Morgunblaðið - 11.12.2014, Blaðsíða 26
26 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. DESEMBER 2014
Náttúrubarn er endurminningabók
dr. Sturlu Friðrikssonar. Í bókinni segir
Sturla frá veröld sem var, svipmiklu
fólki, stórhuga athafnamönnum,
náttúrulífi landsins og kryddar með
veiðisögum og iðandi frásagnargleði.
Bók fyrir náttúrubörn á öllum aldri
sem gaman er að gefa, þiggja og lesa.
ENDURMINNINGAR
NÁTTÚRUBARNS
haskolautgafan.hi.is
Jólahátíð fatlaðra fer fram á Hilton
Reykjavík Nordica í kvöld. Þetta er í
32. sinn sem André Bachmann
stendur fyrir há-
tíðinni og gerir
hann ráð fyrir
álíka mörgum
gestum og í fyrra
eða um 1.400
manns.
„Mér þykir
gaman að gleðja
aðra og sér-
staklega þá sem
minna mega sín,“
segir André.
Hann leggur áherslu á að margir
leggi hönd á plóg. Nefnir að Bjarni
Þór Sigurðsson og Páll Hjálm-
arsson, veitingatjóri á Hilton
Reykjavík Nordica, séu sér til halds
og trausts og Sigmundur Ernir Rún-
arsson sé kynnir eins og mörg und-
anfarin ár. Fyrirtæki eins og Nói Sí-
ríus, Vífilfell og Ásbjörn Ólafsson
gefi allar veitingar og listamenn
komi fram án endurgjalds. „Við
byggjum þetta á gleði og það er ekk-
ert ánægjulegra en að sjá brosið á
gestunum og ánægjuna í augum
þeirra.“
Fram koma Heiða Ólafs, Laddi,
Hreimur, Gummi Jóns og Vest-
anáttin, Lögin úr teiknimyndunum,
Ingó veðurguð, Skítamórall ásamt
André Bachmann og hljómsveitinni
Mjallhvít. Skólahljómsveit Árbæjar
og Breiðholts undir stjórn Snorra
Heimissonar leikur í anddyri frá
klukkan 19.15. Forsetahjónin Ólafur
Ragnar Grímsson og Dorrit Muss-
aieff eru heiðursgestir. Aðstand-
endur eru hvattir til að mæta með
sínu fólki. Aðgangur er ókeypis og
allur viðurgjörningur, húsið verður
opnað klukkan 19 og skemmtunin
stendur til um kl. 21.30.
steinthor@mbl.is
Morgunblaðið/Kristinn
Ósvikin gleði Allir skemmta sér vel á hinni árlegu jólahátíð á Hótel Nordica.
„Gaman að gleðja aðra“
André Bachmann stendur fyrir
jólahátíð fatlaðra í 32. sinn
André
Bachmann
BAKSVIÐ
Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is
Í heimi þar sem frelsi fólks á netinu
hefur hrakað síðustu árin heldur Ís-
land áfram að vera eitt þeirra ríkja
þar sem borgararnir hafa sem frjáls-
astar hendur við
að athafna sig
þar. Þetta er í það
minnsta niður-
staða árlegrar
skýrslu banda-
rísku rannsókn-
arstofnunarinnar
Freedom House
sem fylgist með
lýðræði, frelsi og
mannréttindum.
Skýrslan nær
til 65 ríkja á tímabilinu maí 2013 til
sama mánaðar í ár. Samkvæmt henni
búa Eistar og Íslendingar við mest
frelsi á netinu. Almennt hefur net-
frelsi í löndunum þó hnignað, fjórða
árið í röð. Þannig hefur þróunin verið
til hins verra í 36 þeirra á viðmið-
unarárinu.
Nota njósnir NSA sem átyllu
Á meðal lykilniðurstaðna skýrsl-
unnar er að í 41 af ríkjunum 65 voru
samþykkt eða lögð fram laga-
frumvörp sem gerðu vissa tjáningu á
netinu ólöglega og juku möguleika
stjórnvalda á að hafa stjórn á efni og
eftirlit með netverjum.
Fólk sem hafði tjáð sig um stjórn-
eða samfélagsmál á netinu var hand-
tekið í 38 af löndunum sem lagt var
mat á. Verst var ástandið í Mið-
Austurlöndum og Norður-Afríku þar
sem handtökur höfðu verið gerðar í
tíu af ellefu löndum á tímabilinu.
Þá er áhyggjum lýst af því að sjálf-
stæðir fréttamiðlar á netinu, sem eru
oft og tíðum eina leið fólks til að fá
óháðar fréttir, hafi orðið fyrir stór-
auknum þrýstingi. Tugir óháðra
fréttamanna hafi orðið fyrir árásum í
löndum eins og Sýrlandi, Úkraínu,
Tyrklandi og Egyptalandi.
Vakin er athygli á því að uppljóstr-
anir um njósnir bandarísku þjóðar-
öryggisstofnunarinnar NSA hafi orð-
ið stjórnvöldum í fjölda landa hvati,
eða afsökun, til þess að krefjast þess
af netþjónustufyrirtækjum að minn-
isbankar þeirra séu geymdir innan
landanna. Sú þróun, auk þess að vera
kostnaðarsöm, geri notendur þjón-
ustunnar berskjaldaðri fyrir eftirliti
stjórnvalda.
Skipta sér ekki af efninu
Ísland er eitt nítján ríkja sem fá
einkunnina frjálst í skýrslunni og
trónir á toppi listans ásamt Eistum.
Hæstu einkunnina fá Íslendingar í
flokkunum hindrunum á aðgengi að
netinu og takmörkunum á efni. Því til
stuðnings er nefnt að Íslendingar
státi af einhverri útbreiddustu og
mestu notkun á netinu og samfélags-
miðlum á byggðu bóli. Netaðgengi
landsmanna sé það mesta í Evrópu,
um 97% borið saman við 72% innan
aðildarríkja Evrópusambandsins.
Notkunin sé mikil og verð netáskrift-
ar viðráðanlegt.
Hérlend stjórnvöld skipti sér ekki
af því efni sem birtist á netinu, net-
þjónustuveitur og þeir sem halda ut-
an um efni séu ekki gerðir ábyrgir
fyrir innihaldinu og stór hluti þjóð-
lífsins fari fram á netinu.
Farið er yfir þróun þriggja frum-
varpa og framtaka sem gætu haft
áhrif á netfrelsi á Íslandi í skýrsl-
unni. Nefnt er að frumvarp sem Ög-
mundur Jónasson, þáverandi
innanríkisráðherra, lagði fram um
bann við klámi á netinu hafi ekki orð-
ið að lögum, drög að stjórnarskrá
sem meðal annars voru unnin fyrir
tilstuðlan netmiðla hafi verið sett á ís
eftir ríkisstjórnarskipti og sömuleið-
is hafi hugmyndir um að Ísland skapi
sér sérstöðu hvað varðar tjáningar-
og upplýsingafrelsi legið í dvala.
Kapphlaup um stjórn netsins
Það er styrkleiki fyrir Ísland að
stjórnvöld hér kunni ekki þann hern-
aðarlega hugsunarhátt sem einkenn-
ir stór ríki eins og Bandaríkin, Kína
og Rússland, að mati Helga Hrafns
Gunnarssonar, þingmanns Pírata.
„Ísland er heppið að vera ofboðs-
lega lítið land með engan her sem
kalla mætti og hafa ekki ríkisstjórn
sem er heltekin af þjóðaröryggis-
áhyggjum, hvort sem þær eru raun-
verulegar eða ímyndaðar,“ segir
hann um ástæður netfrelsis hér á
landi.
Þetta eru meðal annars ástæður
þess að ákjósanlegt sé að gera Ísland
að miðstöð tjáningar- og upplýs-
ingafrelsis á heimsvísu. Það tækifæri
hafi hins vegar ekki verið nýtt. Helgi
Hrafn hefur jafnframt trú á að Ís-
land detti niður listann á næsta ári
eftir lögbann sem sett var á
skráaskiptisíðurnar Piratebay og
Deildu.
Hvað varðar neikvæða þróun ann-
ars staðar segir hann að eftir því sem
netið spili stærra hlutverk í sam-
félaginu reyni sífellt stærri og öflugri
öfl að ná valdi yfir því. „Það er í raun-
inni í gangi ákveðið kapphlaup á milli
stærstu hagsmunaaðila heimsins,
ríkisstjórna, herja og fyrirtækja. Það
er þróun sem fólk verður að átta sig á
að varðar mannleg samskipti.“
Upplýsingarnar sem yfirvöld og
fyrirtæki geti nú aflað um fólk séu
víðtækari en áður þekktist. Því sé
mikilvægt að almenningur streitist á
móti tilburðum til að stjórna netinu.
Netfrelsi heldur áfram að hnigna
Ísland á toppi lista bandarískrar rannsóknarstofnunar um netfrelsi Dregið hefur úr frelsi í næstum
helmingi þeirra ríkja sem lagt er mat á Yfirvöld og fyrirtæki berjast um völdin til að stjórna netinu
Morgunblaðið/Rósa Braga
Samfélagsmiðlar Tekið er fram í skýrslunni að aðgengi að netinu sé gott á
Íslandi og notkun samfélagsmiðla eins og Facebook sé ein sú mesta í heimi.
Skert frelsi
» Íbúar í Íran, Sýrlandi, Kína
og Kúbu búa við minnst frelsi í
netmálum samkvæmt skýrslu
Freedom House.
» Fyrir mestri skerðingu á
stafrænu frelsi einstaklinga
urðu íbúar í Rússlandi og Tyrk-
landi.
» Einnig varð umtalsverð aft-
urför í Úkraínu, Angóla og
Aserbaídsjan.
Helgi Hrafn
Gunnarsson