Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Síða 54
Tímarit Máls og menningar
sökkt við England í stríðinu. Hún missti líka manninn sinn í stríðinu.
— Við vorum raunar ekki gift, sagði hún og brosti við endurminning-
unni. — Þá hefði ég orðið að hætta á sjónum. Stríðsárin, bætti hún við, það
voru hryllileg ár. Þá varð ég svona í skapinu. Stundum leið mér svo illa að ég
kastaði upp úti á götu.
A Þorláksmessu eldaði ráðskonan hnausþykkan jólagraut á danska vísu
og jós upp fyrir vinnustelpuna eins og hún væri að skammta mörgum búálf-
um.
— Ettu þetta, sagði hún. — Og mikið smjör og öl. Svona höfum við það
hér í Kaupmannahöfn.
Stelpan tróð í sig grautnum. Sá var nú ósvikinn.
Svo var reynt að fá jólasvip á stofurnar. Frúin gekk um og leit eftir. —
Hérna, sagði hún við vinnustelpuna. — Látið þenna dúk á borðið, en farið
vel með hann. Systir mín heitin saumaði hann.
Þetta var einfaldur jóladúkur, líklega gerður af unglingstelpu. Og vinnu-
stelpan rifjaði upp fyrir sér söguna um gamla manninn og systur frúarinnar,
söguna um að þau hefðu verið elskendur þegar þau voru ung en hún hefði
dáið áður en þau gátu gift sig. Það var fallegt af þeim að hafa dúkinn hennar
á jólaborðinu, hugsaði vinnustelpan, verulega fallegt. Og hún reyndi að fara
sem mýkstum höndum um þenna áratuga gamla útsaum.
Á aðfangadagskvöld máttu vinnukonurnar sitja inni í stofu. Stéttaskipt-
ingin hörfaði fyrir jólaboðskapnum sem veitast skyldi öllum lýðnum. Frúin
kveikti á kertum og gamli maðurinn náði í mörg hundruð ára gamla biblíu.
Auðmjúkur — sem sjaldan henti — laut hann hærugráu höfði yfir hina helgu
bók og las heimilisfólki sínu jólaguðspjallið.
Svo óskaði hver öðrum gleðilegra jóla. Gjafapakkarnir voru opnaðir.
Hjónin gáfu ráðskonunni tösku og vinnustelpunni skrautgripi (sem hún er
búin að brjóta og týna). Sjálf fengu þau marga pakka. Frúin fékk armband
sem var eins og slanga með rauð augu og hringaði sig um handlegg hennar.
— Táknrænt fyrir kveneðlið, sagði gamli maðurinn og allar konurnar
brostu, eins og til að samþykkja líkinguna við þetta eitraða skriðdýr.
Vinnustelpan hugsaði heim í sveitina sína. Henni fannst ekki lengur hátíð-
legt — hana langaði heim.
— Væna mín, sagði gamli maðurinn, — fáið yður hérna koníakssopa. Þér
hafið bara gott af því, þér megið trúa því.
Gamli maðurinn átti jafnan birgðir af koníaki. Nú hellti hann í hálft glas
handa vinnustelpunni. Það var heitt í stofunni og eimurinn af koníakinu og
sterkt bragðið gerðu stelpuna syfjaða. Ekki var heldur vakað lengi á jóla-
nóttina. Bráðlega gengu gömlu hjónin til herbergja sinna. Ráðskonan staldr-
aði við hjá stiganum og gróf einhversstaðar upp stæðilegan pakka.
44