Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Blaðsíða 44
Tímarit Máls og menningar
— Skelfing er að sjá þetta, sagði þá landformaðurinn og kom til hans
með stálið í annarri hendinni. — Láttu mig hafa hnífinn. Svona, horfðu
á hvernig ég fer að. Þú verður að læra að „stála“, annars gengur þetta
aldrei.
Landformaðurinn lét hnífsblaðið ganga létt og reglubundið eftir
hnífastálinu.
— Bara að hreyfa únliðinn, ekki sveifla öllum handleggnum eins og
þú værir að sá áburði og ekki draga eggina þvert á.
Landformaðurinn rétti drengnum hnífinn og glotti lítilsháttar.
Drengurinn fór aftur að fást við síldina og það gekk mun skár, hnífurinn
flugbeit.
— Blessaður góði. Þessir sveitamenn bera sig alltaf til eins og þeir
séu að moka flór, sagði Steinn meinlega. — Þar ættu þeir líka að halda
sig og hvergi annars staðar.
Það tók enginn undir þessa orðræðu, en drengurinn heyrði einhvern
flissa og hafði grun um, að það væri hans kæri fermingarbróðir. Hann
lét það þó ekki á sig fá, en reyndi að herða sig við beituskurðinn, þótt
svo einhver fjárans kökkur reyndi að troða sér upp í hálsinn.
Eftir nokkra stund stóð landformaðurinn aftur við hlið hans og fór
að róta í beituhrúgunni.
— Þú hefur beituna óþarflega stóra og sumt er allt of stórt eins og í
hákarl. Sjáðu, þetta er hæfileg stærð.
Landformaðurinn risti nokkrar síldar niður með snöggum hand-
tökum.
— Já, ég skal reyna, muldraði drengurinn.
— Og svo áttu ekki að beita hausunum, bætti landformaður við um
leið og hann gekk á braut.
Þeir drukku kaffi um tíuleytið. Drengurinn reyndi að láta sem
minnst bera á sokknum og dagblöðunum og karlarnir virtust heldur
ekki gefa þeim neinn gaum. Þeir töluðu mikið um kvenfólk á meðan
þeir drukku og virtust fróðir um líkamsbyggingu og líffæri kvenna,
töluðu um, að þessi eða hin gæfi hann góðan. Einnig flugu um mergjað-
ar klámvísur. Allt það skraf vakti stórkarlalega hlátra. Drengurinn
hafði dregið sig út í horn og karlarnir virtust hafa gleymt honum í bili.
Hann var því feginn og hlustaði með áfergju á samræður karlanna, á
svæsnar sögur og vísur. Allt það tal var töluvert kitlandi og lauk upp
ýmsum leyndardómum, sem hann hafði fremur lítið velt fyrir sér, en
hafði þó haft hugboð um. En svo þurfti hann að bregða sér út fyrir
290