Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Side 109
Ævintýr í Moskvu
(það er á við meðal hesthús — því ber ekki að neita, sagði Símon óþolinn),
benti á þjóðminjasafnið, benti á söluhallirnar og kirkju heilags Basílíusar. . .
(330. bls.).
En í Landnámuútgáfunni segir:
Ekillinjn] yfirgaf varðmennina og staulaðist í áttina til hans. Hafði hann
eftir allt saman misskilið þvoglið í manninum málgefna?. . .
Kreml! hrópaði hann og benti á múrinn, turnana, en sérstaklega grafhýsið.
Því var Símon þegar kunnugur, tautaði óþolinmóður:
Það er á við meðal hrossakofa heima, það segirðu satt, nema hvað það
vantar á það risið.
Ekillinn sat við sinn keip, — bandaði í áttina til Minjasafnsins,
Söluhallanna; gat þess, að dómkirkju, sem verið hafði, hefði átt heilagur
Basilíus. (203.—204. bls.).
Hér er kúskurinn í lokin látinn geta þess að Basilíusdómkirkjan sé aflögð
sem guðshús og er það í samræmi við það ásteytingarefni margra að í
Sovétríkjunum eigi trúariðkanir undir högg að sækja.
Svipuð vaxandi hneigð kemur fram í því að á kránni spyrja menn Símon
Pétursson að því hver sé tilgangurinn með hringsóli hans umhverfis Kreml
„uden Ledsagelse" eins og segir í dönsku gerðinni (86. bls.). I Helgafelli er
notað lýsingarorðið „fylgdarlaus“ (332. bls.), en í Landnámuútgáfunni
orðasambandið „án lögfyrirskipaðrar leiðsagnar“ (209. bls.). Þar virðist enn
skírskotað til þess að Sovétríkin séu lögregluríki.
Nokkur fleiri dæmi af sama toga mætti telja en hér verður látið staðar
numið.
Þessi smásaga Gunnars á sér rætur í heimsóknum þeirra skáldanna,
Davíðs Stefánssonar og hans, til Moskvu.
Þær einkenndust á sínum tíma af vinsamlegri forvitni um þjóðfélagslegar
breytingar og tilraunir sem fylgdu byltingunni.
Breytingar Gunnars á sögunni eru í samhljómi við breytta afstöðu
margra borgaralegra manna í Vestur-Evrópu á því skeiði er leið frá fyrstu
útgáfu sögunnar til hinna síðustu.
Frásögnin þokast frá hlutlægni, sem vaxin var af ákveðnum skilningi og
samúð með málstað byltingarmanna, til augljósrar hneigðar, er sprottin var
af þeirri tortryggni og andúð á Sovétríkjunum og kommúnismanum sem
pólitískri stefnu er ríkjandi var á Vesturlöndum áratuginn áður en síðasta
útgáfa sögunnar birtist.
355