Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Page 51
Þrjú andlit á glugga
— Jæja, svo þið ætlið í sólbað, ha, sagði Alli, sextán ára bróðir
Guðrúnar konu Halldórs. Þá verð ég að sækja nýja kíkinn minn.
Það er nefnilega hægt að sjá ýmislegt með honum skal ég segja
ykkur. Jafnvel gegnum föt, hvernig líst ykkur á það, ha? Og karl-
mennirnir hlógu.
— Heldurðu að við séum hálfvitar eða hvað, svaraði ég snúðug.
Þið platið okkur sko ekki.
— Við sjáum nú til stelpur mínar, verið ekki of vissar um það,
sagði Alli um leið og hann hvarf upp stigann á eftir hinum til að
leggja sig eftir matinn. Hversu oft hafði ég ekki öfundað þá að fá að
leggja sig. Aldrei þurftu þeir að vaska upp. Það var mitt verk og oft-
ast gerði ég það ein. Þá var ég engar þrettán eða tuttugu mínútur að
því, nei stundum var ég nærri klukkutíma þegar mest var. En þetta
var allt öðruvísi og bara gaman síðan Maja vinkona mín kom. Hún
átti að fá að vera hjá mér meðan húsmóðirin, Guðrún, var í Reykja-
vík. Nú var Maja búin að vera í viku og færi eftir aðeins viku. Eg var
strax farin að kvíða fyrir.
— Anna, þið gætið vel að Rósu Hlín, kallaði Halldór ofan af loft-
inu. Rósa Hlín var tveggja ára dóttir hjónanna og ég hafði verið
ráðin til að gæta hennar. Reyndar kom það fljótt í ljós að þau treystu
mér ekki fyrir þessum freka og leiðinlega dýrgrip sínum sem öllu
stjórnaði, og var ég því látin gera flest annað. Maja áleit að Rósa
Hlín væri svona frek af því að hún væri einbirni og það gat svo sem
vel verið.
Við klæddum okkur nú í sundbol, tókum með okkur teppi og
púða og gengum vestur fyrir hús. Það var glampandi sól og steikj-
andi hiti. Himinninn var unaðslega blár og hvergi skýhnoðra að sjá.
Komið var fram í miðjan júní og náttúran var öll að taka við sér.
Sauðburði var lokið og bændur í óða önn að bera áburð á tún sín í
veðurblíðunni undanfarna daga.
Við hreiðruðum um okkur á teppinu og nutum þess að láta heita
sólargeislana baka kroppinn. Eg teygði úr mér og fann hvernig
þreytan leið úr fótunum og bakinu. Það var yndislegt. Við Maja
höfðum farið snemma á fætur þennan dag og eytt morgninum að
mestu í að laga til, þurrka af, viðra sængur og dregla og skúra allt
skínandi hreint. Það var svo gaman að hafa allt hreint og fínt og
njóta þess síðan að eiga frí eins og núna. Það versta var að bráðum
29 7