Læknablaðið - 15.07.2009, Síða 39
Ú R
UMRÆÐUR O G FRÉTTIR
PENNA STJÓRNARMANNA LÍ
Kreppa og kostir
Elínborg
Bárðardóttir
formaður Félags íslenskra
heimilislækna
elinborgb@simnet.is
Stjórn Ll
Birna Jónsdóttir,
formaður
Þórarinn Guðnason,
varaformaður
Sigurveig Pétursdóttir,
gjaldkeri
Sigríður Ó. Haraldsdóttir,
ritari
Elínborg Bárðardóttir
Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir
Kristján G. Guðmundsson
Sigurður Böðvarsson
Valgerður Rúnarsdóttir
í pistlunum Úrpenna
stjórnarmanna LÍ birta
þeir sínar eigin skoðanir
en ekki félagsins.
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn
að tala um kreppuna og afleiðingar hennar
fyrir heilbrigðisþjónustuna. Sparnaðarkrafa upp
á 6,7 milljarða eru engir smáaurar og erfitt að
sjá hvar sparnaðartækifærin liggja. Veruleiki
undanfarinna ára hefur líka snúist um stöðuga
hagræðingar- og sparnaðarumræðu eins og sjá
má á rekstrartölum Landspítala og heilsugæslu
höfuðborgarsvæðisins en þær hafa á undanförnum
árum hækkað tiltölulega lítið. Á sama tíma fjölgar
þjóðinni, öldruðum fjölgar, komum í heilsugæslu,
á göngudeildir og bráðamóttökur fjölgar en
stöðugildin standa í stað og rekstrarframlög
hækka lítið.
Það er erfitt að sjá að í þessari stöðu verði
hægt að lækka rekstrarkostnað enn frekar án þess
að þjónustan skerðist eða gæði þjónustunnar
minnki. Það er vissulega áhyggjuefni að í slíkum
sparnaðaraðgerðum geti óvæntum atvikum og
mistökum fjölgað með öllum þeim hliðar-
verkunum sem af því hlýst. Það er einnig slæmt
ef við verðum ekki í stakk búin til að taka
upp nýjungar í læknisfræði eða að tæki og tól
úreldist vegna ónógrar endurnýjunar. Einnig er
áhyggjuefni að yngri læknar búsettir erlendis sjái
sér ekki hag í að flytja „heim" og aðrir sjá sér hag í
að fara erlendis en sumar greinar læknisfræðinnar
mega ekki við að missa einn einasta lækni til
útlanda eða annað.
Mér finnst slæmt að við bárum ekki gæfu
til í góðæri síðastliðinna ára að drífa upp nýtt
háskólasjúkrahús. Sýnu verra finnst mér að við
notuðum ekki tækifærið og vörðum tíma og fé í
að koma upp vel nothæfri og samræmdri rafrænni
sjúkraskrá. Ég óttast að í kreppu næstu ára verði
ekkert úr byggingaráformum nýs sjúkrahúss og
að það líði alltof mörg ár áður en við getum séð
allar nauðsynlegar upplýsingar um sjúklinga
okkar í rafrænni sjúkraskrá. Það sorglega er að ef
við þróumst ekki, byggjum ekki nýtt sjúkrahús
og klárum rafræna sjúkraskrá, glötum við í raun
tækifærinu til að búa betur að sjúklingum og
starfsmönnum, sem og að hætta þeim tvíverknaði
sem viðgengist hefur meðal annars við pöntun
blóðrannsókna. Neyðumst sem sagt til að halda
úti óhagkvæmara húsnæði og vinnubrögðum.
Góð samræmd sjúkraskrá væri ekki síst
kærkomin núna í peningaleysinu til að reyna
að gera sér grein fyrir vinnubrögðum okkar og
nota tækifærið til sjálfsgagnrýni. Það verður að
viðurkennast að það er býsna margt sem við vitum
ekki um vinnu okkar og hvað til dæmis borgar
sig að gera og hvað ekki. Erlendar tölur sýna að
líklega eru aðeins um 12% allra læknismeðferða
vel sannreyndar og aðrar 22% líklegar til að koma
að gagni. Um rest er ekki vitað eða beinlínis talið
ólíklegt að þær komi að gagni. Ekki síst núna ættum
við því að reyna að leggja vinnu í að finna leiðir
til að skoða þjónustuna og hvernig fjármunum
okkar er best varið. Það er ekki auðvelt verk og
hugsanlega óvinnandi en þó er ýmislegt sem við
getum velt upp. Veitum við til dæmis þjónustu á
réttum stöðum, á fyrsta stigi þjónustunnar, það er í
heilsugæslunni, og hvaða verkefni getum við fært
til heilsugæslunnar og jafnvel frá? Á sumt sem við
gerum í heilsuverndinni betur heima í skólunum
og jafnvel í höndum annarra en lækna en þó í
umsjón þeirra? Getum við forðast tvíverknað og
óþarfa rannsóknir og notað tímann meira til að
hjálpa okkur við ákvarðanir, það er að segja bíða
lengur og forðast þannig sumar dýrar rannsóknir
eða jafnvel aðgerðir? Reynum við að standa á
móti því sem kallað er „fragmentation of care" eða
bútalækningar og sundurslitin þjónusta? Gefum
við öllum landsmönnum kost á sínum eigin
lækni sem getur haldið utan um allar upplýsingar
og veitt samfellda heildræna þjónustu? Að
mörgu er að hyggja og engin stofnun innan heil-
brigðisþjónustunnar ætti að vera undanskilin
gagnrýni og skoðun, ekki frekar en stofur lækna
og annarra heilbrigðisstarfsmanna.
Þjóðin þarf einnig að líta sér nær og læra að nota
þjónustuna á eðlilegan hátt, fara til dæmis ekki á
bráðamóttökur með margra vikna vandamál. Það
ætti að vera sjálfsagt mál og eðlilegt að leita fyrst til
heilsugæslunnar sem á að geta sinnt langflestum
vandamálum fólks eða leiðbeint á hagkvæman
máta. Heimilislæknar á íslandi eru vel til þessarar
vinnu fallnir en einnig margir aðrir læknar. Það
þarf að að mínu mati að efla almennar lækningar,
þar á meðal heilsugæsluna í gegnum menntakerfið
og kjör lækna sem þar starfa. Það myndi án efa
styrkja almennar lækningar og laða að unga
lækna og þannig draga úr fyrirsjáanlegum skorti á
heimilislæknum í nánustu framtíð. Einnig velti ég
því fyrir mér hvort læknar í sumum fjölmennum
sérgreinum hefðu ekki áhuga á að endurmennta
sig og skipta yfir í heimilislækningar, næg eru
verkefnin og verðug.
LÆKNAblaðið 2009/95 519