Morgunblaðið - 06.03.2015, Side 4

Morgunblaðið - 06.03.2015, Side 4
4 | MORGUNBLAÐIÐ M argir hafa rekið augun í auglýsingu frá Hamborg- arafabrikkunni þar sem stofnendur og aðalsp- rautur veitingastaðanna, þeir Sig- mar Vilhjálmsson og Jóhannes Ás- björnsson – Simmi og Jói – sjást á myndum frá fermingardögum þeirra kumpána. Það er þó meiri saga á bak við myndirnar, þegar að er gáð, ekki síst í tilfelli Simma. Þar er ekki allt sem sýnist. Sá allra mest fermdi! Blessunarlega tekst flestum að lenda málum með þeim hætti að þeir eru sáttir við eigið útlit á ferming- ardaginn, enda búið að leggja allt í sölurnar svo vel megi við una. Simmi var þó ekki í þeim hópi, eins og hann rifjar upp. „Ég var ekki svo heppinn á ferm- ingardaginn. Mér fannst ég ekki flottur þá,“ rifjar hann upp og ekki laust við angurværð í röddinni. „Í fyrsta lagi þá fermdist ég í Svíþjóð, ári á eftir öllum íslensku vinum mín- um því í Svíþjóð fermast börn ári seinna en hér á landi. Ég hef oft sagt að ég sé mest fermdi maður sem ég þekki, því ég þurfti að fara í lest frá Gautaborg til Kaupmannahafnar til að hitta Íslendingaprestinn fyrir Norðurlönd í Köben. Þar var ég á vikulöngu námskeiði hjá prestinum í einkafræðslu. Ég komst því ekki undan undirbúningnum að neinu leyti því ég var þarna einn! Það þýð- ir ekki að kunna trúarjátninguna til hálfs og ætla að muldra hana og vona að hún hverfi inn í kliðinn þeg- ar hinir fimmtán fara með játn- inguna – það er ekki í boði þegar þú ert einn! Það var bara próf í lok vik- unnar og ég las eins og skepna fyrir það til að ná. Svo endaði þetta á því að fermingarathöfnin fór fram í norsku sjómannakirkjunni, með danska Íslendingaprestinum, í Gautaborg í Svíþjóð. Það vantaði bara Finnland til að fullkomna þetta,“ bætir Simmi við, hugsi. En þá að því sem máli skiptir. Ferming- arfötunum. Laxableikt og vínrautt „Fermingarfötin voru hræðileg. Mamma keypti þau án þess að ræða við mig og þegar ég sá þau sagði ég bara nei. Við sömdum svo reyndar þannig að ég myndi samt nota þau, fyrst búið var að kaupa þau, gegn því að ég fengi sjálfur að velja mér flott föt að fermingunni lokinni. Ég var semsagt í vínrauðum ullarjakka og laxableikum buxum, með bindi frá bróður mínum og burstaklipptur í ofanálag, en ég var þá nýbúinn að fara í mislukkaða burstaklippingu.“ Viðstaddir hrista höfuðið og súpa hveljur undir þessari upptalningu og ekki er laust við samúð í garð Simma. En Jói hnýtur þá um lykilatriði í þessu öllu saman: „En bíddu hægur – þú ert nú bara með venjulega klippingu á fermingarmyndinni,“ og vísar þar til myndarinnar í auglýs- ingunni sem vísað var til hér að framan. „Hvernig stendur á því?“ Simmi útskýrir hvernig í pottinn var búið. „Við ákváðum að fresta fermingarmyndatökunni, uns hárið hefði náð sér á strik á ný.“ Þetta hlýtur að hafa verið hreint afleit klipping! „Engu að síður á ég mynd af mér á fermingardaginn, sem er alveg skelfileg.“ Jói sleppir þessu tæki- færi ekki og krefst birtingar á myndinni. „Þú hefur aldrei flíkað þessari mynd, heldur bara leikið þér að því að líta vel út við hliðina á mér.“ Jóa þykir félagi sinn hafa sloppið billega á meðan hann hefur ekki hlíft sér – né þjóðinni – við birtingu sinni mynd. Myndin af Simma er geymd en ekki gleymd, ákveðum við. Sáttur við sjálfan sig í dag „Þetta eru alveg nýjar fréttir fyrir mér. Þegar fólk sér fermingarmynd- irnar af Simma og mér hlið við hlið, þá fæ ég yfirleitt viðbrögð á borð við „Simmi hefur ekkert breyst, en þú hefur nú eitthvað fríkkað.“ Af því ég lenti í því um fermingaraldurinn að vera einfaldlega ekki í réttum hlut- föllum. Líkaminn á mér var bara ekki í réttum hlutföllum. Ég stækk- aði mjög grimmt þarna rétt fyrir fermingu og var með þeim stærri sem fermdust, og ég hef oft horft á andlitið á mér á myndum frá þessum tíma og furðað mig á því hversu svakalega það lengdist og var ekki í réttri lögun. Nokkrum árum seinna rétti þetta sig svo allt saman af og small í rétt hlutföll, og endaði í eðli- legri stöðu, eins og þið þekkið mig í dag. En ég var ekki kominn á þann stað þegar ég fermdist.“ Engu að síður segir Jói að sér hafi liðið vel á fermingardaginn og í raun sé hann miklu meðvitaðri um það nú en hann var þá, hversu asnalega hann leit út. Hann uppsker mikinn hlátur við þessari yfirlýsingu. „Þetta þótti ekki versta ferming- armyndin á þeim tíma en hún hefur hins vegar elst afleitlega. Mér líður hins vegar betur með mig í dag og er allur þeim mun sáttari, þegar ég lít á mig og ber mig saman við drenginn á myndinni.“ Hvað fermingarfötin varðar þá fékk Jói að fara í tískuverslunina Sautján og velja sér föt. „Ég man að ég var mjög sáttur við fötin enda vissu fótgönguliðarnir hennar Svövu Johansen upp á hár hvernig átti að dressa fermingardrenginn upp.“ Mismunandi fermingarmenning Við ákveðum að ræða aðeins frek- ar fermingarnar í Svíþjóð og í hverju þær eru frábrugðnar þeim á Íslandi. Simmi segir kúltúrmuninn gríð- armikinn. „Ég fór í fermingarveislu til vinar míns því hans veisla var á undan minni. Ég fór bara sem leið lá í bókabúð og keypti Parker- pennasett, með kúlupenna og skrúf- blýanti. Þetta kostaði nokkra þús- undkalla á verðlagi þess tíma, engin ósköp þannig lagað. Þessu lét ég pakka inn og fór svo með í veisluna. Þegar þangað er komið kemur hálf- gert fát á vininn sem spyr hvað ég sé eiginlega að gera? Og þegar hann opnar pakkann fer bara kurr um sal- inn; fólk pískrar hvað vinurinn sé að hugsa með þessa gjöf?! Menn gefa nefnilega ekki fermingargjafir þarna ytra, utan mamma og pabbi sem gefa einhverja mjög flotta gjöf. En með þessu var ég meðal annars að toppa gjöfina sem hann fékk frá ömmunni og afanum, og það var nú ekki beint vinsælt. Og þegar þessi sami sænski vinur kom í ferming- arveisluna mína og sá peninga- umslögin í stöflum þá gapti hann bara yfir allri geggjuninni. Fyrir þeim er gjöfin sú að játast kristinni trú.“ Spurning hvort íslensk fermingar- börn eru tilbúin í það fyrirkomulag? jonagnar@mbl.is Fínir á fermingardaginn Morgunblaðið/Golli Fermingardrengir Simmi var ekki sáttur við eigin útgang á fermingardaginn, í vínrauðum ullarjakka og laxableikum buxum ásamt því að skarta mislukkaðri klippingu. Jói var hins vegar sáttur nokk með föt bæði og sjálfan sig – þó hann hafi orðið ennþá sáttari við eigið útlit í seinni tíð. Jói „Ég hef oft horft á andlitið á mér á myndum frá þessum tíma og furðað mig á því hversu mjög það lengdist og var ekki í réttri lögun.“ Simmi „Við ákváðum að fresta fermingarmyndatökunni, uns hárið hefði náð sér á strik á ný.“ Hér er hárið semsé komið aftur á sinn stað. Það er fermingarbörnum öllum stórmál að vera upp á sitt besta á ferming- ardaginn og flest gert til að líta sem glæsilegast út, bæði hvað varðar föt og hárgreiðslu. Slík viðleitni eldist vitaskuld misvel, fyr- ir utan að fermingardaginn ber jafnan upp á mótunar- árum okkar mannfólksins.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.