Bókasafnið - 01.05.2013, Page 43

Bókasafnið - 01.05.2013, Page 43
43 bókasafnið 37. árg. 2013 sem valið var (Jóhanna Gunnlaugsdóttir, 2004, 2007). Gerð og innleiðing nýs skjalaflokkunarkerfis er síðan bæði flókið og tímafrekt verkefni. Margar skipulagsheildir hafa ekki náð fram þeirri hagræðingu sem þær stefndu að með rafrænni skjala- stjórn vegna þess að ekki var lögð nægileg áhersla á þróun skjalaflokkunarkerfisins (Cisco og Jackson, 2005). En hversu mikil áhrif hafa aðrar breytur en innleiðingin sjálf á viðhorf starfsfólks gagnvart RSSK? Og þegar starfsfólk notar ekki hið rafræna skjalastjórnarkerfi skipulagsheildarinnar er forvitnilegt að velta því fyrir sér hvar og hvernig það geymir skjölin sín og hvaða hugsun liggur þar að baki. Þessar vanga- veltur urðu kveikjan að rannsókn þeirri sem er uppistaðan í MLIS-ritgerðinni sem þessi grein byggist á og ber heitið „Mað- ur þarf að sjá tilganginn“: Viðhorf og þarfir ríkisstarfsmanna gagnvart skjalamálum (Jónella Sigurjónsdóttir, 2010). Markmið og aðferðir Rannsóknin var framkvæmd í tvennu lagi. Annars vegar var aðferðum megindlegra rannsókna beitt og voru þrjár ríkis- stofnanir sem nota sama RSSK valdar í úrtak. Stofnanirnar þrjár, sem hlutu auðkennin A, B og C, höfðu ólík verkefni með höndum. Engin þeirra heyrði undir sama ráðuneytið og voru þátttakendur innan hverrar stofnunar á bilinu 25 til 54. Megindlega rannsóknin var unnin í samvinnu við annan MLIS nemanda, Þórarin Björnsson, sem nú starfar sem dómritari hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Hins vegar voru aðferðir eigindlegra rannsókna nýttar til þess að kafa dýpra ofan í efnið hjá einni af þessum þremur stofnunum, stofnun B. Eigindlega rannsóknin sem fram- kvæmd var í stofnun B var tilviksathugun sem fól í sér viðtöl, þátttökuathugun og greiningu fyrirliggjandi gagna. Rannsóknartilgátur megindlegu rannsóknarinnar voru tvær. Í fyrsta lagi: Innleiðingarferli á RSSK hefur áhrif á við- horf starfsfólks gagnvart þeim. Í öðru lagi: Aðrar breytur, svo sem aldur, kyn og starfsaldur, hafa áhrif á viðhorf starfsfólks gagnvart RSSK. Niðurstöður megindlegu rannsóknarinnar eru ræddar í næsta kafla. Rannsóknarspurningar eigindlegu rannsóknarinnar snerust um þrjú atriði og var hið fyrsta náskylt rannsóknartilgátunum. Í fyrsta lagi: Hvað hafi helst áhrif á viðhorf starfsfólks gagnvart RSSK og skjalamálum stofnunarinnar. Í öðru lagi: Hvaða eigin- leikar skjalaflokkunarkerfis gætu virkað hamlandi eða hvetj- andi á skjalavistunarferli almennra starfsmanna. Í þriðja lagi: Hvort munur væri annars vegar á þörfum og/eða markmiðum starfsfólks þegar það flokkaði og héldi utan um skjöl sín og hins vegar á markmiðum með hinni opinberu skjalastjórn stofnunarinnar. Með því að öðlast skilning á þessum atriðum væri mögu- lega hægt að bæta rafræna skjalastjórn stofnunar B auk þess að gera skjalaflokkunarkerfi stofnunarinnar aðgengilegra og nýtilegra hinu almenna starfsfólki við vistun gagna í RSSK. Haustið 2008 var spurningalisti með 42 spurningum lagður fyrir 114 starfsmenn stofnana A, B og C. Fyrstu sjö spurning- arnar voru lýðfræðilegs eðlis þar sem spurt var um kyn, aldur, starfsaldur, menntun og fleira. Í spurningum átta til 26 var spurt um ýmislegt sem tengist innleiðingu og notkun raf- rænnar skjalastjórnar. Í spurningum 27-40 var fólk beðið um að taka afstöðu til 14 mismunandi fullyrðinga sem lýstu ýmist jákvæðri eða neikvæðri reynslu af RSSK. Tvær síðustu spurn- ingarnar voru opnar og gátu þátttakendur nefnt þá þætti sem helst hindruðu þá eða gögnuðust þeim við notkun á RSSK. Svarhlutfall var 84,2%. Veturinn 2009-2010 voru tekin átta opin, hálfstöðluð viðtöl við starfsfólk í stofnun B og ein þátt- tökuathugun framkvæmd á fundi yfirstjórnar. Stofnun B er rótgróin ríkisstofnun. Þar hófst skjalaflokkun samkvæmt skjalaflokkunarkerfi árið 1973, RSSK var innleitt árið 2001 ásamt nýju flokkunarkerfi og árið 2010 var þriðja flokkunarkerfið innleitt. Þess ber að geta að höfundur var starfsmaður í stofnun B þegar rannsóknin fór fram. Slík tengsl geta haft takmarkandi áhrif á eigindlegu rannsóknina. Ákveð- in sérþekking rannsakanda á skjalamálum stofnunarinnar getur þó styrkt rannsóknina, svo og sú staðreynd að fjölþættri nálgun var beitt. Þannig geta þær aðferðir sem notaðar eru bætt hvora aðra upp og aukið áreiðanleika rannsóknarinnar (Huberman og Miles, 1998). Niðurstöður megindlegu rannsóknarinnar Í ljós kom að fræðsla hafði marktæk áhrif á viðhorf starfsfólks til RSSK, einkum persónuleg leiðsögn sem hafði bæði áhrif á tileinkun og viðhorf. Með aukinni persónulegri leiðsögn var starfsfólkið fljótara að læra á RSSK, það átti auðveldara með að vinna í kerfinu, upplifun fólks af kerfinu varð jákvæðari og það varð jákvæðara gagnvart rafrænni skjalastjórn almennt. Skilningur og stuðningur æðstu yfirmanna virtist líka hafa áhrif. Í stofnun A mátu starfsmenn hennar skilning æðstu stjórnenda á gildi RSSK mun minni en í hinum tveimur stofnununum. Þegar svör við opnu spurningunum voru skoðuð kom í ljós að að starfsmenn stofnunar A voru þeir einu sem nefndu að áhugaleysi æðstu stjórnenda hindraði þá í notkun RSSK. Þegar aðrar breytur voru skoðaðar kom fátt markvert í ljós. Kyn starfsmanna virtist engu máli skipta og heldur ekki menntun. Helst virtist aldur skipta máli, eftir því sem starfs- menn voru eldri virtust þeir hafa fengið meiri hópfræðslu, þeim fannst RSSK frekar íþyngjandi en yngri starfsmönnum og eins þótti þeim notkun kerfisins síður fela í sér vinnuhag- ræðingu. Aldur virtist þó ekki hafa úrslitaáhrif enda var meðal- aldur hæstur í þeirri stofnun þar sem viðhorfið gagnvart skjalastjórn greindist jákvæðast. Fyrri rannsóknartilgátan um að innleiðingarferli á RSSK hafi áhrif á viðhorf starfsfólks var því studd. Aftur á móti var síðari tilgátan um að aðrar breytur, svo sem aldur, kyn og starfsaldur hafi áhrif á viðhorf starfsfólks gagnvart RSSK ekki studd. Helstu niðurstöður eigindlegu rannsóknarinnar Þegar gögn eigindlegu rannsóknarinnar voru skoðuð komu fjögur þemu í ljós. Hér á eftir verður greint frá þessum þemum sem eru: Eigin flokkunarkerfi notenda, öryggisleysi notenda, viðhorf gagnvart skjalamálum og áhrif stjórnunar.

x

Bókasafnið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.