Læknablaðið - 15.09.2008, Blaðsíða 28
■ FRÆÐIGREINAR
RANNSÓKNIR
hjá og rof á botnlanga reyndist ekki algengt. Gott
samræmi er milli mats skurðlækna á botnlanga í
aðgerð og meinafræðiniðurstöðu.
Inngangur
Hinn ormlaga botnlangi appendix vermiformis er til
staðar í örfáum spendýrum öðrum en manninum.
Hann svarar til þróunarfræðilegra leifa af svæði
í görnum sem seytir ensímum sem brjóta niður
plöntutrefjar (1). Hlutverk hans í mönnum virðist
ekki mikilvægt en bólga í botnlanga er ástæðan
fyrir einni elstu og algengustu skurðaðgerð sem
gerð er (1).
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Robert
Tait framkvæmdi fyrstu skráðu botnlangatökuna
(2). Undir lok 19. aldar var aðgerðin sjaldan fram-
kvæmd en er nú með algengari skurðaðgerðum
(2). Það sýndi sig um miðja síðustu öld að dauðs-
föll vegna botnlangabólgu voru helst vegna tregðu
við að senda sjúklinga í aðgerð og trúar á að
sýklalyf dygðu til að koma í veg fyrir banvænar
sýkingar (3). í kjölfar þess varð aðgerðin algeng-
ari. Vegna þess hve erfitt hefur reynst að greina
botnlangabólgu með vissu fyrir aðgerð hefur verið
talið viðunandi að um 20% fjarlægðra botnlanga
reyndust án bólgubreytinga (3-5).
Rúmlega eitt hundrað börn útskrifast af
Barnaspítala Hringsins á hverju ári eftir að hafa
gengist undir botnlangaaðgerð. Þó að sjúkdómur-
inn botnlangabólga sé vel þekktur og skilgreindur
er enn erfitt að greina hann nákvæmlega út frá
klínískum einkennum og rannsóknarniðurstöðum
(6). Þá er einnig ljóst að fjölmargir þættir hafa
áhrif á einkenni og greiningu botnlangabólgu (7).
Þrátt fyrir tilkomu nýrra aðferða í greiningartækni
sjúkdóma, svo sem ómrannsókna og tölvusneið-
mynda, hafa framfarir í nákvæmri greiningu
botnlangabólgu fyrir aðgerð verið ófullnægjandi
á undanförnum áratugum. Rannsóknir á botn-
langabólgu á íslandi hafa ekki verið margar aðrar
en rannsókn frá árinu 1984 þar sem farið var yfir
vefjasýni (8). Því er vert að athuga að nýju þennan
sjúkdóm hérlendis. Til þess að unnt sé að meta
hvernig staðið er að greiningu og meðferð botn-
langabólgu er mikilvægt að athuga bæði klíníska
þætti greiningar og meinafræðiniðurstöður.
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna
öryggi klínískrar greiningar á botnlangabólgu í
börnum hérlendis. í því skyni þótti áhugavert að
rannsaka sambærilega þætti varðandi sjúkdóminn
og botnlangatöku á tveimur mismunandi tímum,
það er með tíu ára millibili. Borið var saman hlut-
fall eðlilegra fjarlægðra botnlanga á tveimur árum,
annars vegar árið 1996 og hins vegar árið 2006.
Einnig var markmið rannsóknarinnar að skoða
ýmsa klíníska og meinafræðilega þætti botnlanga-
bólgu, meðal annars að kanna samræmi klínískrar
greiningar og mats skurðlæknis á ástandi botn-
langa við niðurstöðu vefjarannsóknar.
Efniviður og aðferðir
Skoðaðir voru tveir sjúklingahópar barna sem fóru
í aðgerð vegna gruns um botnlangabólgu. Annar
sjúklingahópurinn undirgekkst botnlangatöku
árið 1996 en hinn árið 2006.
Rannsóknin er aftursýn og rannsóknarþýðið
samanstóð af síðustu 100 börnunum, 16 ára og
yngri, sem gengust undir botnlangatöku á árinu
2006 og samsvarandi síðustu 100 börnum sem
í slíka aðgerð fóru á árinu 1996. Ákveðið var að
skoða 100 börn hvort árið til að hóparnir væru
alveg jafnstórir. Þar sem um var að ræða síðustu
100 börn hvors árs fór ekki fram sérstakt val barna
í rannsóknarhópana og ætti því að koma í veg fyrir
bjögun á niðurstöðum. Fyrir tíu árum voru einnig
gerðar botnlangaaðgerðir á barnadeild Sjúkrahúss
Reykjavíkur í Fossvogi, en sjúklingar þar komu
inn í rannsóknina sem hluti sjúklingahóps frá
árinu 1996. Við söfnun í rannsóknarhópana var
unnið frá síðasta barni sem fór í botnlangatöku
á hvoru ári fyrir sig og afturábak þar til 100 börn
voru fundin. Alls fór 131 barn í botnlangatöku árið
1996 en 112 böm árið 2006.
Allar sjúkraskýrslur fundust frá báðum árum á
skjalasafni Landspítala. Allir botnlangarnir, nema
eirtn árið 1996, höfðu verið sendir í vefjarannsókn
og meinafræðisvör fundust fyrir þá alla.
Skráð var kyn og aldur sjúklings, tímalengd
einkenna fram að innlögn á spítala, tímalengd
frá komu á spítalann að aðgerð og lengd spít-
alalegu. Skráð var bæði mat skurðlæknis í aðgerð
á því hvort hann teldi botnlangann bólginn og
jafnframt skráð niðurstaða vefjameinafræðirann-
sóknar á botnlanganum. Mat skurðlæknis á bólgu
í botnlanga var ávallt til staðar. Einnig var skráð ef
botnlangarnir voru taldir hafa rofnað fyrir aðgerð,
hvort sem það var mat skurðlæknis eða niðurstaða
í meinafræðirannsókn.
Öll vefjagler úr botnlöngum sjúklingahópsins
frá árinu 2006 voru til reiðu á rannsóknarstofu í
meinafræði á Landspítala til endurskoðunar og
endurmats. Allar vefjasneiðar frá árinu 2006 voru
yfirfarnar af meinafræðingi óháð fyrri greiningu
og borið saman við meinafræðisvar. Þá var mat
skurðlæknis á bólgunni borið saman við end-
urskoðað mat meinafræðings. Tilvist bólgu var
metin út frá því hvort bólgurof fyndist í slímhúð,
hvort bólgufrumuíferð greindist í vöðvalagi botn-
langans, hvort hægt væri að sjá vefrot (e. gangrene)
í vegg botnlangans og einnig hvort hægt væri að
600 LÆKNAblaðið 2007/93