Morgunblaðið - 30.04.2014, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 30.04.2014, Blaðsíða 30
30 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. APRÍL 2014 „Mínir vinir fara fjöld, feigðin þessa heimtar köld“. Þá er þess eftir að minnast, er einna sízt skyldi eftir liggja óbættur hjá garði: Barði Frið- riksson hæstaréttarlögmaður. Kynni okkar Barða hófust snemma árs 1955 og stóðu óslit- ið síðan. Í byrjun með því að ég hóf að starfa á skrifstofu Vinnu- veitendasambands Íslands við Tjörnina og æ síðan með kynn- um við veiðar, lax og silungs, uppstyttulaust í nær sex áratugi eða þar til árið 2000 að okkur þótti nóg komið í sókn í rjúpuna á Skógarströnd. Mátti þá loks segja að veiðiferðum okkar Barða væri lokið. Ávallt hélst þó vinátta mikil sem lauk ekki með- an báðir héldu lífi. Undirritaður er innilega þakklátur fyrir samfylgdina við Barða og hans eilífu vináttu. Hann þakkar og alla vináttu fjölskyldu Barða, Þuríðar, Lauf- eyjar, Margrétar og Þorsteins. Sá maður er auðugur sem slíka á að vinum ævilangt. Sverrir Hermannsson. Fyrstu kynni okkar Barða urðu í barnaskólanum heima í blessaðri Núpasveitinni okkar við Kópasker í Norður-Þingeyj- arsýslu. Við vorum sveitungar frá sínum bænum hvor, hann frá Efrihólum, ég frá Arnarstöðum. Þetta var heimavistarskóli og urðu samvistir því nánari og langstæðari en ef um dagskóla væri að ræða. Þar tókst með okkur, sem ungum drengjum, hrein, fölskvalaus og djúpstæð vinátta – vinátta sem entist alla ævi en aldrei bar skugga á – þvert á móti dýpkaði hún og treystist með árunum. Barði var hátt metinn og far- sæll lögmaður. Víða skipaði hann sess formennsku og ráð- gjafar í veigamiklum málum, eins og vel kemur fram í dán- artilkynningunni í Morgun- blaðinu 23. þ.m. bls. 9 – eft- irsóttur sakir fjölbreyttra kosta sinna. Mikill mannvinur var hann, leitaði jafnan hins rétta og sanna, trúaður og hjartahlýr … mátti ekkert aumt sjá, utan úr að bæta. Traustur skjöldur í skarði var sköfnungurinn minn Barði, „Leikinn“ í „ Laga Garði,“ sem lofðungur mál sín varði, munar hár mælikvarði. „Þannig var vinur minn Barði.“ Kæra Lúlú (svo var frúin hans Barða kölluð í daglegu tali), aðrir ástvinir og kunningj- ar! Meðtakið hjartkæra samúð frá mér og fjölskyldu minni. Minningamyndin er fögur og hrein. Látum hana ásamt viss- unni um endurfundina sam- kvæmt fyrirheitum Frelsarans lýsa ofar skuggum grafar og dauða. Vin minn Barða kveð ég með djúpri virðingu og þakk- Barði Friðriksson ✝ Barði Frið-riksson fæddist 28. mars 1922. Hann lést 22. apríl 2014. Barði var jarðsunginn 29. apríl 2014 læti. Guð blessi ykkur öll og styrki. Jón Hjörleifur Jónsson. Einn þeirra mörgu manna sem ég ungur maður nýkominn út á vinnumarkaðinn kynntist í nýju starfi við uppbygg- ingu starfsmenntakerfis í rafiðn- aði var Barði Friðriksson, lög- maður VSÍ. Samskipti okkar urðu strax góð og áttu eftir að vara lengi og verða margþætt. Þar til viðbótar var mikil vinátta milli foreldra minna og Barða og áttu þeir vel saman faðir minn og Barði með sömu sýn á sundlaugarferðir í morgunsárið og til almennra og gleðilegra samskipta. Barði var gull af manni, gáf- aður heimsmaður, glaðsinna og skemmtilegur. Það var gaman að sitja og heyra hann segja frá. Barði var fjöllesinn og vel menntaður, kryddaði frásagnir sínar með vel völdum tilvitn- unum í öll helstu skáldverk heimsbókmenntanna sem Barði hafði algjörlega áreynslulaust á hraðbergi og eins og af sjálfu sér. Þótt Barði hefði alla burði og stöðu til þess að standa og horfa niður til óreyndra manna sem voru að reyna að ná samn- ingum við VSÍ, þá sá maður aldrei til einhverra bragða, frek- ar leiðbeindi hann mönnum hvernig þeir gætu náð fram sín- um stefnumálum. Starfsmenntun í atvinnulífinu byggðist á samspili samtaka fyr- irtækja og launamanna. Þetta samstarf gekk vel í rafiðnaðar- geiranum, en vitanlega reyndi stundum á að finna lausnir sem báðir gátu sætt sig við. Ég var starfsmaður beggja aðila og þetta varð stundum línudans. Í öllum þessum samningum reyndi á samningsvilja og ekki síður drengskap. Það er þýðingarmikið að í for- ystusveitir launafólks og vinnu- veitenda veljist hæfileikaríkt fólk. Þar skiptir öllu að orð standi, handtak sé ígildi und- irritaðs skjals. Barði ávann sér mikið traust og virðingu; ekkert síður hjá okkur mótaðilum VSÍ. Barði var ávallt tilbúinn að ræða atriði sem voru til úrbóta á vinnumarkaði og var dyggur stuðningsmaður mannréttinda, samtryggingar og velferðar. Í samtölum utan samningsher- bergjanna kom fram að ekkert var Barða eins mikil skapraun og umgengni við óprúttna menn, sama hvorum megin viðkomandi var. Eitt af viðkvæðum Barða þegar hann hrósaði mönnum sem hann hafði kynnst í Karp- húsinu var „Hann hvorki laug né sveik.“ Enda hlóðust á Barða ógrynni af ábyrgðar- og trún- aðarstörfum og átti það við allt hans lífshlaup, síðustu árin hafði hann afskipti af kjörum aldr- aðra. Viðhorf manna til Barða, allavega innan rafiðnaðargeirans var með þeim hætti að menn myndu ekki gera neinar athuga- semdir þó að hann væri okkar fulltrúi í opinberum nefndum. Barði reyndist mér að auki ákaflega vel í erfiðum deilum sem ég lenti og hann hafði oft samband að eigin frumkvæði einungis til þess að kanna hvernig gengi og ávallt var hann tilbúinn að leggja mér til góð heilræði. Við fjölskyldan stöndum í mikilli þakkarskuld eftir margar góðar stundir með Barða. Há- aldraður faðir minn sendir Barða og fjölskyldu hans þakk- arkveðjur. Við rafiðnaðarmenn þökkum gott samstarf og öfluga aðstoð við uppbyggingu starfs- menntakerfisins ásamt drengi- legum fundum um kjör okkar fólks. Við sendum fjölskyldu Barða hugheilar samúðarkveðj- ur. Guðmundur Gunnarsson, fyrrv. form. Rafiðn- aðarsambands Íslands. Kær vinur minn, Barði Frið- riksson, er nú farinn úr þessari jarðvist. Við vorum samstarfs- menn um nær 20 ára skeið, hann framkvæmdastjóri samn- ingasviðs Vinnuveitendasam- bands Íslands og ég fram- kvæmdastjóri Vinnumálasambands samvinnu- félaganna. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar ég 23 ára gamall hitti Barða fyrst árið 1966. Ég var á leið á fyrsta samningafund minn sem haldinn var í þáverandi húsnæði Vinnu- veitendasambandsins við Frí- kirkjuveg. Ég gleymi ekki þess- um vörpulega og glaðbeitta manni sem var talsvert eldri en ég og hve vingjarnlega hann tók á móti mér, þessum kornunga manni að stíga sín fyrstu skref í nýju starfi. Segja má að vinátta okkar hafi byrjað þarna við dyrastafinn og bar þar engan skugga á öll þau ár sem á eftir fylgdu. Barði var eftirminnilegur maður, hann var mannvinur og hafði einstaklega hlýtt og glað- vært viðmót. Við unnum saman að samningsgerð við hin ýmsu stéttarfélög, bæði í Reykjavík en einnig úti á landsbyggðinni þar sem hann var fulltrúi einka- fyrirtækjanna en ég var fulltrúi samvinnufélaganna, kaupfélag- anna og fyrirtækja þeirra. Ég kynntist Barða einnig utan vinnutímans, en hann hafði ótrú- legt minni og sagði sögur og fór með heilu ljóðabálkana utanað og hann var mikill gleðimaður á gleðistundum. Ég held að ég megi segja að þótt hann hafi oft framfylgt harðsnúinni stefnu at- vinnurekenda gagnvart verka- lýðsfélögunum þá hafi hann get- ið sér orð sem sanngjarn samningamaður sem gerði aldr- ei upp á milli manna og leitaði alltaf að sanngjörnum lausnum. Okkar leiðir skildi starfslega þegar ég hætti hjá Vinnumála- sambandinu en þá höfðu viðhorf mín breyst til samskipta aðil- anna á vinnumarkaðinum eins og það er nefnt. Þetta breytti hins vegar engu um vináttu okk- ar Barða. Við áttum áfram okk- ar góðu stundir þegar við hitt- umst og glöddumst saman og hann sýndi mér alla tíð þá vin- semd og hlýju sem mætti mér á mínum fyrsta vinnudegi í dyra- gættinni á Fríkirkjuvegi 3. Ég trúi því að Barði sé núna í ljóssins vídd og ég hugsa til hans þar með þakklæti og gleði fyrir okkar samferð. Ég hugsa líka með vináttu til Þuríðar, eft- irlifandi konu hans, sem og barna þeirra og fjölskyldu allrar og vona að þau finni styrk og huggun nú á þessari stund. Júlíus Valdimarsson. Nú er einn góður félagi minn, Barði Friðriksson, fallinn frá. Við vorum saman í Stúdenta- félagi Reykjavíkur og tók ég við stjórn þess félags eftir að Barði lét þar af störfum árið 1956. Síð- an lágu oft saman leiðir okkar. Hann var öðlingur að eiga fyrir vin. Alltaf fullur af glettni og bjó yfir miklum fróðleik. Barði var í forsvari fjölda félaga um ævina, en hann kunni einnig að færa sér í nyt mörg útivist- arævintýri. Barði var lipur laxveiðimaður og kastaði flugu af kunnáttu. Við veiddum saman í Norðurá og renndum þar fyrir lax. Minn- isstæðust eru mér samt ótal haustferðalög okkar Barða, er við héldum á fuglaslóðir. Var þá oft klifið á fjöll í rjúpnaleit. Er mér eftirminnileg glæsileg för okkar á Tröllakirkju á Holta- vörðuheiði. Þaðan úr nær þús- und metra hæð var fagurt út- sýni yfir vestanvert landið. Við gengum auk þess á Sátu vestan við Bröttubrekku. Þaðan mátti sjá langt út yfir Faxaflóa og Snæfellsnes. Einnig fórum við víða um láglendis-bakka á Suð- urlandi og Mýrum í Borgarfirði, er við litum eftir gæsum. Á þessum ferðum kom fram sér- stök háttprýði Barða og tillits- semi. Hann var einstaklega prúður veiðifélagi. Voru það ákjósanleg einkenni öðlingsins. Ég minnist margra fleiri góðra stunda með Barða í ýmsum samvistum okkar í Reykjavík, þar sem hann var löngum stoð og stytta hópsins. Við Sigrún sendum Þuríði og nánum ættingjum innilegar samúðarkveðjur okkar. Sturla Friðriksson, vistfræðingur. Fallinn er frá vinur minn Barði frá Efri-Hólum í Núpa- sveit sem ég unni mest og best minna skólafélaga, þeirra er mér fylgdu úr Menntaskólanum á Akureyri árið 1943. Eva, sem var okkar forsjón í máladeild, og Jón Þorsteinsson læknir hafa nú falið mér fyrir hönd bekksagn- arinnar að færa Lúlú eftirlifandi eiginkonu Barða samúðarkveðj- ur og rita örfá kveðjuorð. Á seinni árum tók bekksögnin upp á því að drekka saman miðdags- kaffi einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Við Barði sátum oftast saman, töluðum um gamla daga, hlógum og höfðum það skemmtilegt. Oftast bar á góma minningarnar úr Hornafjarðar- ferðinni okkar. Þar átti auðvitað að nota tímann og lesa mikið en hann var notaður til að spila á spil, dansa og njóta lífsins. Við fórum margar ferðir í Dilksnes til Lovísu og Björns. Þar var haldin brúðkaupsveisla Halldóru og Skafta og tvær skírnir að auki. Á heimleiðinni mættum við pabba að taka morgunveðrið. Við Steinunn þökkum vináttu og tryggð við okkur frá fyrstu tíð. Þegar við vorum í tilhugalífinu var gott að gista á sófanum hjá Lúlú og Barða og ómæld ánægja fyrir okkur að hafa hann sem gest á heimili okkar í Vestmannaeyjum þegar hann var þar að setja nið- ur vinnudeilur. Barði var ráðvandur, traustur vinur og skemmtilegur. Blessuð sé minning Barða Friðrikssonar frá Efri-Hólum í Núpasveit. Jón Hjaltason. Horfinn er heimi á háum aldri valmennið Barði Friðriks- son. Aðrir munu fjalla um merkilegt lífshlaup Barða en ég nefni aðeins einn þátt í lífsvef hans. Samvera okkar og sam- vinna í útvarpsþættinum Spurt og spjallað var aldeilis ómet- anleg mér. Barði var hvort tveggja spurningahöfundur og dómari og virtist óskeikull með öllu, í ofanálag kom hann oft með skemmtilegar athugasemd- ir eða hnyttnar sögur sem féllu að efninu. Gaman var að því þegar Barði var að ræða við mig um mögulegar spurningar, hvort mátulega þungar væru og sagði svo eftir hverja spurningu: Þetta vita nú allir og þegar hann fann að ég var á gati þá hló hann þessum innilega og smitandi hlátri og sagði: Nei, menn geta ekki vitað allt. Ógleymanlegar eru stundirn- ar með Barða, ekki sízt í bílnum, en fastur liður að ná í hann og fara með heim, en þá fór hann á kostum í sögum og fróðleik hvers konar. En mest um verð þótti mér þessi eðlislæga hlýja hans og dýrmæt er mér kveðjan góða frá honum Barða er hann þakkaði heillaóskir á stórafmæli. Mæt er mér minning þessa góða drengs í hvívetna og þökkin kær fyrir að hafa mátt eiga við hann mannbætandi kynni. Eiginkonu hans og börnum þeirra sendi ég einlægar samúðarkveðjur. Þar gekk um götur lífs góður þegn, traustur og trúr. Helgi Seljan. Við fráfall Barða Friðriksson- ar leita á hugann minningar um farsælan gleði- og gæfumann, sem var lagið að umgangast samferðamenn sína af virðingu og vinarhug. Hann lifði miklar breytingar, fæddur á Efri-Hól- um í N-Þingeyjarsýslu, yngstur margra systkina og sagði sjálfur svo frá að hann hafi þótt svo gagnslítill til verka heimafyrir að ekki hafi verið um annað að ræða en að setja hann til náms. Hann lauk lagaprófi 1949 og réðst að því loknu til starfa hjá Vinnuveitendasambandi Íslands og starfaði þar alla sína starfs- ævi, m.a. sem lögmaður samtak- anna. Þar kynntist ég Barða. Samskipti á vinnumarkaði eftirstríðsáranna báru þess sterk merki að þjóðlífið var í breytingaham, viljinn til að sækja fram á öllum sviðum var iðulega umfram getu og skiln- ingur á samhengi efnahagslegra orsaka og afleiðinga minni en í löngu iðnvæddum nágranna- löndum. Átök á vinnumarkaði voru því tíð. Í þessu umhverfi starfaði Barði sem samninga- maður vinnuveitenda. Hann var útsjónarsamur og tillögugóður og hafið þann mikla eðliskost að komast vel af við fólk. Hann leit svo á að samningagerð væri list hins mögulega og var sér mjög meðvitaður um að öllum deilum um kjarasamninga yrði fyrr eða síðar að ljúka með samningi. Og þá helst af öllu samningi sem endurnýja mætti næst án mik- illa deilna. Barði var vinmargur og vin- fastur, ættrækinn og umtals- frómur. Hann hafði lifandi áhuga á íslenskum bókmennt- um, kveðskap og kviðlingum og átti hóp félaga sem deildu þeim áhuga með honum. Hann gat á góðri stund farið með heila kvæðabálka þjóðskáldanna en oftast finnst mér hann þó hafa vitnað í hendinguna úr Einræð- um Starkaðar: Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt sem dropi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúist við atlot eitt, aðgát skal höfð í nærveru sálar. Síðasta ljóðlínan var honum hugleikin, kannski leiðarljós um það sem segja skyldi og víst er að engum manni hef ég kynnst, sem lagði sig eins í framkróka um að hrósa samferðamönnum sínum. Hann ýtti undir styrk- leika en ól ekki á veikleikum. Barði var náttúruunnandi og stundaði bæði skot- og stang- veiði. Hann var áhugamaður um stjórnmál og félagsmál almennt, virkur þátttakandi í fleiri fé- lögum um margvísleg efni. Hann og hans ágæta kona, Þur- íður Þorsteinsdóttir, áttu sér glæsilegt heimili í Úthlíðinni og auk þess sumarhús á Snæfells- nesi þar sem bæði var skotið og veitt. Lúlú var Barða sannar- lega stoð og stytta alla tíð og þá ekki síst síðustu árin þegar ald- urinn þyngdi fót. Umhyggja hennar og elja í því að tryggja Barða þær aðstæður að þau gætu búið saman í Úthlíðinni var sannarlega aðdáunarverð. Barði átti langt og gifturíkt líf að baki og skilur eftir sig góðar minningar í hugum sam- ferðamanna sem fylgja honum í dag. Þórarinn V. Þórarinsson. Látinn er í hárri elli vinur minn Barði Friðriksson, hæsta- réttarlögmaður. Leiðir okkar Barða lágu fyrst saman, þegar ég kom, ungur verkfræðingur, til starfa við stjórnun ýmissa verklegra framkvæmda á Ís- landi. Þá varð að hafa í lagi kjör starfsmanna. Til að aðstoða við að koma reglu á það var leitað aðstoðar Vinnuveitendasambands Íslands (fyrirrennara Samtaka atvinnu- lífsins). Við þetta starf naut ég handleiðslu Barða og lærði margt af honum. Enn nánari urðu kynni okkar þegar kom að byggingu Búr- fellsvirkjunar. Þar var unnið stórvirki við gerð fyrsta samn- ingsins um kaup og kjör við byggingu virkjana, Virkjana- samningsins. Barði var einn að- alráðgjafinn við gerð þessara samninga og má segja, að hann hafi borið hitann og þungann af því verki. Það get ég fullyrt, að Barði naut trausts og virðingar allra samningsaðila, hvort heldur var fulltrúa starfsmanna eða vinnu- veitenda í öllum störfum sínum. Og svo var ætíð. Samstarf okkar Barða jókst mikið þegar ég tók að mér for- mennsku Vinnuveitendasam- bandsins frá 1978 til 1985, og með okkur tókst ævarandi vin- átta. Ógleymanlegur er fjöldi funda og ferðalaga. Minnisstæð er kvöldstund heima hjá Barða, er hann fór utanbókar með fleiri síður úr höfuðbókmenntum þjóðar okkar. Því Barði var ekki aðeins góður lögfræðingur og samningamaður, sem falin voru ótal trúnaðarstörf, heldur óvenju fjölfróður og vel lesinn. Margt mátti læra af Barða, til dæmis að taka á móti gestum, það skyldi gert almennilega, eða eins og hann sagði: Það er ekki nóg að eiga veitingarnar til, það verður að halda þeim að fólki. Drengur góður er farinn að loknu vel unnu ævistarfi. Bless- uð sé minning hans. Páll Sigurjónsson. Við Barði Friðriksson vorum bekkjarsystkin í Menntaskólan- um á Akureyri. Við eigum því sameiginlegar æskuminningar, sælar og bjartar; þá virtist ver- öldin einföld og saklaus, þá hnýtast bönd sem aldrei slitna. Barði skar sig strax úr hópn- um. Talsmátinn var öðruvísi, orðaforðinn mikill og gat orðið kynngimagnaður, hann var full- orðinslegri, fróðari og vitrari. Við sögðum oft: engum er Barði líkur. Hann kom auðvitað úr rótgróinni þingeyskri menningu sem birtist í öllu hans atferli. Barði kunni utanað heilu bækurnar og ljóðabálkana. Einu sinni í skíðaferð bekkjarins þeg- ar gist var í Útgarði fór Barði með Hvarf séra Odds frá Mik- labæ í myrkrinu með slíkum til- þrifum að ég man enn hrollinn – dunar hátt í svellum dæmdur maður ríður. Við bekkjarsystkinin drukk- um saman kaffi mánaðarlega um langt skeið áður en við fórum að verða fjarska gömul og beinlínis týna tölunni. Ævinlega var Barði jafn hlýr og glaður í bragði og ævinlega var jafn kært með okkur. Góðar minningar eru sá eini fjársjóður sem enginn getur tekið frá okkur. Ég sé fyrir mér að Barði vinur minn hafi nú tyllt sér við uppsprettu lífsins þaðan sem ljósið kemur og lindirnar streyma. Svo seilist ég aðeins eftir birtu frá æskudögunum til að varpa yfir minningu Barða. Veri hún ævinlega blessuð. Margrét Indriðadóttir. ✝ Þökkum samúð við fráfall móður okkar, SIGRÍÐAR SVÖVU RUNÓLFSDÓTTUR frá Keflavík. Sérstakar þakkir til starfsfólks deildar B4 á Borgarspítala. Runólfur, Þórunn, Inga, Gunnhildur, Friðfinnur, Einar og Páll Skaftabörn og fjölskyldur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.