Tímarit Máls og menningar - 01.06.1968, Síða 34
Jón Jóhannesson
Sögukorn af Lýð bónda í Lyngeyjum
Lýður bóndi í Lyngeyjum gengur sig niður að sjó. Hann er þungstígur og
stórstígur og raular vísu sem ekki heyrist. Hann er mikill raulari hann Lýður
bóndi í Lyngeyjum.
Þetta er hár maður og þrekinn, nokkuð við aldur og nokkuð áboginn, hæg-
látur maður í fasi og sléttfjallað andlitið, góðmannlegt og svipmikið. Hann
ætlar nú að vitja um selaböndin sín hann Lýður bóndi í Lyngeyjum.
Vormaðurinn hans og tökustrákur bíða niðri á bryggju. Þeir voru að
greiða net útí skut bátsins, eitt þessara gömlu veiðisælu neta rammflæktra
utan um þriflegan kóp í hverri vitjan, og oftast rifin.
Hvar er nú Jórunn hetjan sterka? segir bóndi þegar hann kemur til manna
sinna. Og heiman frá bænum kemur Jórunn hetjan sterka og hleypur við fót.
Báturinn skríður framá sundið fyrir löngum föstum áratogum. Æðarfugl
og teista flýja úr vegi. Kríuhópur eltir hlakkandi hrafn og gargar mikinn.
Lýður bóndi hamlar. Hann rær sjaldnast öðruvísi kallinn. Aðeins þegar
eitthvað sérstakt liggur við, til dæmis, sé hann neyddur til af stormi og báru,
þá sezt hann áfram og rær bakföllum.
Hvernig heldurðu nú við veiðum í dag Jórunn mín sterka kellingin, spyr
hann og horfir kankvíst á konuna.
0 ætli guð gefi þér ekki eitthvert kvikindið í dag eins og aðra daga.
Stutt í spuna gamla konan. Dreymdi þig illa Jóra mín?
Dreymdi. — 0 ætla mann hafi dreymt nokkuð öðruvísi en endranær.
Jæja Jóra mín. Kannski ertu eitthvað lasin. Þú ert orðin hálfgert skrifli.
Skrifli. 0 ekki þó meira skrifli en það, að ennþá get ég róið undir rassinum
á þér í eina selavitjan. Af hverju seztu ekki áfram maður og rærð eins og guð
hafi skapað þig, í stað þess að hamla þetta og damla?
Ekki svoleiðis, þú getur náttúrlega gutlað ennþá. Fjandi seig. Bara fjandi
seig við árina. Bölvað skrifli. Það verða allir skrifli. Bara fjandans ári seig,
Jórunn kellingin sterka.
\
24