Morgunblaðið - 23.01.2014, Síða 72
72 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. JANÚAR 2014
REDKENONLY SALON
SALONVEH
HÁRSNYRTING: RÁÐGJÖF, KLIPPING OG MÓTUN, HÁRLITUN, HÁRÞVOTTUR MEÐ NUDDI EÐA DJÚPNÆRINGU
VÖRUR Í VERSLUN: ALLT Í HÁRIÐ, HÁRLENGINGAR OG -KOLLUR, GREIÐUR, BURSTAR, BLÁSARAR
HÚSI VERSLUNARINNAR, KRINGLUNNI
S. 568 7305 • SALONVEH.IS
TÍMAPANTANIR HJÁ SALON VEH Í SÍMA 568-7305
GET THE LOOK!
AF LISTUM
Skapti Hallgrímsson
skapti@mbl.is
Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson frá Fagra-
skógi er gamalt verk, frumsýnt 1941, en aldeilis
ekki gamaldags heldur sígilt. Vel er við hæfi að
setja það á svið í vetur; í haust voru 40 ár síðan
LA varð atvinnuleikhús og eftir fáeina daga
verður liðin hálf öld frá andláti skáldsins,
heiðursborgara Akureyrar.
Tímamót þarf raunar ekki til; ævintýrið
stendur fyrir sínu, umfjöllunarefnið sígilt og
vinnubrögðin nyrðra til fyrirmyndar. Uppsetn-
ing Egils Heiðars Antons Pálssonar og sam-
starfsmanna hjá Leikfélagi Akureyrar er allt í
senn skemmtileg, falleg, fyndin og sorgleg –
ævintýrið um Jón bónda og kerlinguna, baráttu
góðs og ills, fyrirgefninguna, ástina. Ef til vill
sjálfstæðisbaráttu manns eða þjóðar.
Greinilegt var, frumsýningarkvöldið, að
áhorfendum líkaði vel. Þannig var skrafað í
hléinu og í leikslok brast á með bravóum og
húrrahrópum, mjög verðskuldað.
Hversu vondur var hann?
„Er hinum illa manni viðbjargandi?“ spurði
Hannes Óli Ágústsson í samtali hér í blaðinu á
dögunum. Hannes leikur karlfauskinn Jón, þann
drykkfellda, synduga bóndadurg. „Margt gott
getur verið í hinu illa og margt illt í hinu góða.
Við leggjum töluverða áherslu á fyrirgefning-
una í verkinu; er hægt að fyrirgefa hið ófyrir-
gefanlega? Er hægt að fyrirgefa þessum manni?
Hversu vondur var hann í raun og veru?“ spurði
Hannes og vangavelta þar um er verðugt verk-
efni.
Hversu vondur var Jón? Þrátt fyrir allt er
ást kerlingar á honum svo heit að hún fórnar
eigin sálarheill svo hann megi hljóta eilífa
himnavist. Var hann þjófur? Er sjálfsbjargar-
viðleitni alltaf þjófnaður? Fer það ekki eftir því
hvernig á það er litið?
Fólk er misjafnt, sem betur fer og margir
ekki jafn slæmir og oft er talið. „Við erum öll
breysk, en stilllum okkur misjafnlega vel,“ segir
María Pálsdóttir sem kerlingin nafnlausa í verk-
inu. María fer sérlega vel með hlutverkið. Kona
Jóns er óörugg og undirgefin framan af, en sýn-
ir þegar á líður að hún er með bein í nefinu;
gefst ekki upp þótt verkefnið sé ærið. Íslenska
þjóðin að fornu og nýju? Spyr sá sem ekki veit.
Hannes Óli er mjög sannfærandi sem Jón,
bæði lifandi og dauður, Aðalbjörg Þóra Árna-
dóttir bregður sér í sjö kvikinda líka og Hilmir
Jensson annað eins og þau gera bæði vel.
Leikararnir fjórir taka allir á honum stóra
sínum, bæði í túlkun og líkamlegu erfiði því leið-
in til himna er torsótt; helst að Jón karlinn
sleppi þokkalega, enda í skjóðu kerlingar. Lík-
lega vel við hæfi að hún haldi á karli síðasta
spölinn.
Þá er ógetið prýðilegrar tónlistar í verkinu.
Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir
Zophoníasardóttir eru hljómsveitin Eva, spila
og syngja afar fallega og fara að auki með nokk-
„Við erum öll breysk, en
stillum okkur misjafnlega vel“
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Gullna hliðið Styttra er á milli himnaríkis og helvítis en margur hyggur! Úr sýningunni nyrðra.
ur smáhlutverk í verkinu. Ljóðin eru öll eftir
skáldið frá Fagraskógi, sum flutt við kunn lög
en einnig frumsamin og tónlistin fellur eins og
flís við rass. Kemur og fer, nánast án þess að
áhorfandinn verði hennar var á stundum. Engla-
kór barnahóps er líka fallegur og mikilvægur.
Leikmynd Egils Ingibergssonar er sérlega
flott. Einföld en flókin í senn, flekinn sem er kot-
býlið í byrjun er einnig leiðin til himna og loks
grundir við hið gullna hlið. Snilldarlausn. Egill
hannaði líka lýsingu og Helga Mjöll Oddsdóttir
búningana; þar fékk gamli tíminn að halda sér og
hentaði vel. Egill Heiðar Anton Pálsson vakti
mikla athygli norðanmanna í fyrra þegar hann
leikstýrði Leigumorðingjanum – mjög góðri sýn-
ingu sem verðskuldaði mun meiri aðsókn en
raunin varð – og ekki kæmi mér á óvart að Gullna
hliðið hans verði ein eftirminnilegasta sýning LA
í mörg ár. Óhætt er að hvetja fólk til að fjölmenna
í leikhúsið. Landinn flykktist norður í leikhús fyr-
ir nokkrum árum og nú er það orðið tímabært á
ný! Kvöldstund í Samkomuhúsinu er vel varið.
» Var Jón þjófur? Er sjálfs-bjargarviðleitni alltaf þjófn-
aður? Fer það ekki eftir því
hvernig á það er litið?
Breska dagblaðið The Guardian
birti lista yfir tíu þýddar spennusög-
ur sem rithöfundurinn Ann Cleeves
mælir sérstaklega með. Hún kemur
víða við í valinu en velur að sleppa
skandinavískum bókum. Röddin eft-
ir Arnald Indriðason kemst þó á
listann og það er ekkert svindl, eins
og Cleeves tekur fram, því Ísland
teljist ekki til Skandinavíu – þótt
Norðurlandabúar skilgreini þennan
heimshluta á annan hátt.
Cleeves segir Arnald skrifa
glæpasögur sem eru „álíka svalar
og landslagið þar sem þær gerast.“
Hún lýsir efni sögunnar, þar sem
maður hefur verið stunginn
skömmu fyrir jólin á hóteli þar sem
hann starfar, og segir andstæð-
urnar milli lífs starfsmannanna og
jólaboðanna sem þar eru haldin
endurspegla andstæðurnar í sam-
félaginu í heild.
Hún mælir meðal annars með
sögum eftir Georges Simenon, Fred
Vargas, Tonino Benacquista, Dom-
inigo Villar og Deon Meyer.
Spenna Arnaldur á lesendur víða.
Röddin eftir
Arnald á
listanum
Bandaríski leik-
stjórin Quentin
Tarantino kveðst
vera hættur við
að leikstýra
vestra með
vinnuheitinu The
Hateful Eight,
eftir að handrit-
inu hafði verið
lekið. Hann lét
þrjá leikara hafa
eintak, Michael Madsen, Bruce
Dern og Tim Roth, veit að Roth er
saklaus en grunar helst Dern.
Í samtali við vefmiðilinn Deadl-
ine segist Tarantino æfur verða að
blása myndina af, eftir að handritið
lak út og komst í umferð.
Þess í stað ætlar hann að gefa
handritið formlega út á bók og sjá
svo til eftir svona fimm ár, hvort
hann geri eftir því mynd.
Hættir við
vegna leka
Quentin
Tarantino
Grégory Cattan-
eo heldur erindi
um benediktína-
klaustrið á Þing-
eyrum og völd í
héraði í dag,
fimmtudag, í
stofu 423 í Árna-
garði í Háskóla
Íslands.
Cattaneo er
doktorsnemi í sagnfræði við Sor-
bonne-háskóla og Háskóla Íslands.
Doktorsverkefni hans fjallar um
völd í íslensku samfélagi á miðöld-
um og rannsóknir hans lúta einkum
að hernaðarsögu og lénsveldum.
Í fyrirlestrinum verður fjallað
um hvernig benediktínaklaustrið á
Þingeyrum beitti áhrifum sínum í
héraðinu frá stofnun þess á fyrri
hluta 12. aldar fram til miðrar 13.
aldar. Þingeyraklaustur er elsta og
áhrifamesta benediktínaklaustrið á
Íslandi á þessum tíma. Einnig gerir
hann grein fyrir rannsóknum á
tveimur íslenskum fornbréfum.
Fyrirlestur um
Þingeyraklaustur
Þingeyrakirkja