðust börn. Ljósmyndir
í umslagi um jól. Rauð rós í vasa
á sjúkrahúsi.
Gleði, gleði, gleði og best þeg-
ar allir voru saman í kaffi og
kræsingum. Flatkökur með
hangikjöti – smurðar að morgni
áður en aðrir vakna. Svarta-
rjómalognið við Steingrímsfjörð-
inn. Rúlluterta með sultu og
sykri. Útsýni yfir höfuðborgina.
Ávaxtagrautur með rjóma um
Helluhelgi. Saumaskapur á
heimsmælikvarða. Suðurstofan,
sófinn og ástarsögur Margit
Ravn. Rás 2 og vakað fram á nótt
– maður sefur bara seinna. Mýkt
og hnyttni og endalaus elska.
Já, það eru svo margar minn-
ingamyndirnar sem koma upp í
hugann. En fyrst og fremst er það
þakklæti fyrir að hafa átt frænku
sem átti ekki sinn líka, Hinnu
frænku.
Við, Onni og krakkarnir okkar,
Sigríður Eir og Vígþór Sjafnar,
Ashley og Brími, sendum Elínu,
Önnu Siggu, Jöja og Tobbu og
fjölskyldum þeirra okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Minningin um einstaka konu
mun lifa.
Sif Vígþórsdóttir.
Svo stórt og hlýtt hjarta, svo
stór og hlýr faðmur. Þessi smáa
kona, þessi hlýja, glaðværa, allt-
umvefjandi, stórkostlega kona.
Hinna frænka mín, fósturmóðir og
vinkona. Nú hefur hún lokið lífs-
göngu sinni.
Hvernig get ég kvatt hana
Hinnu sem hefur alltaf verið til?
Hana sem hefur alltaf verið til
staðar fyrir mig. Fyrir lítinn
strák, stálpaðan ungling og full-
orðinn mann. Tilbúin að hugga lít-
inn snáða, sauma og gera við það
sem bilaði, vakna um nætur og
gefa svöngu ungmenni að borða,
taka á móti fjölskyldu fullorðins
manns austan af landi, hringja á
afmælinu – klikkaði aldrei – senda
flatkökur um hver einustu jól og
svo ótalmargt fleira gott sem hún
gerði fyrir mig og svo marga fleiri.
Alltaf með gleði í hjarta, alltaf
stutt í glensið, alltaf full af vænt-
umþykju og virðingu gagnvart
fjölskyldu og vinum – gagnvart
fólki.
Það sem ég á þó eftir að sakna
mest, eru samskipti okkar, sam-
tölin og nærveran, hlý, glettnisleg
og gefandi. Á árunum sem ég bjó
hjá henni mynduðum við órjúfan-
leg tengsl. Hún var ekki bara fóst-
urmamma mín heldur líka vinur
sem ég gat talað við um flest. Allt-
af stutt í gleðina og viljann til að
lifa vel og gera öðrum gott.
Lífið færði henni sinn skerf af
erfiðleikum og mótlæti en lífsgleð-
in og dugnaðurinn dugðu henni
best. Hún virtist aldrei þurfa að
sofa. Gekk síðust til náða og fór
fyrst á fætur – ef hún sofnaði þá
nokkuð. Hún lifði fyrir fólkið sitt;
börnin, barnabörnin, barnabarna-
börnin og okkur hin. Ekkert veitti
henni meiri gleði en að vera með
sínu fólki.
Ég er einn úr barnahópnum
hennar Hinnu. Við erum nefnilega
mun fleiri en þau sem hún ól í
þennan heim. Það erum líka við
sem hún ól önn fyrir í þessum
heimi. Ég, systkini mín, hin systk-
inabörnin frá Hellu og okkar börn.
Hún er einskonar ættmóðir okkar
– líka félagi – eina Hellusystkinið
sem við systkinabörnin buðum
nokkurn tíma í okkar partí. Hún
var svo ung í anda og vildi hafa
fjör. Það fór ekki alltaf mikið fyrir
henni þegar við í Helluættinni
komum saman – en okkur fannst
öllum betra að vita af henni á
staðnum. Hún var límið sem hélt
okkur saman, passaði upp á að við
skrifuðum í gestabókina og skrá-
setti allt með myndavélinni sinni –
alveg fram á síðustu stund sína.
Ég er viss um að það eru ekki
margar fjölskyldur sem eiga jafn
vel myndskráða sögu og við og
það er Hinnu frænku að þakka.
Það vantar eitthvað í veröldina.
Það vantar Hinnu frænku. Hvern-
ig á ég að kveðja þessa konu sem
var mér svo góð og mér þykir svo
ofur vænt um? Mín kveðja er lof-
orð um að reyna sem best ég get
að tileinka mér hennar gildi,
standa vörð um lífsgleðina og láta
mér umhugað um fólkið mitt.
Elsku Ella, Anna Sigga, Jör-
undur og Tobba. Þið og ykkar fjöl-
skyldur eruð og verðið mitt fólk,
mamma ykkar sá til þess. Við sitj-
um eftir og söknum hennar en eig-
um áfram hvert annað – það mik-
ilvægasta í hennar lífi – og það
varðveitum við saman.
Í minningu Hinnu frænku.
Börkur.
Fríða byggð á fjarðaströndum,
fagra vaggan mín.
Fríða byggð.
Hvar sem við í straumi stöndum
strýkur hugann vængjum þöndum
máttug minning þín.
Ættarbyggð, þinn arinn mætur
æskuskjól var mitt.
Ættarbyggð.
Unaðslega í eyrum lætur,
yljar barns þíns hjartarætur
að nefna nafnið þitt.
Heim til þín minn huga seiðir
hjartans tryggðaband.
Heim til þín.
Hvar sem mínar liggja leiðir
og lífs míns dögum tíminn eyðir,
þú ert mitt óskaland.
(Jörundur Gestsson frá Hellu)
Nú er elskuleg föðursystir
mín, hún Hinna, komin til óska-
landsins. Steingrímsfjörðurinn
var frænku minni alltaf ofarlega í
huga og taugarnar sterkar til
æskustöðvanna líkt og hjá föður
hennar, Jörundi frá Hellu.
Hún tók mikið af myndum og
ófáar á Hellu við fjörðinn góða. Í
notalegu stofunni hennar er
mynd sem hún hafði tekið í
þrennu lagi af Steingrímsfirði og
eitt af barnabörnum hennar setti
hana saman í eina svo hægt væri
að sjá hann í heild sinni. Hún var
afar stolt af þessari mynd sem
prýðir veggina ásamt ótal mynd-
um af fríðum hópi afkomenda.
Hinna var mikil fjölskyldumann-
eskja og vildi hafa fólkið sitt allt í
kringum sig sem oftast.
Hugurinn leiðir mig á Hellu
þar sem ég var svo heppin að
vera með frænku minni oftar en
einu sinni að sumri til. Sé hana
fyrir mér lágvaxna, hand- og
fótsmáa eins og Elínu ömmu en
með hrafnsvarta þykka hárið úr
föðurættinni. Ekkert var þó
smátt í hennar skapgerð og vilj-
inn sterkur ef hún hafði hug á
einhverju.
Alltaf var hún mætt í eldhúsið
á morgnana og farin að baka
skonsur og hafa til morgunmat.
Ilminn lagði um húsið og fólkið á
staðnum, oft var mannmargt, lét
ekki á sér standa að njóta þess
sem fram var borið.
Þar sem ég stikla á steinum
minninganna lendi ég í fallegum
garði, tveggja ára, ásamt föður
mínum þar sem tekin var mynd
af okkur. Við vorum bæði spari-
klædd og ég í hvítri kápu sem
Hinna frænka hafði saumað á
mig. Mörgum árum síðar færði
Hinna mér þessa fallegu ljós-
mynd af mér og pabba að gjöf
sem mér hefur ætíð þótt mjög
vænt um. Hinna var mikil sauma-
kona og saumaði talsvert á börn-
in sín og barnabörn. Mér er
minnisstætt þegar hún heimsótti
mig í vinnuna að sumri til fyrir
u.þ.b. 20 árum ásamt tveimur
ömmustelpum, nöfnu sinni Guð-
finnu Erlu Jörundsdóttur og
Stellu Sif Jónsdóttur. Þær voru
svo fínar í ljósrauðum drögtum
með hatt og veski í stíl og allt
þetta hafði amma saumað á þær.
Endalaust væri hægt að rifja
upp minningar um mína ástkæru
föðursystur en nú læt ég staðar
numið og þakka henni af öllu
hjarta fyrir allt það góða sem hún
gerði fyrir mig. Ég sakna hennar
sárt en trúi því að við hittumst
aftur í Óskalandinu.
Blessuð sé minning Hinnu
frænku.
Elín Ágústa.
Elsku Guðfinna. Það er mikill
missir að þér og erfitt að kveðja
þann mennska sólargeisla sem
þú varst. Við getum þó vermt
okkur við að þú færð að halda
komandi hátíð í góðum fé-
lagsskap. Sumir segja að ekki séu
alltaf jólin en í raun voru ætíð jól
hjá þér því í hjarta þínu bjó ávallt
hinn sanni jólaandi og líf þitt ein-
kenndist af einskærri hlýju og
náungakærleik. Þú verður efa-
laust hjá okkur öllum í anda um
ókomin ár og eins og aðrir sól-
argeislar mun birta þín og hlýja
halda áfram að ná til okkar hinna
þó að við náum ekki lengur til
þín.
Ég vildi bara kveðja þig með
þessum fáu línum, Guffa mín, og
þakka þér fyrir allt. Hvíl þú í
friði.
Einar Ísaksson.
Guðfinna Erla, amma okkar,
var góð og brosmild kona. Hún
lét sér annt um vini sína og fjöl-
skyldu, fann til með þeim sem
voru minnimáttar og hjálpaði
þeim sem hún gat. Okkur fannst
alltaf gaman að koma til ömmu.
Hún hafði mikinn áhuga á ljós-
myndun og tók mikið af myndum.
Þegar við heimsóttum hana feng-
um við alltaf gott að borða og
kíktum á myndir.
Áður fyrr sat hún oft með okk-
ur systrunum þegar við vorum
litlar og ýmist kubbaði með okk-
ur, púslaði eða lék við okkur.
Amma hafði gaman af Elvis
Presley enda þótti henni hár-
prúðir strákar myndarlegir.
Stundum sátum við saman og
horfðum á myndina Hairspray,
þar sem allir voru dansandi og
syngjandi og notuðu tonn af hár-
spreyi. Eitthvað sem amma
kannaðist við frá því hún var ung.
En það skemmtilegasta við
myndina var að gera grín að því
hvað John Travolta var rosalega
ljótur kvenmaður.
Amma kenndi okkur margt.
Ein skemmtileg minning er frá
því að hún sat með Áróru í fang-
inu í gamla gula stólnum okkar
og kenndi henni að reima á sig
skóna.
Þegar við bjuggum í Dan-
mörku kom hún að heimsækja
okkur og þar áttum við saman
yndislega daga. Amma kom líka
stundum að heimsækja okkur á
Sauðárkrók á meðan hún hafði
þrótt til að ferðast. Okkur þótti
alltaf leitt að búa svona langt frá
henni, hún í Reykjavík og við í
Skagafirði.
Í dag kveðjum við góða ömmu
og góða manneskju. MInningarn-
ar um hana lifa og það huggar
okkur að vita að nú er hún ein af
englum guðs. Við elskum þig,
amma. Hvíldu í friði.
Helga Sól, Áróra, Helena
Erla og Jörundur Örvar.
Öll viljum við vera rík og ham-
ingjusöm en komum oft ekki
auga á í hverju ríkidæmi og ham-
ingja eru fólgin. En þegar við
stöndum frammi fyrir stærstu
stundunum í lífinu verður okkur
ljóst að við fæðumst inn í þennan
heim jafn nakin og varnarlaus og
daginn sem við kveðjum hann.
Enginn tekur neitt með sér yfir
landamærin miklu annað en
mögulega sitt eigið orðspor og
samvisku.
Í dag kveðjum við konu, sem
vann langa og harða starfsævi,
oft fyrir lítið kaup en var þegar
upp var staðið ríkari en margur
sem telur sig ríkan. Guðfinna
Erla Jörundsdóttir fæddist og
ólst upp á þeim tímum þegar ekki
tíðkaðist að kosta ungar konur til
mikilla mennta. Með því að rekja
sitt eigið lífshlaup gat hún sagt
örlagasögu þjóðar. Sveitin, þorp-
ið, höfuðborgin. Fædd og uppalin
norður á Ströndum. Þar er lág-
skýjað, skammdegið drungalegt
en hvergi yndislegra að vaka fal-
lega vornótt þegar allt iðar af lífi
til lands og sjávar. Þar ólst hún
upp á fjölmennu heimili í stórum
systkinahópi. Óx úr grasi, fann
ástina, giftist og flutti í þorpið.
Síðar suður á mölina. Þar fæddist
yngsta barnið af fjórum. Seinna
skildu þau hjónin þegar börnin
voru uppkomin nema sú yngsta,
sem flutti með henni í blokkarí-
búð í Breiðholtinu. Þar áttu þær
heimili saman Guðfinna Erla og
Þorbjörg Elenóra, sem síðar varð
lífsförunautur minn.
Gestrisnina og glaðværðina
tók Guðfinna Erla með sér frá
æskuslóðum suður í höfuðborg-
ina. Hún var jafnaðarmaður og
hafði sterkar skoðanir. Bæði
vegna þess að hún þurfti að vinna
hörðum höndum alla ævi til að
framfleyta sér og sínum, en ekki
síður vegna þess að hún bar alltaf
fyrir brjósti hag þeirra sem
minna mega sín. Hennar sýn á
menn og málefni mótaðist af
þessum lífsviðhorfum. Ef talið
barst að kjarasamningum sagði
hún gjarnan að atvinnurekend-
um vær nær að tala minna um
hagvöxt og verðbólgu og bara
borga fólki almennilegt kaup,
sem það gæti lifað af. Og þegar
þessar rökræður voru teknar lá
henni ekki lágt rómur. Henni
varð ekki oft orða vant, en þó
tókst okkur að gera hana orð-
lausa í sjötugsafmælinu þegar
þar birtist hennar jafnaðar-
mannaforingi, Jón Baldvin
Hannibalsson, með Bryndísi
Schram, sem ekki var síður í
uppáhaldi hjá okkar konu.
Á okkar heimili var hún alltaf
kölluð Amma Guðfinna. Hún var
með okkur þegar börnin komu í
heiminn og gaf sér ávallt góðan
tíma til að vera með þeim, leið-
beina og vera til staðar. Hjá
Ömmu Guðfinnu var mikill gesta-
gangur, fjölskyldan stór, barna-
börnin og barnabarnabörnin
mörg. Vinum og kunningjum
þótti gaman að koma við, spjalla
og fá kaffi og með því og svo var
kvittað fyrir í gestabókina. Þær
bækur eru orðnar býsna margar
og innihalda ófá gullkorn. Henn-
ar bestu stundir voru þó senni-
lega á æskuheimilinu á Hellu á
Selströnd. Þangað fór hún oft á
sumrin með börnum sínum og
stórfjölskyldunni og var þar á
hverju ári ævina alla, síðast í ber-
jatínslu nú í haust. Sem betur fer
gat Amma Guðfinna lengst af bú-
ið heima og hugsað um sig sjálf.
Undir lokin dvaldi hún á hjúkr-
unarheimilinu á Landakoti og
þar var ekki síður gestkvæmt en
heima. Síðasta ferðalagið með
henni var í Hörpuna að sjá Áróru
okkar keppa í Stíl, hönnunar-
keppni félagsmiðstöðva grunn-
skóla.
Amma Guðfinna var ávallt
sjálfri sér samkvæm og skilaði
óaðfinnanlega vel því sem henni
var trúað fyrir í lífinu. Þess
vegna dó hún eins og hún lifði,
umvafin fjölskyldu, vinum og
vandamönnum, sem vildu votta
henni virðingu og þakka fyrir
samfylgdina á ævidegi sem var
að kveldi kominn.
Árni Gunnarsson.
MINNINGAR 37
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. DESEMBER 2013
✝ EyvindurGarðar Frið-
geirsson fæddist í
Wynyard, Saskatc-
hewan, Kanada, 21.
febrúar 1929. Hann
andaðist á heimili
sínu, Grandavegi
39b í Reykjavík, 25.
nóvember 2013.
Foreldrar hans
voru hjónin Iðunn
Jónsdóttir verka-
kona, f. 28. janúar 1903, d. 7.
maí 1957, og Friðgeir Laxdal
Friðriksson rafvirki og sjómað-
ur, f. 1. janúar 1899, d. 13. sept-
ember 1934, en þau ólust bæði
upp á Snæfellsnesi. Systir Ey-
vindar er Guðrún, f. 1. júní 1930.
Fleiri systkini átti Eyvindur
ekki. Hann var einhleypur og
barnlaus.
Á fyrsta ári fluttist Eyvindur
með foreldrum sínum frá Kan-
ada heim til Íslands. Fimm ára
gamall missti hann föður sinn og
ólst síðan upp hjá móður sinni
einni, en var þó í fóstri í fáein ár
að Stórulaugum í
Reykjadal hjá góðu
fólki. Þá kom hann
aftur til móður
sinnar og systur á
Húsavík og gekk
þar í barnaskóla
frá 10 ára aldri.
Haustið 1943 fór
Eyvindur til dvalar
hjá föðursystur
sinni í Reykjavík.
Hún vildi styðja
hann þar til náms, en illu heilli
veiktist hann og tvö önnur börn
á heimilinu af berklum þennan
vetur. Eftir það dvaldist Eyvind-
ur á berklahæli á Vífilsstöðum
og síðar á Reykjalundi næstu ár-
in. Hann náði góðri heilsu á ný
og bjó með móður sinni í
Reykjavík, en eftir að hún lést,
árið 1957 bjó hann einn. Hann
stundaði ýmis verkamannastörf,
lengst af byggingarvinnu, en
einnig bifreiðaviðgerðir. Útför
Eyvindar fer fram frá Neskirkju
í dag, 6. desember 2013, og hefst
athöfnin kl.13.
Eyvindur Garðar Friðgeirs-
son, bróðir minn, var ókvæntur
alla ævi og bjó hjá móður okkar
þangað til hún lést, árið 1957.
Eftir það var hann alla tíð einn
síns liðs. Hann var einstaklega
vandaður maður sem ekki mátti
vamm sitt vita, heiðarlegur og
áreiðanlegur í öllu, hvar sem
hann fór. Hann vildi öllum vel,
gjafmildur og góðviljaður, alltaf
tilbúinn að rétta fram hjálpar-
hönd þeim sem hann var sam-
ferða og þurftu einhverja að-
stoð. Hann naut þess að færa
börnunum í fjölskyldunni eitt-
hvað sem hann vissi að myndi
gleðja þau. Hann var glaðlynd-
ur og ræðinn, vel að sér um
margt, enda vel lesinn og stál-
minnugur. Það var oft gaman að
hlusta á hann.
Í veikindum sínum sem ung-
lingur fór hann á mis við margt
en aldrei var að heyra neinn
kvörtunartón frá honum. Hann
naut mjög útivistar og ferða-
laga og fór oft með fjölskyldu
minni í gönguferðir eða öku-
ferðir með nesti til fallegra
staða. Við systkinin gátum
endalaust rifjað upp löngu liðna
atburði á Húsavík og minni
hans var óbrigðult. Eyvindar er
sárt saknað.
Guðrún Friðgeirsdóttir
Eyvindur Garðar
Friðgeirsson
Að skrifa minningagrein
Ekkert gjald er tekið fyrir birtingu minningagreina.
Þær eru einnig birtar á www.mbl.is/minningar.
Skilafrestur minningagreina er á hádegi tveimur virkum
dögum fyrir útfarardag, en á föstudegi vegna greina til
birtingar á mánudag og þriðjudag.
Fjöldi greina í blaðinu á útfarardag ræðst af stærð blaðsins
hverju sinni en leitast er við að birta allar greinar svo fljótt
sem auðið er. Hámarkslengd minningagreina er 3.000
tölvuslög með bilum. Lengri greinar eru vistaðar á vefnum,
þar sem þær eru öllum opnar.