Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Side 78
Tímarit Máls og menningar
ekki kærir sig um það; og við það myndi hún missa hluta af sínum karakter.
Og hvað yrði unnið með því? Sælir eru einfaldir, sagði Grímur Elliðagrímur
áður en hann var fluttur á hælið, í skáldsögu Gunnars Gunnarssonar. Þetta
veldur að sjálfsögðu efasemdum hjá Alfi um gildi eigin þekkingarleitar:
Hversvegna vil ég kafa hvern hy! og sjá í gegnum hvert fjall? Því hylurinn
er ekki framar hylur, þegar hann hefur verið kafaður til botns. (116)
Álfur hefur dregið þá ályktun af sambandinu við Dísu að einstaklingur-
inn sé í eðli sínu jafnmáttugur og alheimurinn. I þessu felst m. a. að hver og
einn verður að finna lífinu tilgang eftir því sem hugur hans býður. Og hugir
tveggja persóna geta aldrei runnið saman. Maðurinn er alltaf einn. Skyld-
leikinn við existentialismann er greinilegur og kemur líka fram í múrskipt-
ingunni og skoðunum Álfs á því hvað sé raunverulegt líf. Þar er boðað að
maðurinn endurskoði líf sitt og geri sér grein fyrir sérstöðu sinni, takist á
við hana, þori að rísa upp og taka ákœttu, sem er grundvöllur þess að hægt
sé að tala um raunverulegt líf. Allt eru þetta atriði sem existentialistar hafa
lagt mikla áherslu á.
Eins og oft þegar maðurinn kemst í tilvistarkreppu fær sú stefna byr
undir báða vængi er boðar að vænlegast sé að reyna að höndla nútíðina sem
mest og best, eins konar lífsnautnastefna. Þar sem engin algild sannindi eru
til sem eru þess virði að leita að, er best að lifa hátt og stutt fremur en
innantómu langlífi. Með tiltækum meðulum er reynt að rjúfa fjötra hvers-
dagsins, boð og bönn, og hefja sig til flugs inn á huldar brautir. Þessar hug-
myndir koma heim við nýrómantíkina sem var áberandi í Kaupmannahöfn
á þeim árum er Sigurður Nordal dvaldi þar við nám. Rótina má kannski
rekja til Nietzsche og enginn vafi er á því að Sigurður hefur orðið fyrir
áhrifum af kenningum hans eins og flestir aðrir, um það ber Hel ótvírætt
vitni. Eftir viðskilnaðinn við Dísu hellir Álfur sér út í botnlausan ólifnað.
Það er ekki einföld nautnahyggja sem leiðir hann til þess, miklu heldur
gríðarleg örvænting hins lífsleitandi manns:
Eg er dæmdur til þess að þrá sífelt ástríður hins dauðadæmda og þyrsta í eitr-
aðar veigar. Eldur haustsins brennur í æðum mér, og ég get hvergi framar
unað. (120)
Togstreita andstæðra afla er grundvallareinkenni á hugsunarhætti Alfs.
Þetta nefndi Sigurður Nordal marglyndi í fyrirlestrum er hann flutti í
Reykjavík 1918. Þessi hugmynd hefur því verið að brjótast í honum á þeim
árum er hann semur Hel, 1913 — 1917, enda er Alfur hinn dæmigerði marg-
lyndi maður:
68