Bókasafnið - 01.06.2011, Side 4
4
Þótt undarlegt megi virðast glíma margir við mikla erfiðleika
í sambandi við skrif, erfiðleika sem ekki há fólki í mæltu máli.
Þetta geta verið einföld praktísk atriði um skráningu heimilda,
vandi við málfar, stafsetningu eða málnotkun, skipulag fram-
setningar í smáu eða stóru, hugmynda og hugsana, en alvar-
legustu erfiðleikarnir tengjast sjálfu ritferlinu, því að skrifa. Skrif
virðast geta valdið sálarkvölum og kvíða sem meðal annars
birtist sem ritstífla frammi fyrir auðri síðu eða tómum skjá. Þessi
einkenni ættu að vera lesendum að góðu kunn, því flestir lenda
í svipuðum sporum einhvern tíma á lífsleiðinni.
Stúdentum í meistaranámi við Háskóla Íslands hefur fjölgað
gríðarlega á síðari árum. Gerðar eru kröfur um töluvert umfangs-
mikið skriflegt lokaverkefni til meistaraprófs og fyrir marga
er það fyrsta verkefnið á lífsleiðinni þar sem reynir á að geta
skrifað texta samkvæmt þeim kröfum sem fræðasamfélagið
gerir. Þótt skólaganga flestra sé vörðuð mörgum ritunarverk-
efnum, til dæmis allveglegu bakkalárverkefni (algengast er 10e
verkefni á Menntavísindasviði), er eins og stúdentar hafi getað
komist í gegnum þau án þess kunna sérstaklega mikið til verka.
Meistaraverkefnið er umtalsvert stærra (yfirleitt 30e eða meira),
kröfur um framsetningu eru farnar að nálgast það sem gerist í
lífinu sjálfu, návígið við leiðsögukennarann er meira og stúd-
entar þurfa að gera grein fyrir efni sínu frammi fyrir stærri hópi.
Fyrir vikið verður gagnrýni óvægnari og umsagnir nákvæmari.
Stúdentar, sem vanir er hinu verndaða umhverfi skólans, verða
eðlilega fyrir áfalli, taka gagnrýnina nærri sér og fyllast óöryggi
og kvíða. „Af hverju var manni ekki sagt þetta fyrr?“ spyr unga
fólkið réttilega. Og þá verður kennurum ljóst hvað stúdentar
þurfa raunverulega mikla aðstoð og stuðning við skrifin.
Af hverju ekki fyrr? Þetta er lykilspurning, og flestir virðast sam-
mála um að við þurfum að leggja meiri rækt við að kenna ungu
fólki að skrifa á faglegan og fræðilegan hátt um viðfangsefni sín
allt frá fyrsta ári í háskóla. Leiðsögn um skrifin sjálf er hins vegar
utan hins eiginlega hlutverks kennara í stóru námskeiði vegna
þess að skrif eru sérstakt viðfangsefni, óháð því sem um er skrifað
hverju sinni, og til að leiðbeina um skrif þarf að ræða við hvern
og einn.
Stofnun ritvers á Menntavísindasviði
Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands var í nóvember 2009 sett á
laggirnar ritver, miðstöð þekkingar og fræðslu um fræðileg skrif á
sviðinu. Hlutverk þess er meðal annars að leiðbeina stúdentum
um skrifleg verkefni, stuðla að því að stúdentar skrifi meira og
betur um viðfangsefni sín í náminu og vera kennurum innan
handar um hvers kyns hjálpargögn um fyrirlögn skriflegra verk-
efna, yfirferð og mat. Höfundur þessarar greinar var ráðinn for-
stöðumaður og eini starfsmaður í fjórðungsstarf gegn helmings-
afslætti á kennsluskyldu. Með forstöðumanni starfar sex manna
stjórn.
Ritverinu var valinn staður á bókasafninu. Innarlega á safninu
var komið fyrir skrifborði með tölvu og síma og svæðið merkt
með skilti: Ritver. Aðra aðstöðu þurfti ekki.
Bókasafn Menntavísindasviðs er rúmgott. Bókaskápar standa
í röðum og afmarka misstór svæði þar sem komið er fyrir vinnu-
borðum og stólum. Í hornum er gert ráð fyrir borðum til lestrar í
„einrúmi“, en flestum húsgögnum er þannig fyrir komið að nem-
endur geti unnið saman að lausn verkefna sinna, og í samræmi
við það er heimilt að tala saman í safninu. Staðsetning ritvers á
bókasafninu var engin tilviljun.
Ritver við háskóla eiga sér hartnær hálfrar aldar sögu (Ask,
2007; Elmborg og Hook, 2005). Á sjöunda áratug liðinnar aldar
sáu fyrstu ritverin dagsins ljós við bandaríska háskóla (writing
labs, síðar writing centers), sprottin af sama vanda og lýst var í inn-
gangi, stúdentar þurftu meiri aðstoð við að skrifa en unnt var að
veita innan þess ramma sem hefðbundin kennsla setti. Svo virtist
sem skilvirk kennsla og aðstoð við ritun væri annars eðlis en hefð-
bundin kennsla í hópi. Rannsóknir Sofiu Ask á því hvernig stúd-
entar ná tökum á að skrifa fræðilegan texta benda til að hið eigin-
lega nám í skrifum fari aðallega fram í samskiptum við kennara og
aðra stúdenta þegar höfundar fást við eigin verkefni (Ask, 2007).
Ritver og bókasafn – ást við fyrstu sýn?
Baldur Sigurðsson