Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.03.2014, Síða 58
58 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23.3. 2014
BÓK VIKUNNAR Sannleikurinn um mál Harrys Quebert
eftir Joël Dicker er glæpasaga sem allir unnendur slíkra sagna
verða að lesa. Saga sem kemur stöðugt á óvart.
Bækur
KOLBRÚN BERGÞÓRSDÓTTIR
kolbrun@mbl.is
Ef einhver á ekki þessa bók og hefurekki lesið hana þá skal hann geraþað núna,“ sagði Ásdís Benedikts-
dóttir, hinn öflugi bóksali í Eymundsson
á Skólavörðustíg, og átti þar við Veröld
sem var eftir Stefan Zweig sem nýlega
var endurútgefin í kilju. Líkt og svo ótal-
margir aðrir hefur Ásdís sérstakt dálæti
á þessari minnisstæðu bók og á örugg-
lega eftir að mæla með henni við marga
viðskiptavini sem vilja fá góðar og traust-
ar leiðbeiningar við bókakaup.
Veröld sem var, hin ástsæla bók Stef-
ans Zweig, kom fyrst út í íslenskri þýð-
ingu árið 1958, hefur nokkrum sinnum
verið endurútgefin og er nú komin út að
nýju. Þetta er bók sem hefur hrifið kyn-
slóðir og eitt það ánægjulegasta við vin-
sældir hennar er hversu mjög hún höfðar
til listelskra og hrifnæmra ungmenna.
Sá sem les Veröld sem var einu sinni
er líklegur til að
lesa hana aftur, og
til eru þeir sem
hafa fyrir vana að
lesa hana með
nokkurra ára milli-
bili. Fáar bækur
eru betri fulltrúar
hinna húmanísku
viðhorfa en þessi
undragóða bók þar
sem stöðugt er
minnt á mikilvægi
friðar, mildi og miskunnar í samskiptum
manna og þjóða og áhersla lögð á hinn
undursamlega mátt listarinnar. Persónur
bókarinnar birtast ljóslifandi á síðunum,
fólk með sterk einstaklingseinkenni og
snilldarlega hæfileika og má þar nefna
Rodin, Rilke, Freud, Maxim Gorki, Rich-
ard Strauss, James Joyce og Bernard
Shaw. Zweig, sem lifði tvær heimsstyrj-
aldir, töfrar fram veröld hins liðna í
Vínarborg í byrjun 20. aldar þar sem
bjartsýnin var við völd hjá ungu og hæfi-
leikaríku fólki sem trúði á mátt þess góða
en lifði það að sjá hvernig nasisminn tók
völdin og tekið var að hundelta þá sem
neituðu að gangast illskunni á vald. Þeir
hlutar bókarinnar sem fjalla um uppgang
nasismans eru átakanlegir og sýna okkur
hvernig manneskjan er þegar hún er upp
á sitt versta.
Allir þeir sem unna menningu og vilja
veg hennar sem mestan og telja skapandi
og mannúðlega hugsun mikilsverða
hljóta að hafa Veröld sem var í háveg-
um. Bókin er áminning til okkar allra um
að glata aldrei mennskunni. Það er mikið
gleðiefni að þessi dásamlega bók skuli
enn á ný vera á markaði.
Orðanna hljóðan
BÓK FYRIR
ALLAR
KYNSLÓÐIR
Stefan Zweig
Ástsæl bók sem
gleymist ekki.
B
ók Bjargar Guðrúnar Gísladótt-
ur, Hljóðin í nóttinni, hefur vak-
ið gríðarlega mikla athygli og
fengið sérlega góða dóma. Bókin
er í efsta sæti metsölulista Ey-
mundsson og skömmu eftir útgáfu hennar er
önnur prentun komin út. Eins og kunnugt er
fjallar Björg í bókinni um uppvöxt sinn í
Höfðaborginni í Reykjavík á sjöunda áratug
síðustu aldar og segir frá heimilis- og kyn-
ferðisofbeldi og lýsir uppgjörinu við það
liðna.
„Ég er glöð og snortin, ég átti aldrei von á
þessum góðu viðtökum,“ segir Björg, sem er
ekki byrjandi á ritvellinum þótt ekki hafi
mikið komið út eftir hana. Hún skrifaði á sín-
um tíma ásamt Kolbrúnu Ernu Pétursdóttur
einleikinn Þá mun enginn skuggi vera til
sem fjallaði um sifjaspell og afleiðingar
þeirra og var sýndur víða um land á árunum
1994-1995 og einnig á Kvennaráðstefnunni í
Turku og síðan í Svíþjóð og Noregi. Árið
1995 kom svo út ljóðabók eftir Björgu, Sigur-
vegarinn sárfætti, og sama ár tók hún þátt í
höfundasmiðju Borgarleikhússins og skrifaði
þar einþáttung um ástir tveggja kvenna og
fordóma samfélagsins gagnvart þeim.
Björg, sem hefur lengi unnið sem ráðgjafi
hjá Stígamótum, útskrifaðist sem bókmennta-
fræðingur frá Háskóla Íslands árið 2008 með
ritlist sem aukagrein. „Ég skrifaði Hljóðin í
nóttinni á einu ári en hafði lengi gengið með
hugmyndina,“ segir hún. „Mér var mikið í
mun að skrifa bókina þannig að hún stæði
sem bókmenntaverk og ég vildi forðast allt
tilfinningaklám. Ég gef mikið af mér í þessari
bók og það gekk nærri mér að skrifa hana en
ég var líka tilbúin til þess. Það er mér gríðar-
leg hvatning að fá öll þessi góðu viðbrögð og
svo sannarlega ætla ég mér að skrifa meira.
Á síðasta ári sótti ég um listamannalaun en
fékk þau ekki en mér finnst líka sanngjarnt
að ég þurfi að sanna mig. Mig langar að
skrifa og ég á djúpan brunn og mér finnst
það vera köllun mín að koma því sem þar er
á framfæri.“
Björg segist hafa mikla unun af bóklestri.
„Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur, verð
að hafa bækur á náttborðinu og les uppi í
rúmi á hverju einasta kvöldi. Ég á mikið af
bókum, er grúskari og hef gaman af alls kon-
ar bókum, þar á meðal heimspeki, siðfræði og
sálfræði.“ Framundan hjá Björgu er sam-
starfsverkefni hennar og konu hennar. „Kon-
an mín, Guðbjörg Ottósdóttir, aðjunkt í fé-
lagsráðgjafdeild HÍ, er að ljúka doktorsnámi
í Englandi en hún hefur verið að rannsaka
hælisleitendur og andlega og líkamlega fötl-
un. Hún hefur líka verið að kynna sér þá að-
stoð sem ungt fólk veitir á heimilum þar sem
börn búa við alkóhólisma eða önnur vanda-
mál. Saman erum við að undirbúa fyrir-
lestraröð þar sem við nýtum bókina mína og
fræðum þjóðina sömuleiðis um þarfir barna
sem búa við vandamál á heimilum, eins og til
dæmis alkóhólisma. Bretar hafa verið að gera
marga góða hluti í þessum málum sem við
ætlum að miðla áfram og munum prufukeyra
fyrirlestrana hjá Rótinni, sem er félag um
málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda.“
Spurð hvort hún sé með aðra bók í smíðum
segir Björg:
„Mér finnst gaman að yrkja ljóð og á mik-
ið til af þeim, en þarf að skoða þau nánar og
yfirfara. Ég hef verið að punkta hjá mér
hugmyndir að skáldsögu og svo er ég með
hugmynd að leikriti. Það er spennandi að sjá
hvað kemur næst. Ég hef gaman af að tak-
ast á við ólík form í ritlist. Við sjáum til
hvað gerist, hvaða hugmynd nær yfirhend-
inni.“
UNDIRBÝR FYRIRLESTRARÖÐ ÁSAMT KONU SINNI
Ætla að skrifa meira
„Mig langar að skrifa og ég á djúpan brunn og mér finnst það vera köllun mín að koma því
sem þar er á framfæri,“ segir Björg sem er bæði með hugmynd að leikriti og skáldsögu.
Morgunblaðið/Eggert
HLJÓÐIN Í NÓTTINNI, BÓK BJARG-
AR GUÐRÚNAR GÍSLADÓTTUR,
HEFUR VAKIÐ MIKIÐ UMTAL OG
FENGIÐ AFAR GÓÐA DÓMA. BJÖRG
SEGIR AÐ HINAR GÓÐU VIÐTÖKUR
SÉU SÉR MIKIL HVATNING.
Uppáhaldsbækurnar mínar í gegnum tíðina eru svo óteljandi margar
að ég verð að viðurkenna að ég fyllist duggunarlitlum valkvíða að
draga einhverjar þeirra út úr hugskoti mínu og nefna þær. En manninn
skal víst reyna og því við hæfi að nefna hér fyrstar til
sögunnar bækur Albert Camus sem ég las upp til
agna samhliða Íslendingasögum og Eddukvæð-
um í menntaskóla. Þar áður, sem barni og tæplega
unglingi, voru mér bækur Steinbeck og Heming-
way kærkomið lesefni samhliða skólaljóðunum ís-
lensku í bláu vinylkápunni. Í HÍ, í almennri bók-
menntafræði, hafði ég sérstakt yndi af Hómer,
Dostojevskí, Majakovskí og sögum suðuramer-
ískra töfraraunsæishöfunda.
Núna í seinni tíð eru mér Ævintýri H.C. Andersen sérlega kær
og einnig ljóð Önnu Akhmatovu en þau les ég eins og svo óteljandi
margt annað á ensku og beint af gúgglinu í endalausri leit minni að
einhverju og ég hef ekki hugmynd um að hverju ég er að leita en veld-
ur mér alltaf undrun og sælu með jöfnu millibili að finna þar gersemar
að lesa. En ein er sú bók sem er í almestu uppáhaldi hjá mér og það
er Bókin um veginn eftir Lao Tze og þá vitaskuld í snilldarþýð-
ingu þeirra bræðra Jakobs Smára og Yngva Jóhannessona. Hana
les ég á hverju kvöldi, alltaf eitthvað um allt og ekkert. Það er gott
veganesti, hvort heldur er í raunheimum eða draumheimum, hvar og
hvenær sem.
Í UPPÁHALDI
PÉTUR ÖRN BJÖRNSSON
ARKITEKT
Pétur Örn Björnsson fylltist valkvíða þegar hann var beðinn um að nefna
uppáhaldsbækur sínar, en val hans er til fyrirmyndar.
Morgunblaðið/ÓmarAlbert Camus