Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Page 17
Bókmenntarýni Sigurðar Nordals
Þýzk áhrif báru þá ægishjálm yfir norrænni málfræði, ritskýringu og bók-
menntasögu, og þau gera það enn að mestu leyti, að því er snertir íslcnzk
fræði. Frakkar höfðu að vísu margt lært af Þjóðverjum . . . En þeim hætti
síður en þýzkum og norrænum fræðimönnum við að kafna í lærdómnum, í sí-
felldum undirbúningi einhvers, sem aldrei var gert. Þeim var stundum álasað
fyrir að vera ekki nógu smásmugulir vísindamenn. Það vakti tortryggni, að
þeir skrifuðu ljóst og læsilega, voru mannlegri í hugsun, undu ekki við af-
markað sérsvið, vildu láta árangur fræða sinna verða arðbæran fyrir þjóð-
menningu og lífsskoðun samtíðarinnar. (Bls. 11 — 12)
Pósitívismi í bókmenntafræði og natúralismi í bókmenntum héldust mjög
í hendur og voru raunar af einni rót. Samtímis því sem Sigurður Nordal var
að vinna fyrstu fræðistörf sín, í anda pósitívismans, var hann hugfanginn af
þeim skáldskap, sem var vísvitað andóf gegn natúralismanum, og orti
sjálfur. Það var því harla eðlilegt að hann skynjaði þessi athafnasvið sín sem
andstæður, að í honum togaðist á skáld og fræðimaður og mundi varla verða
vært í sambýli til lengdar. Sú stefna, sem fræðistörf Sigurðar tóku frá því um
1918 er hann varð prófessor við Háskóla Islands, sýnir að hann hefur notað
síðari námsár sín, styrjaldarárin, til að brjóta fræðimannshugsjónina til
mergjar og móta fræðimennsku sinni stefnu sem veitt gæti andlegum kröft-
um hans fulla útrás, fremur en að hann hafi valið hlutverk fræðimannsins og
hafnað skáldinu. I raun og veru hafnaði hann líka því fræðimannshlutverki
sem hann hafði þegið í arf frá fyrirrennurum sínum.
Nú er ekki svo að skilja að Sigurður Nordal hafi hafnað öllu sem hann
hafði lært í skóla pósitívismans, að uppgjör hans hafi verið jafnróttækt og
þeirra samtímamanna sem lengst gengu. Því fór fjarri. A sama hátt og hann
sá blómaskeið sagnaritunar sem ávöxt af samruna andstæðna vildi hann í
sínu eigin starfi sameina þær andstæður sem togast höfðu á um hann sjálfan.
Við textafræði og bókmenntasögu jók hann nú bókmenntarýni og túlkun.
Markmið fræðimennskunnar var ekki lengur bundið við að grafa upp sögu-
legar staðreyndir og orsakasamhengi, heldur skyldu staðreyndirnar gæddar
lífi af persónulegum skilningi fræðimannsins, hin fornu verk lífguð við og
gerð að persónulegri eign viðtakenda. Þessi stefna leiddi hann þó ekki til að
takmarka sig við túlkun einstakra verka, því að endanlegt markmið var bók-
menntaleg og söguleg yfirsýn þar sem einstök verk birtast í víðara sam-
hengi. Það samhengi sem Sigurður Nordal einbeitti sér að var þjóðlegt ís-
lenskt samhengi. I því koma vitaskuld fram áhrif þessara tíma, þegar for-
ystumenn í andlegu lífi þjóðarinnar einbeittu kröftum sínum að því að vekja
sjálfsvitund og sjálfstraust þjóðarinnar samtímis því sem hún var að vinna
sér stjórnmálalegt sjálfstæði. Annars verður þjóðernishyggja Sigurðar ekki
til frekari umræðu í þessari grein.
7