Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.02.2013, Blaðsíða 41

Læknablaðið - 15.02.2013, Blaðsíða 41
UMFJÖLLUN O G GREINAR Er reyklaust tóbak lyf að mati lækna? Pétur Heimisson heimilislæknir Eyjólfur Þorkelsson almennur læknir petur@hsa.is eyjolfur.thorkelsson @gmail.com Frumvarpi um breytingar á lögum um tóbaksvarnir og lögum um verslun með áfengi og tóbak (þingskjal 641, 499. mál) er sérstaklega ætlað að sporna gegn tóbaksnotkun ungs fólks. Efnislega eru undirritaðir sammála frumvarpinu og því hugsi yfir umsögn sem Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri og Þorsteinn Blöndal yfirlæknir gáfu í nafni Heilsugæslu höfuð- borgarsvæðisins. Þrennt kom okkur einkum á óvart: 1. Umsögnin er algjörlega andstæð okkar mati á frumvarpinu, og ekki bara okkar heldur líka mati landlæknis, Hjarta- verndar og Krabbameinsfélagsins. 2. Annar þeirra sem undirrita hana er einn ötulasti klíníski tóbaksvarnalækn- ir síðustu áratuga. 3. Umsögnin er gefin í nafni þess vinnu- staðar sem hýsir flesta heimilislækna landsins og er okkur spurn hvort þeir séu almennt sammála mati Lúðvíks og Þorsteins. Inntak umsagnarinnar er andstaða við bann á reyklausu tóbaki, sbr. „... hvers vegna verið er að banna, vegna heilsufars- áhrifa, allt munntóbak sem er saklausara en reyktóbak sem er leyfð vara." og „Vel hreinsað efni eins og sænska snusið hefur mun lægri sjúkdómatíðni í för með sér en annað minna hreinsað munntóbak." Sér- kennilegust er þó setningin: „Þó ekki sé verið að mæla með tóbaksnotkun yfirleitt eða nikótínfíkn verður ekki hægt að full- yrða annað en að ávinningur sé í því fyrir hvern og einn að nota alfarið munntóbak í stað reykinga." Þetta kemur hornrétt á það sem við töldum viðurkennda þekkingu, nefnilega: 1. Reyklaust tóbak á fyrst og síðast að bera saman við „náttúrlegt ástand" - tóbaks- leysi en ekki tóbaksreykingar. Það er alkunna að reykingar eru sennilega sú hættulegasta iðja sem þekkist og er því flest hættuminna en reykingar, jafnvel þó verulega skaðlegt sé. 2. Afleiðingar af notkun reyklauss tóbaks eru óþekktar. Annað er ekki hægt að fullyrða, og allt tal um skaða eða skaðleysi byggir ekki á sannreyndum vísindum. Afar fáar haldgóðar rann- sóknir hafa verið gerðar á notkun þess og langtímaáhrifum en þær hafa þó bent meðal annars til hærri dánartíðni af kransæðastíflu og aukinnar tíðni krabbameins í meltingarfærum. Þessu voru gerð góð skil í „kerfisbundnu yfirliti" (systematic review) sem unnið var fyrir norsk heilbrigðisyfirvöld 2005 (Virkninger af snusbruk, Dybing E, et al.) 3. Nokkrar rannsóknir töluðu fyrir reyklausu tóbaki sem leið til reykleysis. Þær voru margar hannaðar af Swedish Match (stórum snusframleiðanda) sem þó var svo forhert að láta leppa eins og fyrirtæki Lars Ramström vinna þær og aðkomu SM var hvergi getið. Gunilla Bolinder (sænskur doktor í reyklausu tóbaki) upplýsti þetta eftirminnilega á alþjóðlegu tóbaksvarnarþingi um árið og ótrúlegt að nokkur gleymi því sem á annað borð vissi. Árangurinn af snusi sem leið til reykleysis er þannig í besta falli óviss. Dæmi sýna einnig að allt eins líklegt er að notendur munntóbaks reyki einnig. 4. Helsti markhópur framleiðenda munn- tóbaks er ekki fólk á miðjum aldri sem vill hætta að reykja heldur ungt fólk með litla eða enga reykingasögu. í munntóbakið blanda framleiðendur efnum til að bæta bragð, gefa góða lykt og auðvelda upptöku nikótíns. Ekki eru nema 30 ár síðan sígarettuframleið- endur gerðu nákvæmlega hið sama í nákvæmlega sama tilgangi - laða nýja notendur að. 5. Notendur munntóbaks eru mun útsett- ari fyrir nikótíni en reykingamenn. Að jafnaði eru þeir með í vörinni í um 9-12 klukkustundir daglega; vel þekkt er að sumir nota það jafnvel í svefni. Vel má vera að þessi sjónarmið okkar byggi ekki á nýjustu rannsóknum. Við biðjum því Lúðvík og Þorstein að upplýsa okkur: 1. Hver er heilsufarsleg áhætta (AR) munntóbaksnotkunar og hver er hlut- fallsleg áhætta (RR) þegar borið er saman við tóbaksleysi? 2. Hvað sýna rannsóknir um árangur af munntóbaki sem meðferð til reykleysis? 3. Hvernig kemur snusið út borið saman við nikótínlyf ellegar vareniclín og bupropíon? 4. Hvert er NNT (number-needed-to-treot) ef ávísað er munntóbaki? 5. Nú þegar menn eru í fúlustu alvöru farnir að ræða „end-game" í tóbaks- vörnum, það er að sígarettur hverfi af markaði, er þá rökrétt að hampa annarri tegund af tóbaki - og að það séu læknar sem geri það? Við lýsum eftir skoðunum lækna og ann- arra heilbrigðisstarfsmanna á þessu máli. Egilsstöðum, á þorra 2013 LÆKNAblaðið 2013/99 101

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.