Tímarit Máls og menningar - 01.12.1942, Síða 29
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
211
Og vitund þín mun öðlast sjálfa sig,
er sérðu heiminn farast kringum þig
og elfur blóðs um borgarstrætin renna.
Því meðan til er böl, sem bætt þú gazt,
og barizt var á meðan hjá þú sazt,
er ólán heimsins einnig þér að kenna.
Því hér er líf, sem þú berð ábyrgð á.
Um örlög þín skal liggja vegur sá,
sem lífið fer, á leið til fjærstu alda.
Því vit, að eigi aðeins samtíð þín,
hver ófædd kynslóð meðan stjarna skín,
þarf strax í dag á þinni hjálp að halda.
Og ger þér ljóst, er gengur þú á hönd
þeim gesti, er sótti þig í ókunn lönd,
að viðsjál mun þér veröld þessi finnast.
En hafi mildi og mannslund varizt þar,
þá minnstu þess, að einnig barizt var
um hjarta þitt, og þar skal stríðið vinnast.
Og sjá! Að gullnu víni, ljúfum leik
við Ijóð og draum, að rós, sem angar bleik,
er annar maður ókunnugur setztur.
Hann skelfist sjálfan sig, þinn komumann,
því sjálfur veruleikinn, þú ert hann,
og hann, sem þú varst áður, er þinn gestur.
(Norræn jól 1942)