Morgunblaðið - 06.12.2013, Blaðsíða 48
48 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. DESEMBER 2013
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Þetta eru minningar og stemningar
sem ég hef upplifað sem tengjast
náttúrunni,“ segir Árni Heiðar Karls-
son djasspíanóleikari um plötuna sína
Mold sem nýverið kom út. Að sögn
Árna Heiðars er platan sjálfstætt
framhald af plötunni Mæri, sem út
kom árið 2009 og hlaut góða dóma
auk þess að vera tilnefnd til Íslensku
tónlistarverðlaunanna sem besta
djassplata ársins. Spurður hvernig
plöturnar tvær tengist segist Árni
Heiðar hafa notað sömu vinnuað-
ferðina við þær báðar.
„Í kringum 2007 var ég, eftir
margra ára strangt tónlistarnám,
kominn að þeim tímamótum að ég
vildi finna mína eigin rödd og skapa
tónlistina sem mig langaði til að
heyra,“ segir Árni Heiðar og tekur
fram að hann hafi þá sest við píanóið
og byrjað að vinna út frá því sem kom
til hans. „Ég vinn lögin alfarið út frá
eyranu eða hlustuninni og án blaða.
Það er ekki fyrr en ég er búinn að
kenna sjálfum mér lögin og spila þau
margoft í gegn sem ég skrifa þau loks
niður,“ segir Árni Heiðar og bætir
við: „Stundum gerist það að ég
gleymi lögum eða lagabútum aftur og
þá finn ég bara eitthvað annað sem
passar betur. Það sem situr eftir er
það sem höfðaði mest til mín. Þannig
leyfi ég minninu að velja úr hvað sé
gott,“ segir Árni Heiðar og viður-
kennir að þessi vinnuaðferð geti verið
tímafrek. „En þetta virkar!“
Þreyttur að loknum heyskap
Aðspurður segist Árni Heiðar leita
sér innblásturs í náttúrunni þegar
hann sé að semja og bera margir
lagatitlar það með sér, s.s. „Heylykt“,
„Saltrákir“, „Ský“ og „Spretta“.
„Þetta eru að mestu lágstemmdar
stemningsmyndir. Allt eru þetta nátt-
úrufyrirbrigði sem maður getur upp-
lifað á margan hátt. Heylykt hefur í
mínum huga sterka tengingu við
sveitina og það að vera þreyttur að
loknum heyskap á góðviðrisdegi,“
segir Árni Heiðar. Spurður hvort
meira fari fyrir einni árstíð en ann-
arri svarar Árni Heiðar um hæl:
„Þarna er kannski minnst af vetri.
Það helgast sennilega af því að enn
sem komið er hef ég meira gaman af
hinum árstíðunum þremur og er ekki
alveg búinn að meðtaka veturinn á
sama hátt og hinar árstíðirnar. Mað-
ur er kannski líka meira inni á vet-
urna. Um leið og ég segi þetta horfi
ég úr vinnustofunni minni út um
gluggann á fegurðina yfir sundin
blá,“ segir Árni Heiðar og tekur fram
að útsýnið úr vinnustofunni sé sér oft
innblástur við tónsmíðarnar.
Í samtali við Morgunblaðið segist
Árni Heiðar einnig fá mikinn inn-
blástur frá börnum sínum, Salvöru
sem er fjögurra ára og Vöku sem er
eins árs. „Þær eru miklir dansarar og
söngvarar,“ segir Árni Heiðar, sem
fylgt hefur eldri dóttur sinni í Suzuki-
fiðlutíma í rúmt ár. „Sú eldri, sér-
staklega, hefur alist upp við mína
músík, en reyndar er ég að spila svo
víða annars staðar en heima hjá mér.
Og eftir að ég fékk vinnustofu spila
ég mest þar.“
Húmor í bland við hátíðleika
Tónlistin bæði á Mæri og Mold er
útsett fyrir tríó, en meðleikarar Árna
Heiðars á Mold voru Þorgrímur
Jónsson á kontrabassa og Scott
McLemore á trommur. Á hádegis-
tónleikum í Háteigskirkju í dag milli
kl. 12.00-12.30 mun Árni Heiðar einn
leika nokkur lög af nýju plötu sinni á
flygilinn auk þess að leika nokkur
jólalög og spunahugleiðingar á milli
laga. Aðspurður segir hann mikinn
mun á því að leika lögin af Mold í bún-
ingi tríós eða einsamall. „Í tríói getur
maður kastað fram hugmyndum og
þarf ekki að halda uppi rytmanum,
enda hlutverkin önnur. Það felst
meira frelsi í því að vera einn, en um
leið er maður þó bundinn af því að
skapa alla hljóðmyndina sjálfur. Að
spila einn á píanó fyrir framan fólk er
því það mest krefjandi sem maður
getur gert.“
Svo skemmtilega vill til að Árni
Heiðar leikur á tvennum opinberum
tónleikum í dag, því í kvöld kemur
hann ásamt Gissuri Páli Gissurarsyni
tenór og Valgerði Guðnadóttur sópr-
an fram á jólatónleikum í Salnum kl.
20. „Þetta verða nokkurs konar stofu-
tónleikar í anda slíkra tónleika sem
við Gissur Páll höfum haldið saman
að undanförnu. Efnisskráin er blanda
af bandarískri sönglagahefð og evr-
ópskum heilagleika. Þetta spannar
því vítt svið með jafnt húmor og há-
tíðleika,“ segir Árni Heiðar. Að-
spurður segir hann ekkert launung-
armál að nóg sé að gera hjá tónlistar-
fólki í desember. „Mér reiknast til að
ég sé að leika á um tuttugu uppá-
komum í þessum mánuði,“ segir Árni
Heiðar og er þar með rokinn á næstu
tónlistaræfingu.
„Þarna er minnst af vetri“
Árni Heiðar Karlsson heldur tvenna tónleika í dag Í hádeginu leikur hann
lög af nýútkominni plötu sinni Í kvöld ræður jólastemningin ríkjum í Salnum
Ljósmynd/Sigtryggur Ari Jóhannsson
Hlustun „Ég vinn lögin alfarið út frá eyranu eða hlustuninni og án blaða,“ segir Árni Heiðar Karlsson.
Kontrabassaleik-
arinn Thomas
Martin heldur
einleikstónleika í
Kaldalóni Hörpu
í dag kl. 18, en
píanóleikari á
tónleikunum er
Katalin Lorincz.
Samkvæmt upp-
lýsingum frá
skipuleggjendum
er Martin einn frægasti klassíski
kontrabassaleikari heims.
„Hann kenndi í mörg ár við Gu-
ildhall-skólann í London en er nú
prófessor við the Royal College of
Music og the Royal Scottish Aca-
demy of Music í Glasgow. Hann er
afar eftirsóttur til kennslu í mast-
erklössum og koma nemendur hans
hvaðanæva. Hann hefur komið að
ýmsum útgáfum á tónlist fyrir
kontrabassa, einkum hjá Theodore
Presser og International Music
Company í Bandaríkjunum og G.
Billaudot í Frakklandi,“ segir í til-
kynningu.
Kontrabassatón-
leikar í Hörpu
Thomas
Martin
Dúettinn Bellstop, skipaður Elínu
Ólafsdóttur og Rúnari Sigurbjörns-
syni, fagnar í kvöld útgáfu breið-
skífu sinnar Karma með tónleikum
á Gamla Gauknum. Bellstop segir
tónlist sína flokkast undir „folk-
&roll“ og á tónleikunum í kvöld
koma Elín og Rúnar fram með
hljómsveit. Húsið verður opnað kl.
21 og stígur Indigo Wolfie fyrstur á
svið en hann vinnur nú að breiðskíf-
unni Rise með Halldóri Björnssyni
úr Legend. Hljómsveitin Slow
Mountains mun einnig leika fyrir
gesti.
Bellstop fagnar
Karma á Gauknum
Bellstop Elín og Rúnar í myndbandi við
lagið „Trouble“ af plötunni Karma.