Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Qupperneq 24
Tímarit Máls og menningar
annan skáldskap og aðra texta en í eigin lífsreynslu, og er því marklaust að
endurgera lífsreynslu skálds út frá kveðskapnum, (t.d. hvort það hefur farið
í veislur, til útlanda eða misst barn). I öðru lagi, og það skiptir meira máli, er
rangt að líta á hugmyndirnar, tilfinningarnar, inntak textans sem eitthvað
sem hefur átt eða gæti átt tilveru utan textans, áður en hann varð til;
merkingarmyndunin fer fram við samningu textans, og síðan við lestur
hans, og þótt margvísleg lífsreynsla skáldsins hafi gert það að þeim manni
sem orti kvæðið eða setti saman söguna, er það ekki þessi lífsreynsla sem er
viðfangsefni bókmenntafræðinnar. Merkingarheimur kvæðis eða sögu er
nýr veruleiki, en ekki nýr búningur um gamlan veruleika. Af þessu leiðir að
sú heild þar sem leitað er að staðfestingu túlkunar er ekki persóna sem eitt
sinn át og drakk, gladdist og þjáðist, heldur ákveðinn texti, ákveðið
textasafn (t.d. verk eins höfundar), ákveðin bókmenntahefð.
I frægri grein sem T.S.Eliot birti árið 1919, „Tradition and the Individual
Talent", hafnar hann þeirri skoðun að verkefni skáldsins sé að tjá persónu-
leika sinn og reynslu og segir m. a.:
. . . the poet has, not a “personality” to express, but a particular medium,
which is only a medium and not a personality, in which impressions and ex-
periences combine in peculiar and unexpected ways.
(Selected Prose, bls. 28)
Hér heldur Eliot því fram að viðfangsefni skáldsins sé ekki að tjá persónu-
leika, heldur vinni það með tjáningartæki eða miðil, þar sem áhrif og reynsla
tengjast á sérstæðan og óvæntan hátt. M. ö. o., í kvæðinu verður til eitthvað
alveg nýtt þótt það sé gert af nokkru efni. Eliot hafnar hinni rómantísku
kenningu um innblástur, „himinsenda andagift", kenningu sem mér virðist
Sigurður Nordal aldrei hafa yfirgefið þótt honum væri fullljóst að hún var
vandmeðfarin.
Hugmyndin um textann sem búning ákveðins efnis felur í sér þá hættu að
rýnandi leggi minni rækt við hina fullgerðu heild en það sem hann telur að
búi innan í forminu. Þegar við þetta bætist að hugmyndinni eða tilfinning-
unni er ætlað eiginlegt aðsetur utan textans er hætt við að kvæðið eða sagan,
tilefni áhuga á persónu skáidsins, falli í skugga persónunnar og sé ekki
gefinn svo rækilegur gaumur sem vert er. Vandinn sem fylgir þessari að-
greiningu efnis og forms kemur ákaflega skýrt í ljós þegar fjallað er um
misheppnuð verk. Eins og Sigurður Nordal bendir á í grein sinni „Viljinn
og verkið", sem upphaflega birtist í Vöku 1929, er ekki ólíklegt að mis-
heppnuð skáldverk hafi getað kviknað af jafn göfugum hugmyndum,
heitum tilfinningum, miklum innblæstri og fullgild list:
14