Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Page 86
Tímarit Máls og menningar
Fáðu þér sæti og taktu það rólega, vegna þess að ég er búinn að
taka af þér ómakið.
Alþýðan áttaði sig ekki almennilega. Það tekur hana ævinlega lang-
an tíma að gera sér grein fyrir nýjum og breyttum aðstæðum. Alþýð-
an er nú einu sinni þannig gerð. En loksins þegar hún skildi þótti
henni þetta vera súrt í broti, en hún sagði ekkert fremur en fyrri dag-
inn.
Til þess að alþýðunni leiddist ekki veislan sem hafði farið í magann
á velgerðarmanni hennar, þá ákvað hann að halda henni veislu fyrir
augað. Veislur fyrir augað eru einmitt að verða tíska og maðurinn
kallaði á fræga kvikmyndastjórann sinn og bað hann blessaðan að
sýna alþýðunni kvikmyndina af því þegar hann kroppaði fyrst í rétt-
ina en át þá síðan alla í nafni og þágu alþýðunnar. Kvikmyndin var
raunsæ og þrungin ádeilu. Myndmálið var einfalt og áhrifaríkt og
hver auli gat skilið það, og þá auðvitað alþýðan líka. Myndatakan
hitti öll í mark og augnaveislan var ægilega flott og mannleg.
A heimleiðinni fyllti huga alþýðunnar beiskja og hún ákvað að
bjóða velgerðarmanni sínum í mat og leika sama leikinn og hann
hafði leikið og storkurinn í dæmisögunni. Alþýðunni kom ekkert
annað ráð í hug en það að snúa á aðra með sömu aðferðum og snúið
hafði verið á hana. Einmitt af þessu er lífið eintómir endalausir útúr-
snúningar.
Alþýðan þrælaði baki brotnu í heilt ár og safnaði fé til veislunnar.
Að árinu liðnu hafði hún safnað fyrir fé til kaupa á nógum mat í maga
mannsins.
Meðan þetta gerðist sat þjóðlegi maðurinn heima í matarkúr og
hann hugsaði:
Ég hlakka til að borða hjá alþýðunni, hjá henni er ætíð svo
óbrotinn, hollur og góður matur, svo trefjaríkur og megrandi.
Nú hafði alþýðan hlaðið matborðið heima hjá sér og hugðist háma
matinn í sig í hefndarskyni áður en velgerðarmaðurinn kæmi til veisl-
unnar. En þegar til átti að taka missti alþýðan matarlystina vegna
djúprar samúðar og svo vildi hún ekki heldur koma óorði á sig í aug-
um þjóðlega mannsins.
Nú kom þjóðlegi maðurinn og fór strax að borða, hann sá svipinn
á alþýðunni og sagði:
76