Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.05.2013, Blaðsíða 32

Læknablaðið - 15.05.2013, Blaðsíða 32
UMFJÖLLUN O G GREINAR Járnkarlinn Höskuldur og járnbörnin hans ■ ■ ■ Hávar Sigurjónsson Höskuldur Kristvinsson skurðlæknir er járnkarl. Ekki er víst að allir lesendur átti sig á hvað í þeirri nafngift felst en það þýðir einfaldlega að hann hefur lokið erfiðustu þríþrautarkeppni sem hægt er að taka þátt í og felst í því að synda 3,8 kílómetra, hjóla 180 kílómetra og hlaupa síðan 42,2 kílómetra. Allt er þetta gert í samfelldri lotu án hvílda á milli greina og tímamörkin sem kepp- endum eru sett er að ljúka keppninni á innan við 17 klukkustundum. Höskuldur hefur í tvígang lokið járnkarls- keppni en í mars síðastliðnum bætti hann um betur og tók þátt í tvöfaldri járnkarlskeppni á Flórída þar sem áður- nefndar vegalengdir eru tvöfaldaðar og tímamörkin lengd upp í 36 klukkutíma. Maður spyr sig hver tilgangurinn sé og hvort það sé gott fyrir líkamann að leggja svona mikið á sig. „Það er alveg ljóst að til að halda sér í sæmilegu formi er óþarft að stefna að keppni í járnkarli en þetta er ekkert slæmt í sjálfu sér ef maður hefur á annað borð sæmilega heilan skrokk," segir Höskuldur en hann er sestur niður ásamt dóttur sinni, Önnu Kristínu læknakandídat en hún lauk einnig járnkarlskeppni í Wales í september í fyrra ásamt bróður sínum, Jóni Hinriki. Þeir feðgar Höskuldur og Jón Hinrik hafa áður tekið járnkarl saman í í Wisconsin 2009. Sinn fyrsta járnkarl tók Höskuldur í Arizona árið 2006. í ágúst í sumar ætlar Höskuldur, ásamt Söru Elísabetu dóttur sinni, að skipta einum járnkarli á milli þeirra feðgina þar sem hún syndir og hjólar og hann hleypur. Ofurhlaupari til margra ára Þess verður líka að geta að auk járnkarls- keppna hefur Höskuldur á liðnum árum tekið þátt í svokölluðum ofurhlaupum en það eru hlaup sem eru lengri en maraþon. Hefur Höskuldur keppt í þremur 100 km hlaupum og fjórum 160 km (100 mílur), bæði hér heima og erlendis, og að sjálfsögðu skokkað Laugaveginn (55 km) einum 12 sinnum svo hann kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að langhlaupum. Spurningin er hvort hann hafi alltaf verið á kafi í íþróttum eða hvort hann hafi stað- ið upp úr sófanum einn daginn og ákveðið að byrja að hlaupa. „Ég get ekki sagt að ég hafi verið mikið í íþróttum sem krakki og unglingur. Ég spilaði körfubolta með yngri flokkum og síðan innanhúsfótbolta með félögum á háskólaárunum en áhuginn á hlaupum kviknaði ekki fyrr en ég var kominn í framhaldsnám til Bandaríkjanna árið 1984. Þá setti ég mér fljótlega að hlaupa mar- aþon og tók þátt í New York maraþoninu haustið 1985. Þá voru þátttakendur um 10 þúsund og þótti mikið, nú eru þeir um 40 þúsund. Maraþonáhuginn hélst við og ég tók þátt í nokkrum slíkum næstu árin þar til við fluttum heim 1991. Þá var Laugavegshlaupið nýlega byrjað og mig langaði að reyna það. Mér finnst það alltaf jafngaman og hef reynt að vera með eins oft og ég hef getað komið því við." Dóttirin Anna Kristín er fædd 1986 og þekkir því ekki föður sinn að öðru en hlaupaáhuganum. Hún segir að sér hafi nú ekki þótt langhlaup mjög spennandi framan af en byrjað að hlaupa með pabba sínum reglulega á menntaskólaárunum þó markmiðin hafi ekki skýrst fyrr en síðar. Höskuldur rifjar upp frægt myndskeið úr járnkarlskeppni á Hawai fyrir um 15 árum þar sem tvær konur börðust um 4. sætið í keppninni. „Þær bókstaflega skríða á fjórum fótum yfir marklínuna, gjörsam- lega uppgefnar og eflaust hafa margir talið þetta staðfesta að járnkarlskeppni sé rugl og vitleysa. Mér fannst þetta aftur á móti mjög spennandi og langaði að taka þátt í svona keppni. Þetta var fyrir svona tíu árum en þá var lítill almennur áhugi fyrir þríþraut hérlendis og mjög fáir sem voru að velta fyrir sér járnkarli." Gríðarleg aukning hefur orðið í þrí- þrautinni hérlendis undanfarin misseri og helst það í hendur við þróunina erlendis. Er keppt í ýmsum vegalengdum þríþraut- ar, algengast er að miða við ólympíska þríþraut sem er 1500 metra sund, 40 km hjól og 10 km hlaup. Oft er keppt í hálfri ólympískri þríþraut og vinsælar eru sprettþrautir þar sem vegalengdir eru enn styttri. Einnig er vinsælt að keppa í hálfum járnkarli og ýmsar aðrar útgáfur vegalengda í þríþraut eru í boði. Ahuga- samir ættu því að finna vegalengd og keppni við sitt hæfi. 256 LÆKNAblaöið 2013/99

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.