Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.05.2013, Blaðsíða 26

Læknablaðið - 15.05.2013, Blaðsíða 26
UMFJÖLLUN O G GREINAR verður fylgt eftir með rannsóknum á heila- blóðflæði hjá einstaklingum með og án gáttatifs og sömuleiðis hjá einstaklingum með gáttatif fyrir og eftir rafvendingar." Niðurstöður komu á óvart Þá hefur Davíð verið í samstarfi við vísindamenn frá Háskóla Islands, lækna af Landspítala og fleiri um klínískar lyfjarannsóknir á gáttatifi, meðal annars áhrifum ómega-3 fjölómettaðra fitusýra. „Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur hafa marga eiginleika sem talið var að gætu nýst vel gegn gáttatifi, þar á meðal bein raflífeðlisfræðileg áhrif á jónagöng í frumuhimnum, bólgueyðandi áhrif og þær vinna gegn bandvefsmyndun. Rannsóknir okkar skoðuðu áhrif ómega-3 fjölómett- aðra fitusýra á tilkomu gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð. Niðurstöðurnar, sem komu okkur mjög á óvart, sýndu að notkun ómega-3 fjölómettaðra fitusýra dró ekki úr algengi gáttatifs. Þvert á móti voru þeir sem fengu gáttatif með hærra hlut- fall ómega-3 fjölómettaðra fitusýra, bæði í blóðvökva og frumuhimnum, en þeir sem fengu ekki gáttatif. Þessar niðurstöður sýna kannski fremur en margt annað hversu mikilvægt er að gera klínískar rannsóknir á meðferðarkostum áður en byrjað er að nota þá." Aðspurður um hvort hægt sé að fyrir- byggja gáttatif með einhverjum ráðum, segir Davíð svo ekki vera enn sem komið er. „Erfðafræðirannsóknir okkar munu lík- lega í framtíðinni geta hjálpað við að finna einstaklinga sem eru í áhættuhópi. En eins og staðan er núna myndum við aðallega ráðleggja þeim að koma í reglulegt eftir- lit svo hægt sé að hefja meðferð um leið og gáttatifið lætur á sér kræla. Meðferðin er auðveldari eftir því sem fyrr er hægt að grípa inní, því ómeðhöndlað gáttatif til lengri tíma veldur ákveðnum grunn- breytingum í hjartanu sem erfitt er að lagfæra. Þegar það gerist verður meðferð sjúkdómsins mjög erfið. Ferill sjúkdómsins er þannig að í upp- hafi fær sjúklingurinn gáttatifsköst sem standa stutt og lagast af sjálfu sér. Síðan koma lengri tímabil gáttatifs sem ekki lagast nema með lyfjagjöf eða rafvend- ingu. Þegar lengra er komið duga þessar aðgerðir ekki til og gáttatifið telst lang- vinnt. Það eru hins vegar ákveðnar vís- bendingar um að brennsluaðgerð snemma á ferli sjúkdómsins, þar sem brennt er inn í vinstri gáttina til að einangra lungnablá- æðar, geti virkað vel til að stöðva fram- gang sjúkdómsins. Brennsluaðgerðir eru lofandi i meðferð gáttatifs. Þær hafa verið að þróast síðustu árin og við bindum tals- verðar vonir við að brennsluaðgerð verði einn af hornsteinunum í meðferð sjúk- dómsins í framtíðinni. Aðgengið að þeim er þó takmarkað enn sem komið er." Markmið rannsókna „Það mikilvægasta við rannsóknarvinn- una er að fá að taka þátt í að skapa nýja þekkingu en það hlýtur að vera eitt að lykilhlutverkum háskólasjúkrahúss sem vill standa undir nafni. Rannsóknarvinna er sömuleiðis mjög gefandi og hún hjálpar einnig til við að brjóta upp hina daglegu rútínu í klínískri vinnu. Rannsóknirnar veita líka tækifæri til kynnast nýju fólki og skapa tengslanet við erlenda kollega með innsýn í það nýjasta og besta sem er að gerast í greininni. Hvað mig sjálfan varðar þá snýst þetta sömuleiðis um að skapa sér akademískan feril og og styðja við yngra fólk sem vill gera slíkt hið sama," segir Davíð. Davíð segir að á undanförnum árum hafi læknar Landspítala verið mjög dug- legir við að stunda rannsóknir og birta niðurstöður sínar í vísindagreinum. „Þetta er til vitnis um mikinn áhuga meðal lækna á rannsóknavinnu en sýnir í raun einnig að hér eru mjög öflugar stofnanir sem hafa reynst traustir bakhjarlar, eins og Hjartavernd og íslensk erfðagreining. Þetta eru framúrskarandi rannsóknastofn- anir þar sem unnið er gríðarlega öflugt starf. Samvinna okkar á Landspítala við þessar stofnanir hefur skilað merkilegum niðurstöðum í mörgum greinum læknis- fræði og lífvísinda." Davíð segir að jákvætt viðhorf Islend- inga til þess að taka þátt í rannsóknum og skilningur almennings á mikilvægi þeirra sé undirstöðuatriði í því hversu vel hefur tekist til við stórar erfðafræðilegar og far- aldsfræðilegar rannsóknir. „Þar má nefna hversu viljugir íslendingar hafa verið að taka þátt rannsóknum Hjartaverndar og einnig hversu margir hafa gefið ís- lenskri erfðagreiningu lífsýni. Hluti af skýringunni er sennilega að við erum lítil þjóð með tiltölulega hátt menntunarstig, sem skapar ákveðinn skilning og jákvæðni gagnvart vísindavinnu. íslendingar eru líka forvitnir og samvinnufúsir og vilja gjarnan leggja sitt af mörkum til að skapa nýja þekkingu." Davíð bætir því við að það sé mikil- vægt að rannsóknarvinna sé gefandi því megnið af henni er unnið utan hefð- bundins vinnutíma. „Þetta er unnið á kvöldin og um helgar og vafasamt hvort það gengi upp ef ekki væri brennandi áhugi til staðar. Slíkt gengur þó auðvitað ekki til lengdar og maður finnur fyrir því að þeir eru sífellt færri sem eru tilbúnir að leggja sinn frítíma í rannsóknavinnu. Það er mikil mannekla hér á spítalanum og enginn skortur á verkefnum. Helsta ógnin við frekari framþróun í rann- sóknum hérlendis er að mínu mati skortur á vernduðum tíma. Þetta er jafnvel stærri vandi heldur en skortur á fjármagni. Það er kannski farið að sjást nú þegar í færri birtum vísindagreinum og færri erindum á sérgreinaþingum hérlendis. Læknar í dag eru síður tilbúnir til að fórna frítíma sínum í rannsóknir, sem eru eins og fyrr segir oft hrein viðbót við fulla klíníska vinnu. Viðhorfin hafa einfaldlega breyst og margir draga skýrari mörk en áður á milli starfsins og einkalífsins. Það er því mjög mikilvægt þegar mönnun spítalans er skipulögð til framtíðar að tekið sé tillit til þessa og gert ráð fyrir tíma til rann- sókna. Það er til marks um vilja stjórnenda spítalans til að hér séu stundaðar rann- sóknir, að þrátt fyrir mikinn niðurskurð hafi rannsóknasjóður Landspítala ekki verið skertur og jafnvel verið bætt í. Það ber að hrósa þeim fyrir það. Það er síðan eitt af brýnu verkefnunum að skipuleggja vinnu lækna þannig að klínísk þjónusta, kennsla og vísindavinna skipi jafn háan sess í starfsemi spítalans," segir Davíð O. Arnar að lokum. 250 LÆKNAblafliS 2013/99

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.