Frjáls verslun - 01.02.2007, Qupperneq 105
F R J Á L S V E R S L U N • 2 . T B L . 2 0 0 7 105
Öryggismerking Neyðarlínunnar
Sumarbústaðurinn:
Jólahátíð í vatnsleysi
„Í áratugi hneyksluðumst við hjónin á fólki sem átti sumarbústað
og dvaldist þar öllum stundum,“ segir Fríða Björnsdóttir blaða-
maður. Árið 2000 fóru þau hins vegar að skoða sumarbústaðaauglýs-
ingar og eftir mánuð voru þau búin að eignast kofa fyrir austan
Þingvallavatn og stendur hann á mosavöxnu hrauni. Fríða segir að
eldri borgarar þekki landið sem „Harlem“ vegna þess hve bústaðir
voru þar litlir og byggðir af vanefnum.
„Eftir viðbætur er bústaðurinn, sem heitir Völusteinn, rúmir 50
fermetrar og í honum eru þrjú svefnherbergi, eldhús, stofa, baðher-
bergi og forstofa. Þarna fer vel um fjölskylduna; okkur hjónin, tvö
uppkomin börn og þrjá langhunda.
Útlit kofans gefur ekki til kynna mikil þægindi en innan dyra
skortir ekkert. Hann er hitaður með rafmagni, heitt vatn er í
krönum og sturta í baðherberginu, gnægð er af góðu, köldu vatni og
það er meira að segja uppþvottavél í eldhúsinu.“
Fjölskyldan eyðir miklum tíma í bústaðnum eða yfir 150 dögum
í fyrra. ,,Það besta er að við höfum haldið þarna jól sjö ár í röð og
þau síðustu voru nokkuð ævintýraleg. Við komum daginn fyrir Þor-
láksmessu og borðuðum svissneskt ostafondu um kvöldið. Þorláks-
messa var róleg og sömuleiðis aðfangadagur en þá undirbjuggum við
hnetusteikina sem er okkar jólamatur. Vatnið fór um áttaleytið um
kvöldið. Hvergi sást ljós en Bergsveinn, maðurinn minn, og sonur
okkar, Valur, fóru til að kanna aðstæður í dæluhúsinu. Þar mættu
þeir manni sem kunni á búnaðinn. Vatnið kom þó aðeins augnablik
í kranana en við náðum vatni í jólakaffið.
Fríða Björnsdóttir og dóttir hennar, Vala Ósk, að bíða jólamatarins
fyrir nokkrum árum.
Ákveðið var að láta vatnsleysið ekki eyðileggja jólahaldið enda
eina sem vantaði var vatn í klósettkassann og það var sótt í Þing-
vallavatnið. Matarílátin voru sett jafnóðum í lokaðan plastkassa
úti á verönd og biðu heimferðar því uppþvottavél er til lítils gagns
ef ekkert er vatnið og við nenntum ekki að nota Þingvallavatnið í
uppþvottinn. Við nutum jólanna allt fram á annan eins og ekkert
hefði í skorist enda ekkert að vanbúnaði með Þingvallavatn við
túnfótinn.“
Það getur verið erfitt fyrir slökkvilið, lögreglu og
sjúkralið að fá neyðarkall frá sumarbústað og vita
ekkert nema að bústaðurinn heitir Efri-hlíð eða
Austurgrund. Væntanlega eru fjölmargir bústaðir
með sama nafni eða svipuðu og dugar því ekki
að nefna nafnið eitt. Til að bæta úr þessu hafði
Landssamband sumarhúsaeigenda forgang um
að koma á Öryggismerkingum á öll sumarhús
í landinu, í samvinnu við Neyðarlínuna, Fast-
eignamat ríksins, Vegagerðina og Landmælingar
Íslands.
Nú er stór hluti sumarbústaða kominn með
slíka merkingu og mun það auðvelda mjög
allan aðgang ef um neyð er að ræða þar sem
aðeins þarf að nefna númer bústaðarins og um
leið kemur staðsetningin upp hjá þeim lög- og
sjúkragæslu.