Læknablaðið - 01.10.2014, Page 56
552 LÆKNAblaðið 2014/100
U M F J Ö l l U n O G G R E i n a R
Ávaxtasykur og lífsstílssjúkdómar:
skiptir máli hvaðan sykurinn kemur?
Flestir eru sammála um hollustu ávaxta
og margar rannsóknir styðja það. Þó hafa
heyrst raddir um hið gagnstæða. Eru
ávextir óhollir og hvað er það þá í þeim
sem menn vilja varast?
Sykur er ekki bara sykur
Það eru til margar tegundir sykurs en
allur sykur heyrir undir kolvetni. Ávaxta-
sykur (frúktósi) og þrúgusykur (glúkósi)
eru einsykrur en borðsykur er tvísykra
(ávaxtasykur og þrúgusykur). Líkaminn
getur einungis notað þrúgusykur sem
orkugjafa og því þarf lifrin að breyta
ávaxtasykri í þrúgusykur. Einsykrur
leysast vel upp í vatni og þar af leiðandi
munnvatni sem gefur sykurríkum mat
hið sæta eftirsótta bragð. Síðan eru til
fjölsykrur (langar einingar af þrúgusykri)
sem finna má í brauði, pasta og fleiri mat-
vælum.
Sykurbætt matvæli og þyngdaraukning
Matvælaiðnaðurinn hefur nýtt sér eigin-
leika borðsykurs og ávaxtasykurs til að ná
fram sætu bragði í fæðu. Fyrir um 30 árum
byrjuðu Bandaríkjamenn að nota ávaxta-
sykursíróp við framleiðslu á matvörum
eins og gosdrykkjum, morgunkorni, sós-
um og kexi. Á Íslandi er mikið framboð af
bandarískum matvörum og því líklegt að
við borðum talsvert af ávaxtasykursírópi.
Áhrif sykraðra drykkja á þyngdaraukn-
ingu og offitu hafa verið rannsökuð. Nýleg
yfirlitsgrein sýnir að niðurstöður eru
ólíkar eftir því hvort rannsóknir tengjast
matvælaiðnaði eða ekki.1 Athyglisvert er
að rannsóknir sem tengjast matvælaiðnað-
inum fundu engin tengsl milli neyslu
sykraðra drykkja og þyngdaraukningar en
rannsóknir óháðar iðnaðinum sýndu fram
á hið gagnstæða.
Skiptir máli hvaðan ávaxtasykurinn
sem við innbyrðum kemur?
Berum saman banana og kolsýrt vatn
með viðbættum ávaxtasykri. Í banana
eru um það bil 20 g af sykri, þar af 7 g
ávaxtasykur. Í hálfum lítra af kolsýrðu
vatni eru 25 g af viðbættum ávaxtasykri,
næstum fjórfalt meira en er í banana. Þrátt
fyrir að heildarsykurinnihaldið sé svipað
í þessum vörum er talið að frumuupp-
bygging ávaxta spili mikilvægt hlutverk í
að sykur flyst hægar í blóðrásina þegar við
borðum ávexti samanborið við ávaxtasafa
eða sykraða drykki.2 Síðan eru í ávöxtum
trefjar (ómeltanleg næringarefni) sem hafa
margvísleg jákvæð áhrif á heilsu. Trefjar
hægja líka á upptöku sykurs úr smáþörm-
um í blóðrás og auka seddutilfinningu.3
Þær eru ekki ólíkar svampi að því leyti
að þær drekka í sig vökva, mýkja hægðir
og auðvelda á þann hátt þarmalosun sem
aftur minnkar líkur á krabbameini í ristli
og/eða endaþarmi. Í banana eru um 3 g
af trefjum en engar trefjar eru í kolsýrðu
vatni. Banani er því mun hollari valkostur
í daglegu mataræði.
Ávextir gefa okkur gnægð af næringar-
efnum sem eru undirstaða góðrar heilsu.
Auk þess innihalda ávextir hlutfallslega
lítið magn af ávaxtasykri miðað við við-
bættan ávaxtasykur, sem er í sumum
kolsýrðum drykkjum og oft í tilbúnum
matvörum. Því er mikilvægt að skoða vel
innihaldslýsingar til að vita hvort sykri
hefur verið bætt í. Þumalfingursregla er
að ef sykur eða ávaxtasykur er framarlega
í innihaldslýsingu er líklega hlutfalls-
lega mikið af honum í vörunni. Embætti
landlæknis ráðleggur að við fáum ekki
meira en 10% af heildarorkuinntöku frá
viðbættum sykri, sem gerir 60 g á dag að
meðaltali. Í mars lagði Alþjóðaheilbrigðis-
stofnunin til að lækka þetta hlutfall í 5%
af heildarorkuinntöku. Ávaxtasykur í
hreinum söfum og ávöxtum flokkast ekki
sem viðbættur sykur.
Neikvæð áhrif viðbætts ávaxtasykurs á heilsu
Mikil neysla viðbætts ávaxtasykurs (ekki
þrúgusykurs) eykur fituframleiðslu í
lifrinni sem getur leitt til fitulifur, sem
áður fyrr þekkist aðallega í tengslum við
áfengisneyslu.4 Fitumyndun í lifur hækkar
blóðfitu (þríglýseríð) sem er talinn áhættu-
þáttur hjarta- og æðasjúkdóma.5 Einnig
eru vísbendingar um að við neyslu við-
bætts ávaxtasykurs skynji líkaminn ekki
seddutilfinningu þar sem ávaxtasykur
örvar ekki losun insúlíns eða leptíns4, 6
sem eykur líkur á að borða umfram orku-
þörf. Auk þess virðist óhófleg neysla við-
bætts sykurs, sem inniheldur að helmingi
ávaxtasykur (sykraðir gosdrykkir, sælgæti,
kökur og kex) auka líkur á sykursýki af
tegund 2.6
Jákvæð áhrif ávaxta á heilsu
Nýleg rannsókn greindi frá jákvæðum
áhrifum ávaxta og grænmetis þar sem
dánartíðni af völdum krabbameina og
hjarta- og æðasjúkdóma var lægri meðal
þeirra sem borðuðu sjö skammta (80 g
hver skammtur) eða meira af ávöxtum
og grænmeti á dag, samtals um 560 g
eða meira.7 Aðrar rannsóknir hafa sýnt
að ávextir og grænmeti minnka líkur á
hjartasjúkdómum,8 heilablóðfalli,9 krabba-
meinum,10 gláku,11 skýi á auga,12 og að
neysla þeirra geti lækkað blóðþrýsting13
og bætt meltingu. Athyglisvert er að á
meðan mikil ávaxtaneysla minnkar líkur á
sykursýki af tegund 2, eykur mikil neysla
ávaxtadrykkja líkur á sama sjúkdómi.14
Jóhanna Eyrún
Torfadóttir
nýdoktor við
rannsóknarstofu í
næringarfræði við HÍ
jet@hi.is
lára Guðrún
Sigurðardóttir
læknir og doktorsnemi í
lýðheilsuvísindum við HÍ
lara@sessionimpossible.com
Skrifstofuhúsnæði
á besta stað í bænum
Til leigu læknastofa ásamt samnýttri biðstofu.
Frekari þjónusta eftir samkomulagi. Laus strax.
Upplýsingar veitir Þórunn í s. 894 0456