Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.12.2014, Page 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.12. 2014
Menning
Sjöunda bindi hinnar afar viða-miklu Byggðasögu Skaga-fjarðar er komið út. Þetta er
glæsileg ritröð, hvernig sem á er
litið; einstaklega upplýsandi og
jafnframt skemmtileg, með allra-
handa upplýsingum um öll býli í
Skagafirði og sögum um fólkið sem
þar hefur lifað og dáið í aldanna
rás. Nýja bindið er 480 blaðsíður
með 640 ljósmyndum, auk korta og
teikninga. Þótt sá sem þetta ritar
eigi ekki ættir
að rekja til
Skagafjarðar
sýnir reynslan
að þetta eru
bækur sem un-
un er að lesa,
og sökkva sér í.
Hjalti Pálsson
er ritstjóri verksins og aðalhöf-
undur eins og í fyrri bindum.
„Þessi bók fjallar um Hofshrepp,
sveitirnar kringum Hofsós. Ekki
var pláss fyrir Hofsós að þessu
sinni, enda var það sérstakur
hreppur og mun bíða lokabind-
isins,“ segir Hjalti.
Hann segir orðið ljóst að bindin
muni verða tíu. Verkið sem hann
hóf að skrifa fyrir nítján árum hef-
ur heldur betur hlaðið utan á sig.
„Nú eru þrjár bækur eftir, það er
ekki vegur að koma því í tvö bindi
sem eftir er því einnig er eftir að
birta miklar nafnaskrár. Í áttunda
bindi, sem ætlað er að komi út eft-
ir tvö ár, verður fjallað um Fells-
hrepp og Haganeshrepp. Ég tala
alltaf um þessar sveitir í fortíðinni
því þessir hreppar eru ekki til
lengur en verkinu er skipt niður
eftir þúsund ára gömlu skipulagi.
Níunda bindið verður Holts-
hreppur, sem eru austurhluti Fljót-
anna. Þau voru upphaflega eitt
sveitarfélag, Fljótahreppur, en
honum var skipt upp laust fyrir
aldamótin 1900. Sveitungum sum-
um fannst vera of mikið af ómög-
um í öðrum sveitarhlutanum og
vildu því kljúfa sig frá honum. Á
þeim tíma voru yfir 500 manns bú-
settir í Fljótum en ég veit ekki
íbúafjöldann nú, það eru kannski
60 til 70 manns.
Í tíunda bindi verða kaupstað-
irnir Hofsós og Grafarós þar sem
verslað var í 80 ár. Þar verður
einnig fjallað um Drangey og
Málmey, eyjar með merka sögu.“
Ekki hefðbundin býli
Nýja bókin fjallar um Hofshrepp,
samtals 78 býli í Óslandshlíð,
Deildardal, Unadal og á Höfða-
strönd, ásamt sveitarfélagslýsingu.
„Nú er föst búseta á 24 eða 25
jörðum í hinum gamla Hofshreppi
en búrekstur á örfáum til þótt eng-
inn eigi þar heima, en á öðrum er
frístundabyggð“, segir Hjalti.
„Nokkrar stórjarðir eru í sveitinni
sem fá lengri umfjöllun en aðrar.
Ég nefni sérstaklega Hof og Bæ.“
– Þessar jarðir eru setnar með
prýði en búhættir hafa breyst. Á
Bæ er Steinunn Jónsdóttir með
vinnustofu fyrir listamenn og kvik-
myndaiðnaður tengist Hofi þar
sem Baltasar Kormákur á heima.
„Þessar jarðir hafa verið end-
urbyggðar með glæsilegum hætti
og hefur verið frábærlega vel að
því staðið. En þar er ekki rekinn
hefðbundinn búskapur að öðru
leyti en að á þeim eru hrossabú og
tún heyjuð. Hesthúsin á þessum
bæjum í dag eiga fátt sameiginlegt
með Blesakofanum á Hofi í Hjalta-
dal þar sem ég mokaði út skít í
gamla daga sem krakki. Þetta er
dæmi um hvernig búskapur hefur
á einni öld breyst úr mold-
arkofahokri í stórframleiðslu.
Auk þeirra tveggja stórjarða
sem áður eru taldar má nefna Gröf
og Höfða á Höfðaströnd, sem er
ysta jörðin í Hofshreppi.“
Skoðar alla staðina
– Vinnan við þessar sjö bækur hef-
ur eflaust verið mismunandi,
stundum hefur þú fjallað um stór
svæði sem eru nú meira og minna í
eyði, og þú hefur leitað þar
gleymdra tóftabrota, meðan önnur
eru mikið til í byggð.
„Í þessu verki má geta þess að
Unadalur er að heita allur kominn
í eyði. Þar voru átta býli í ábúð
fram á 20. öld. Nú búa þar ein-
ungis öldruð hjón á einum bæ.“
– Það hefur þá verið eins og
björgunarleiðangur að leita upplýs-
inga?
„Jú, stundum, og í raun hefði ég
þurft að byrja á þessu verki fyrir
30 til 40 árum, til að ná í aldamóta-
kynslóðina sem var í miklu nánari
tengslum við landið sitt en fólk al-
mennt í dag. Ég hef stundum
reynt að vinna framfyrir mig, ná
tali af eldri körlum og kerlingum á
svæðum sem ég fer ekki að skrifa
um fyrr en eftir nokkur ár. Samt
verður maður oft of seinn. Maður
er alltaf að missa heimildafólk,
heimildir týnast og hverfa með
hverri kynslóð.
Ég hef allt síðan fyrsta bindið
kom út árið 1999 gefið upp gps-
staðsetningar fornra eyðibýla, selja
og margra annarra mannvistarleifa
og ég hef lagt mig fram við að
finna öll gömul búsetusvæði. Þau
eru að minnsta kosti eittþúsund í
Skagafirði. Gróflega áætlað hafa
verið um 600 ábýlisjarðir síðan
1780 en á fyrri öldum nokkur
hundruð í viðbót. Það er tímafrekt
og tafsamt að segja frá öllum þess-
um jörðum því hverja og eina þarf
að heimsækja, margar oftsinnis.
Ég vil samt taka fram að ég á
ekki einn heiðurinn af þessu rit-
safni, það er margra manna verk
og síðustu sex árin hefur Kári
Gunnarsson frá Flatartungu verið
með mér í þessu. Við erum fastir
starfsmenn en einnig hafa margir
aðrir komið að þessu á einn eða
annan hátt.“
Og Hjalti segir að vettvangsferð-
irnar séu skemmtilegastar. „Að
hitta fólkið og fara á jarðirnar og
kynnast þeim, fá yfirsýn. Ég get
ekki skrifað um staði án þess að
hafa séð þá.“
Þegar við förum saman yfir bók-
ina bendir Hjalti á að umfjöllun
um Bæ á Höfðaströnd sé rúmlega
fimmtíu blaðsíður.
Horfnir af yfirborðinu
„Ein meginástæðan er sú að í landi
Bæjar urðu til tveir þéttbýlisstaðir.
Sunnan við Höfðavatn var Kota-
byggðin. Þar bjuggu margar fjöl-
skyldur sem lifðu á sjósókn, nokkr-
um kindum og silungi úr vatninu.
Svo voru Bæjarklettar, merkileg
útgerðarstöð við sjóinn fyrir neðan
Bæ,“ segir Hjalti og bendir á kort
og athyglisverðar loftmyndir af
stöðunum.
„Báðir þessir staðir eru að heita
má horfnir af yfirborði jarðar.
Ekkert sést eftir af því mannlífi
sem þar var. Við Bæjarkletta hefur
eflaust verið útræði frá fyrstu tíð,
þótt engar sagnir séu um það, en á
miðri 19. öld settist fólk að á báð-
um þessum stöðum.
Við Bæjarkletta risu nokkur
íbúðarhús, íshús var byggt þar
1897, síðar fiskverkunarskúrar og
hjallar, jafnvel verslunarhús og þar
voru smíðaðir margir bátar og
gerðir út fyrstu þilfarsbátar í
Skagafirði. Þar var mjög góð lend-
ing sem stóð næstum óhögguð til
1934 þegar kom ofsafengið brim
sem jós upp möl og stórskemmdi
lendinguna. Árið áður hafði einn
bátur þaðan farist og laust fyrir
1940 var farið að reisa bryggju og
frystihús á Hofsósi – þá tók að
fjara undan þessari byggð. Hún fór
í eyði árið 1945 og Kotin 1950. Ég
hef leitað mikið en ekki fundið eina
einustu ljósmynd frá þessum stöð-
um meðan fólk bjó þar.“
Byggðasagan mun verða um 25
ára verkefni því stefnan er að
klára síðustu þrjár bækurnar á
næstu sex árum. „Nú er maður
loksins farinn að sjá fyrir endann á
þessu og það er líka eins gott, ég
fer að verða of gamall til að sinna
þessu,“ segir Hjalti og brosir.
Bæjarklettar niður af Bæ, sem er efst til hægri. Við Bæjarkletta var útgerðarstöð og búsetustaður margra fjölskyldna um
áratuga skeið. Góð lending var í Bæjarvík, til vinstri, þar til hún eyðilagðist í brimi árið 1934. Bæjarklettar fóru í eyði ár-
ið 1945. Á nesi í Kotabót í Höfðavatni, uppi til vinstri, var þéttbýlisstaðurinn Kotin sem fór í eyði árið 1950.
Ljósmynd/Hjalti Pálsson
NÝTT BINDI HINNAR VIÐAMIKLU BYGGÐASÖGU SKAGAFJARÐAR FJALLAR UM HOFSHREPP
„Heimildir týnast og hverfa
með hverri kynslóð“
AÐ SÖGN HJALTA PÁLSSONAR, RITSTJÓRA HINNAR GLÆSILEGU BYGGÐASÖGU SKAGAFJARÐAR, ERU AÐ MINNSTA KOSTI EITTÞÚSUND BÚSETUSVÆÐI Í
SKAGAFIRÐI. VIÐ RITUN BYGGÐASÖGUNNAR HEIMSÆKIR HANN ALLAR ÞESSAR JARÐIR. ÁÆTLAÐ ER AÐ VERKIÐ TAKI ALDARFJÓRÐUNG.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
Í útgáfuhófi í Höfðaborg á Hofsósi var Hjalti Pálsson ritstjóri upptekinn við að
árita hið nýja bindi Byggðasögu Skagafjarðar fyrir áhugasama lesendur.
Ljósmynd/Örn Þórarinsson
Þórðarhöfði í Skagafirði. Höfðavatnið er bak við Höfðann og Höfðamölin
tengir hann við austurlandið. Í Höfðanum eru glöggar minjar um fornbýli.
Ljósmynd/Hjalti Pálsson
* … í raun hefðiég þurft aðbyrja á þessu verki
fyrir 30 til 40 árum.