Bókasafnið


Bókasafnið - 01.09.2009, Blaðsíða 7

Bókasafnið - 01.09.2009, Blaðsíða 7
Undanfarin ár hefur sú þróun átt sér stað, bæði á Íslandi og erlendis, að formleg menntun hefur almennt hlotið meira vægi. Er þá litið til þess að háskólamenntun, einkum framhaldsmenntun á háskólastigi, þykir stöðugt vera mikilvægari og eftirsóknarverðari. Ætlunin er að gera hér örstutt grein fyrir stefnu Háskóla Íslands um uppbyggingu doktorsnáms og fjalla einnig um samstarf um doktorsnám í bókasafns- og upplýsingafræði á Norðurlöndunum og í Baltnesku ríkjunum. Stefna Háskóla Íslands um uppbyggingu doktorsnáms Háskóli Íslands hefur einsett sér að vera leiðandi afl í uppbyggingu íslensks þekkingarsamfélags og hefur jafnframt sett sér það langtímamarkmið að skipa sér í röð bestu háskóla í heimi. Það markmið getur ekki náðst nema með því að efla mjög rannsóknarstarf við skólann og auka einnig mjög samstarf við erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Meðal þeirra leiða sem skilgreindar hafa verið til að ná þessu markmiði er að efla doktorsnám stórlega við skólann. Skólinn hefur sett fram stefnu fyrir tímabilið 2006 til 2011 þar sem ætlunin er að auka verulega fjölda brautskráðra doktora og er stefnt að því að fjöldi þeirra verði að minnsta kosti 65 árið 2011 (Háskóli Íslands, 2006). Með því að stuðla að uppbyggingu doktorsnáms lítur Háskólinn svo á að sé hægt að styrkja stöðu skólans sem alþjóðlega viðurkennds rannsóknaháskóla og honum jafnframt gert það kleift að gegna hlutverki sínu sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar. Doktorsnemum hefur farið mjög fjölgandi við Háskólann á undanförnum árum; árið 1999 voru þeir 36 talsins en voru orðnir 318 í upphafi árs 2009. Á félagsvísindasviði eru alls 86 doktorsnemar (Háskóli Íslands, 2009). Í stefnu skólans er lögð rík áhersla á að gæði doktorsnámsins sé sambærilegt við það sem gerð er krafa um við virta erlenda háskóla. Jafnframt kemur krafa um alþjóðlegt samstarf víða fram í stefnunni (Háskóli Íslands, 2006). Undanfarin ár hafa íslenskir bókasafns- og upplýsinga- fræðingar verið ötulir við að bæta við sig meistaranámi og hafa þar með eflt menntunarstig stéttarinnar. Samkvæmt Skrá um doktorsritgerðir Íslendinga sem unnin er af starfsfólki Landsbókasafns Íslands–Háskólabókasafns (2009) hafa fjórir Íslendingar jafnframt lokið doktorsprófi í greininni. Nágrannaþjóðirnar eru hins vegar komnar skrefi á undan en þar fer bókasafns- og upplýsingafræðingum með doktorsgráðu mjög fjölgandi. Sömu þróun má sjá hjá öðrum háskólagreinum á Íslandi þar sem doktorsnám hefur verið að eflast mikið. Það er því nauðsynlegt fyrir íslenska bókasafns- og upplýsingafræðinga sem stétt að stefna að því að lyfta menntunarstiginu hér á landi enn frekar. Það skiptir máli að íslenskir bókasafns- og upplýsingafræðingar standi jafnfætis kollegum sínum erlendis og það skiptir ekki síður máli að þeir verði ekki eftirbátar annarra stétta með háskólamenntun á Íslandi. NORSLIS - Samstarf um doktorsnám í bókasafns- og upplýsingafræði Samstarf um doktorsnám í bókasafns- og upplýsingafræði milli skóla og háskóladeilda á Norðurlöndunum hefur verið í gangi frá því árið 1998. Samstarfið hófst fyrst með samstarfsneti sem kallaðist NordIS-Net (Nordic Information Studies Research Education NETwork) og var styrkt til fimm ára af Norfa (1998-2002) en samstarfsaðilar í því voru 11 háskólar og háskóladeildir á Norðurlöndunum. Árið 2004 tók NORSLIS (Nordic Research Scool in Library and Information Science) við sem samstarfsnet um doktorsnám og fékk þá til þess styrk frá NordForsk til fimm ára (2004- 2008). Þá bættust háskóladeildir í Baltnesku ríkjunum einnig við í samstarfsnetið þannig að alls stóðu 14 háskólar og háskóladeildir að náminu (Lepik, 2005). Samstarf um doktorsnám milli þessarra þjóða byggir því á 11 ára grunni 7 NORSLIS - Samstarf um doktorsnám í bókasafns- og upplýsingafræði á Norðurlöndunum og í Baltnesku ríkjunum Dr. Ágústa Pálsdóttir, dósent í bókasafns- og upplýsingafræði, félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands

x

Bókasafnið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.