Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Síða 43
Morgundögg
urinn heyrði hvernig þeir hentu freðnum síldarpönnunum í timburgólf-
ið svo söng í.
Drengurinn lauk upp dyrunum og gekk inn heitur í vöngum. Hann
hafði alltaf mætt of seint og í dag var hann óvenju seinn og bjóst því við
ákúrum.
— Sko til, bara mættur. Þú þarft náttúrlega ekki að byrja fyrr, ert
svo brandfljótur að beita, sagði Steinn hæðnislega.
— Blessaðir verið þið. Hann hefur verið á kvennafari. Þær eru vit-
lausar í þessa rauðhausa, sagði Simbi. — Sjáið ekki að allur máttur er úr
honum soginn, bætti hann við.
Einhverjir flissuðu að þessari fyndni, en aðrir lögðu ekkert til
málanna. Drengurinn roðnaði enn meir, laumaði kaffisokknum undir
bekkinn og bjóst til að fara að skera sér beitu.
— Svona piltar, sagði landformaðurinn. — Það er gott að drengur-
inn er kominn, ekki veitir af. Annars gætir þú mætt fyrr, þér er engin
vorkunn.
— Ég held svona grútarháleistar séu best geymdir á básnum með
hinum kálfunum. Þetta nennir ekki að vinna, sagði Steinn. Hann var
svíradigur og nefstór og minnti drenginn á blótneyti. Frá því í upphafi
hafði þessi boli sífellt dregið dár að honum og skammast út í hann.
— O, vertu nú ekki að þessu þrefi. Ekki verða þær eftir dræsurnar,
sem hann potar niður, sagði landformaðurinn.
— Eg held það muni andskotann ekkert um það. Ekki kemur hann í
aðgerðina, drundi í Steini.
Landformaðurinn svaraði engu, en gekk út. Hann kom að vörmu spori
með línu í stokktré á annarri öxlinni og hengdi hana í stæði drengsins.
— Hérna drengur. Best að lofa þér að byrja daginn með einni úr
stokk. Reyndu svo að mæta betur og hafa hugann við verkið. Landfor-
maðurinn var ekki óvinsamlegur, þótt röddin væri fremur höst. Drengn-
um líkaði vel við hann og vildi reyna að gera honum til hæfis, en það
var bara ekki hægt að gera neinum til hæfis í þessum ömurlega skúr.
— Það er alveg óþarfi að vera að mylja undir hann. Hann er best
kominn að flókunum sínum. Eg fer alveg að afsegja að fást við þá, sagði
Steinn brúnaþungur.
Enginn svaraði þessu og drengurinn fór að fást við síldina. Hún var
hálffrosin og honum gekk illa að ná henni í sundur og hálfu verr að
skera hana. Hann reyndi að „stála“ hnífinn, en bit hans batnaði ekki við
það.
289