Bókasafnið - 01.09.2009, Blaðsíða 27
27
bókasafnið
öll mismunandi áherslur þó þau starfi á sama fræðasviði.
Eitt þeirra styður háskólamenntun, annað miðar þjónustu
við framhaldsskólanema og námskeiðsfólk á öllum aldri og
það þriðja starfar samkvæmt lögum með það að markmiði
að vera rannsóknarbókasafn fyrir íslenska myndlist. Öll
þessi söfn skrá nú safnkost sinn í Gegni, samskrá íslenskra
bókasafna og notfæra sér landsaðgang að gagnasöfnum.
Það er reyndar viðtekin skoðun meðal starfsmanna að
landsaðgangurinn komi listbókasöfnum að takmörkuðum
notum því þar vanti sérhæfð gagnasöfn á sviði lista, að
frátöldu Grove alfræðisafninu. Háskólasafnið er eina safnið
sem hefur bolmagn til þess að kaupa sérhæfð gagnasöfn á
sviði myndlistar og hönnunar, en eins og Collins (2003) bendir
á er það ekkert einsdæmi að slíkt sé helst á færi listbókasafna
innan háskóla.
Viðskiptavinir safnanna eru listfræðingar, starfandi
listamenn, nemendur og listáhugafólk. Þeir eiga það
sameiginlegt að leggja mikla áherslu á myndrænar heimildir
og hafa oft á tíðum síður áhuga á rafrænu efni eins og
rafrænum tímaritum. Það sem skilur notendur listbókasafna frá
notendum annarra safna er einmitt sú sérstaða að rannsóknir í
listum eru rannsóknir á myndefni (Freitag, 1982; Lucker, 2003).
Rannsókn sem gerð var á bókasafnsnotkun myndlistarnema í
Minnesota leiddi t.d. í ljós að listnemendur notuðu bókasöfn
mikið til að leita hugmynda og útlit og sjónræn upplifun
skipti þá verulegu máli (Frank, 1999). Notendum er því afar
mikilvægt að fá tækifæri til að skoða og fletta án þess að leita
að einhverju ákveðnu heldur til að auðga hugarflugið og taka
þá oft prentuð gögn fram yfir rafræn. Rafræn tímarit koma því
ekki í stað prentaðra enn sem komið er, heldur eru viðbót við
safnkostinn.
Stofnanamenning eða staðblær er einnig mikilvægur
þáttur þegar kemur að stefnumótun og er einkum talin skipta
máli varðandi stefnur með sjálfsprottna nálgun (Mintzberg
o.fl., 1998).
Stofnanamenning getur verið margslungin og flókin.
Með hliðsjón af kenningum Cameron og Quinns (1999) má
greina menningu listbókasafna með því að líta á sérkenni
stofnunar, stjórnunarfyrirkomulag og hvað það er sem
einkennir hópinn eða færir honum samkennd. Einnig má taka
mið af starfsvenjum, því eins og van den Berg og Wilderom
(2004) benda á, skipta þær ekki síður máli. Þá telur Schneider
(1987) að menning geti dregið dám af því að ákveðin tegund
starfsfólks veljist á tiltekna vinnustaði.
Menning listbókasafns dregur dám af því tungumáli sem
tíðkast innan bókasafnsfræðinnar og því sem einkennir
fræða- og starfssvið viðskiptavina. Starfsemin byggist á þeirri
bókasafnsmenningu sem leggur áherslu á ákveðin gildi
eins og góða þjónustu og að viðhafa nákvæm vinnubrögð.
Listbókasöfn þurfa einnig að samsama sig þeim gildum
sem móðurstofnun stendur fyrir og geta átt við starfsemi
listastofnana, skapandi hugsun og listrænt frelsi. Á söfnunum
má merkja ákveðinn anda sem tengist því að starfsmenn
stofnananna hafa svipaðan bakgrunn og birtist m.a. í
frumkvæði og einingu.
Jafningjalýðræði með samráð að leiðarljósi einkennir
starfsandann innan listbókasafna. Samstarf milli safnanna,
innan þeirra og við sérfræðinga skiptir miklu máli. Allir
starfsmennirnir sem rætt var við upplifa sjálfstæði í
vinnubrögðum og sveigjanleika, telja starfsandann góðan
og lýsa umhverfinu sem bæði lifandi og skemmtilegu.
Áhersla á samvinnu, samráð og sveigjanleika bendir til
að það sem Cameron og Quinn (1999) kalla heimilislega
menningu (e. clan oriented) sé einkennandi fyrir söfnin.
Þessar niðurstöður eru í samræmi við rannsókn sem gerð
var á nokkrum tegundum bókasafna samkvæmt líkani
Camerons og Quinns og leiddi í ljós að sveigjanleiki er yfirleitt
einkennandi fyrir lítil háskóla- og stofnanabókasöfn (Kaarst-
Brown, Nicholson, von Dran og Stanton, 2004). Þar segir að
traust og opin samskipti séu mikilvæg meðal starfsmanna.
Flest lítil bókasöfn veiti starfsmönnum sínum mikið svigrúm
og treysti þar með á þekkingu og álit þeirra við úrlausn
verkefna. Þessum bókasöfnum henti best fljótandi skipulag
(e. adhocracy) eða heimilislegt, þar sem fljótandi skipulag
einkennist af frumkvöðlahugmyndum, áhættu og nýsköpun
og heimilislegt af gagnkvæmri ráðgjöf, þjálfun og þátttöku.
Berrio (2003) kemst að þeirri niðurstöðu að til að verða skilvirk
og árangursrík lærdómsstofnun3 þurfi stofnun að þróa
menningu meira í átt að heimilislegu skipulagi. Þau gildi sem
heimilisleg menning byggir á styðji betur nýjungar og áhættu
í umhverfi sem annars er nokkuð stöðugt. Kaarst-Brown og
félagar (2004) telja þetta ýta undir þá hugmynd að bókasöfn
þurfi ekki endilega að vera markaðsmiðuð til að mæta kröfum
samtímans. Heimilisleg menning nægi.
Samanburður
Það er ekki ætlun mín að greina hér nákvæmlega frá því
hvernig niðurstöður rannsóknarinnar samrýmast sérhæfðum
stefnum og kenningaskólum Mintzbergs og félaga (Mintzberg
o.fl., 1998; Mintzberg og Waters, 1985). Í stuttu máli er þó rétt
að benda á að stefnur listbókasafna og menningarstefna
stjórnvalda eiga sér einkum hliðstæður í því sem þeir
félagar kalla regnhlífarstefnu (e. umbrella strategy) þar sem
yfirstjórn leggur línurnar, ferlistefnu (e. process strategy)
sem gerir ráð fyrir að margir geti haft áhrif á stefnumótun
og samkomulagsstefnu (e. consensus strategy) sem byggir á
samráði.
Stefna stjórnvalda í menningarmálum gerir ráð fyrir
valddreifingu til stofnana í anda reglu hæfilegrar fjarlægðar.
Fagaðilum hefur verið tryggð aðkoma í stjórnun allra þeirra
listastofnana sem fyrrnefnd bókasöfn tilheyra og sjálfræði
starfsmanna safnanna bendir til að starfsemi þeirra sé einnig
í þeim anda.
Með lærdómsstofnun er átt við stofnun sem setur lærdóm í forgang.3.