Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Blaðsíða 45
Heimspekin og Sigurður Nordal
þessarar keðju virðist fólk losna einungis þegar það sefur, veikist eða ieitar á
náðir vímugjafa sem enn auka á einsemd þess og firringu í fullu samræmi við
þann lífsstíl sundurgreiningar sem tækninni fylgir.
Hvernig getur heimspekin brugðist við þessum hugsunarhætti öðruvísi
en með því að minna sífellt á þau verðmæti sem í húfi eru og hætta er á að
hverfi úr sjónmáli, ef menn yfirvega ekki sífellt líf sitt og menningu?
Þetta gerði Sigurður Nordal og hefði hans ekki notið við má ætla að við
værum mun lengra komin í því að týna sjálfum okkur en ella. Það er raunar
umhugsunarvert hversu fljótir Islendingar hafa verið að tileinka sér tækni-
hyggjuna og þá sjálfdæmishyggju sem henni er nátengd. Ein hugsanleg
skýring er sú hversu veikar og óþroskaðar menningarhefðir okkar hafa
verið, að undanskyldum örfáum greinum bókmennta eða skáldskapar.
Hefðaleysi á sviði hugmynda og stjórnunar, samfara einföldum búnaði í
atvinnugreinum og húshaldi, virðist hafa orðið sá grunnur sem gerði okkur
kleift á örskömmum tíma að nýta okkur aðfengna tækni og þann hugsunar-
hátt sem er fylgifiskur hennar. Ef til vill má segja að Islendingar hafi orðið
svo skjótir til að laga sig að tæknihyggjunni vegna þess að þeir þurftu aldrei
að leggja á sig að hugsa menningu sína til grunna, yfirvega tilveru sína á
skipulega og agaða fræðilega vísu. Slíkt þurfa þær þjóðir einar að gera sem
mótað hafa um aldir eigið stjórnarfar, réttarkerfi, listir og menntun.
Þetta virðist Sigurði einmitt hafa verið ljóst og þess vegna brýnir hann
fyrir okkur að leggja rækt við arfleifðina, reyna að finna í henni það sem
dugar okkur til að vera enn við sjálf í hringiðu nútímaþjóðfélaga. Kenningu
sína reisir Sigurður einkum á þeim greinarmun sem hann gerir á milli þess
sem hann kallar siðun (eða tækni) og menningu (kultur). Þessi greinarmun-
ur, sem kemur víða fyrir í ritum hans bæði beint og óbeint, er greinarmunur
á hinu innra og hinu ytra, hinu áþreifanlega og hinu andlega, hinu mælan-
lega og hinu ómælanlega, hinu hlutlæga og hinu huglæga. Hvarvetna vakir
fyrir Sigurði að minna menn á mikilvægi og sérstöðu hins andlega, þess sem
ekki verður vegið eða mælt, ekki tölum tekið eða þreifað á. Hinn andlegi
þroski og hin andlega reynsla er það sem mestu skiptir, það sem gerir
mannlífið nokkurs virði. Sigurður hefði tekið undir með T.S. Eliot, þegar
hann segir: „Culture may even be described simply as that which makes life
worth living.“ M. ö. o. menning er það sem gerir lífið þess virði að lifa því.
Svo mikilvægur sem þessi greinarmunur er og lærdómsrík sú áminning
sem Sigurður gaf okkur, þá dugar heimspeki hans ekki til þess að móta þá
heilstæðu orðræðu sem þarf til að skýra veruleika okkar, ná utan um þær
þversagnir sem bærast í menningunni. Veikleikinn leynist, að mínum dómi,
í þeim greinarmun sem Sigurður leggur til grundvallar á tækni annars vegar
og eiginlegri menningu hins vegar. Með þessum greinarmun er nefnilega
35