Bókasafnið


Bókasafnið - 01.09.2009, Blaðsíða 18

Bókasafnið - 01.09.2009, Blaðsíða 18
18 bókasafnið tillögur frá 36 löndum. Alþjóðleg dómnefnd mat tillögurnar. Hlutskarpast var merki Edgar Luy Péres, sem var nýútskrifaður kúbverskur grafískur hönnuður. Merkið sýnir opna bók og hringurinn fyrir ofan hana táknar hring þekkingar. Alþjóðlegt einkennismerki til eflingar upplýsingalæsi. Höfundur: Edgar Luy Pérez. Fram kom á ráðstefnunni að fyrirhugað er að opna vef til frekari kynningar á upplýsingalæsi með dæmum um verkefni í upplýsingalæsi sem vel hafa tekist. Merkið má skoða á vefnum www.infolitglobal.info/logo. Þá má nefna að árið 2001 var stofnað til norrræns samstarfs á sviði upplýsingalæsis - NordINFOLIT. Áhersla er lögð á sumar- skóla, námskeið og ráðstefnur (Creating Knowledge) um efnið. Í júní 2007 var sumarskólinn haldinn hér á landi. Í stýrihópi er fulltrúi frá öllum Norðurlöndunum og er Astrid Margrét Magnúsdóttir fulltrúi Íslands (NordINFOLIT, 2008). Að ofan hefur verið skýrt frá nokkrum helstu verkefnum á sviði upplýsingalæsis í alþjóðasamfélaginu og eins og sjá má fer þar fram öflugt starf. Gildi upplýsingalæsis Þróun samfélagsins í átt að upplýsinga- og þekkingarþjóð- félagi kallar á meiri færni einstaklinga hvað varðar tölvu- og upplýsingalæsi en þessir þættir tvinnast óhjákvæmilega saman. Því er sífellt aukin þörf á því að nemendur á öllum skólastigum fái kennslu og þjálfun í tölvunotkun og upplýsingalæsi til að verða sjálfbjarga í að þekkja og sinna upplýsingaþörf sinni í starfi, símenntun og tómstundum. Sérstaklega er færni í upplýsingalæsi mikilvæg þeim sem leggja stund á fjarnám. Einnig hafa rannsóknir sýnt að þjálfun í notkun upplýsinga þar sem lögð er áhersla á siðræna meðferð heimilda minnkar hættuna á ritstuldi (Catts og Lau, 2008, bls. 22). Jakubowicz (2008) formaður Information for all Programme UNESCO sagði í yfirlýsingu á árlegum Alþjóðlegum degi upp- lýsinga samfélagsins (World Information Society Day) 17. maí 2008 að aðgangur að upplýsingum sé grundvallaratriði á öllum sviðum mannlífsins – í námi, í starfi, vegna heilsu, til að bæta réttindi einstaklingsins og heildarinnar, vegna skemmtunar, við að þekkja söguna og til að viðhalda menningu og tungu sem og við virka þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Hann telur einnig að skjöl sem samþykkt voru á Leiðtogafundi um upplýsingaþjóðfélagið (World Summit on the Information Society 2003 og 2005) sýni skýr tengsl milli einstaklingsins og víðtækari samfélags-, menningar og efnahagslegra vídda hvað varðar aðgang að upplýsingum og notkun þeirra. Segja má að flestir þeir sem nú sækja skóla hér á landi hafi kynnst Netinu með móðurmjólkinni og kunni því nokkuð fyrir sér í að vafra á Netinu. Hins vegar er upplýsingatækniþekking þeirra og færni í að hagnýta sér kosti Netsins sem upplýsinga- miðils mjög mismunandi og margir nemendur þekkja ekki gjörla grunnhugmyndir upplýsingalæsis, það er að staðsetja, nálgast, meta, skipuleggja og nota upplýsingar á skilvirkan hátt. Samþætta þarf kennslu í upplýsingalæsi námskrá hvers skólastigs og leggja frekari áherslu á það í skólanámskrám einstakra skóla þannig að upplýsingalæsi tengist öllum kennslugreinum. Gildi upplýsingalæsis er ótvírætt fyrir félagslega, menn ing- ar lega og efnahagslega þróun samfélagsins og mikilvægt er að efla færni í upplýsingalæsi hvers einstaklings til að gera hann hæfari til að taka þátt í upplýsinga- og þekkingarþjóðfélagi samtímans. Staða upplýsingalæsis í heiminum Við skoðun á því sem skrifað hefur verið um upplýsingalæsi í gegnum tíðina kemur í ljós að fjallað hefur verið um það víða um heim. Bæði meðal ríkra þjóða og snauðra er viðurkennt að menntun í færni í upplýsingalæsi sé grundvallaratriði við að mennta vinnuafl sem er sveigjanlegt og tilbúið að afla sér símenntunar en það er í stöðugt ríkari mæli forsenda efnahagslegrar þróunar (Eisenberg, Lowe og Spitzer, 2004). Mörg lönd hafa tekið upplýsingalæsi markvisst upp í námskrár sínar og víða hafa verið settar fram aðgerðaáætlanir og sérfræðihópar fengnir til að vinna málinu brautargengi. Bandarísku bókasafnasamtökin ALA (American Library Associ ation) hafa þar verið í fararbroddi en þau stofnuðu nefnd um upplýsingalæsi árið 1987 sem í lokaskýrslu sinni útlistar mikilvægi upplýsingalæsis (Eisenberg, Lowe og Spitzer, 2004). Ætla má að Leiðtogafundur um upplýsingasamfélagið (World Summit on the Information Society – WSIS) sem haldinn var í Genf 2003 og Túnis 2005 hafi hleypt krafti í umræðuna um mikilvægi upplýsingalæsis. Árið 2006 gengust IFLA og UNESCO fyrir samantekt á stöðu upplýsingalæsis í heiminum: Information literacy: An international state-of-the art report (Lau, 2007). Þar kemur í ljós að það eru einkum Ástralía og Bandaríkin sem standa framarlega hvað þetta varðar en skilningur á mikilvægi upplýsingalæsis fer víða vaxandi eins og til dæmis í Bretlandi. Sérstakur kafli í skýrslunni er helgaður Norðurlöndunum en þar kemst Ísland ekki á blað. Samkvæmt skýrslunni virðist Finnland þar vera fremst í flokki. Rétt er að nefna hér UT-vefinn (2008) sem forsætis ráðu- neytið heldur úti en þar er ýmsan fróðleik að finna um upp- lýsingatækni og tengd málefni. Stefna Ríkisstjórnar Íslands í upplýsingamálum Allt frá árinu 1996 hafa ríkisstjórnir hér á landi sett fram framsækna og metnaðarfulla stefnu í upplýsingamálum. Eins og fram kemur í greinum þeirra Huldu Bjarkar Þorkelsdóttur og Þórdísar T. Þórarinsdóttur (1998) var bókasöfnum og starfsemi þeirra gert hátt undir höfði og þeim réttilega ætlað mikið

x

Bókasafnið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.