Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Blaðsíða 45
Morgundögg
vegg, til að pissa. Hann þorði ekki að gera það í skúrnum, þótt flestir
karlarnir gerðu það. Rétt á eftir kom fermingarbróðir sömu erinda.
— Hvernig líkar þér djobbið? spurði hann.
— Sæmilega, skrökvaði drengurinn minnugur þess, að þeir sem ekki
hafa áhuga á starfi sínu kallast amlóðar.
— Djöfull koma miklir flókar hjá þér, hélt fermingarbróðir áfram.
Hann talaði eins og fullorðinn maður. — Reynirðu ekki að vanda þig?
— Jú, ég reyni það, svaraði drengurinn lágt.
Fermingarbróðir sprændi hátt upp á vegginn, rumdi og leysti vind.
Svo skaut hann út rassinum og tók að hneppa buxnaklaufina.
— Þú ættir að gefa handtökunum hans Steins auga. Hann er djöfull
klár eins og maskína, sagði fermingarbróðir.
Drengurinn kinkaði kolli og jánkaði.
— Ha? Finnst þér hann ekki klár? spurði fermingarbróðir.
— Jú, jú flýtti drengurinn sér að segja þvert um hug sér, því auðvitað
hataði hann þann svíradigra tudda.
— Hann kann líka alveg helling af klámvísum. Hann ætlar kannski
að skrifa þær upp fyrir mig. Þá get ég lánað þér þær, ef þú vilt. Viltu
það? spurði fermingarbróðir.
Já, drengurinn vildi það, mikil ósköp.
— Svo skal ég segja þér eitt enn, sagði fermingarbróðir og tók í öxl
drengsins dularfullur á svip. — Hann ætlar kannski að lána mér „bláu
bókina“.
— Bláu bókina, hvað er það? spurði drengurinn.
— O, voðalegur stagkálfur ertu. Veistu ekki að hún fjallar um allt
sem menn þurfa að vita, þegar menn fara að eiga við stelpur og hún er
full af myndum.
— Er til svoleiðis bók. Drengurinn var vantrúaður.
— Auðvitað, grænjaxl. En það er búið að banna hana. Sá sem á svo-
leiðis bók, verður settur í svartholið, ef löggan kemst að því, svo þú
verður að grjót halda kjafti.
Með þeim orðum snéri fermingarbróðir í átt til skúrsins. Hann nam
staðar í dyragættinni og sagði:
— Það á að borga út á morgun. Hvað ertu búinn að beita margar
línur?
— Ég veit það ekki, svaraði drengurinn.
— Veistu það ekki! Skrifarðu það ekki hjá þér á hverju kvöldi?
Drengurinn hristi höfuðið.
291