Dagblaðið Vísir - DV - 04.09.2009, Síða 19

Dagblaðið Vísir - DV - 04.09.2009, Síða 19
fréttir 4. september 2009 föstudagur 19 Óhætt er að fullyrða að fáir íslenskir knattspyrnumenn hafi náð eins langt í greininni og Eiður Smári Guðjohn- sen sem seldur var frá spænska stór- liðinu Barcelona til franska liðsins AS Monaco í vikunni. Eiður Smári varð fyrr á árinu fyrsti Íslendingur- inn til að vera í sigurliði í Meistara- deild Evrópu. Þó svo að hlutverk hans í Barcelona-liðinu hafi alls ekki verið stórt á síðustu leiktíð var hann yfirleitt í hópnum hjá liðinu og leysti þá Andrés Iniesta og Xavi af hólmi á miðjunni þegar þurfa þótti, með- al annars síðustu mínúturnar í úr- slitaleik Meistaradeildarinnar gegn Manchester United. Eiður átti því þátt í mikilli velgengni liðsins á tíma- bilinu þó hann hafi ekki verið lykil- maður í því. En þó að Eiður hafi náð þessum merka áfanga fyrstur Íslendinga er ekki hægt að segja að hann hafi náð hápunkti ferils síns hjá spænska lið- inu. Stjarna Eiðs skein líklega skær- ast hjá Lundúnaliðinu Chelsea á ár- unum 2000 til 2006 þar sem hann skoraði 54 mörk í 182 leikjum, eða nærri eitt mark í þriðja hverjum leik. Bestum árangri náði Eiður á tímabil- inu 2001-2002 þegar hann skoraði 23 mörk og myndaði hann þá eitrað framherjapar með Hollendingnum Jimmy Floyd Hasselbaink sem setti 27 mörk á tímabilinu. Farið er að síga á seinni hlutann á ferli Eiðs, sem verður 31 árs síð- ar í mánuðinum, en telja má líklegt að hann gegni stærra hlutverki hjá Monaco en hjá Barcelona þar sem hlutverk hans varð alltaf minna og minna þau þrjú tímabil sem hann lék með spænska liðinu. Félagaskipti hans ættu því að geta hjálpað Eiði að ganga í endurnýjun lífdaga sem knattspyrnumaður eftir árin þrjú hjá Barcelona sem hljóta þrátt fyrir allt að hafa valdið honum nokkrum von- brigðum þar sem oft er talað um að knattspyrnumenn eigi að vera á há- tindi ferils síns á aldrinum 26 til 30 ára. Ferill Eiðs sem knattspyrnumanns er langt frá því að hafa verið ein sam- felld sigurganga. Eiður þurfti að sigr- ast á miklu mótlæti á fyrri hluta ferils síns áður en hann fann sig fyrst fyrir alvöru hjá enska félaginu Bolton í lok síðasta áratugar og byrjaði að sýna þá takta á vellinum sem flestir kannast við í dag. Knattspyrnumaðurinn hef- ur einnig þurft að glíma við það að vera á milli tannanna á fólki á Íslandi nánast frá því hann var polli því fað- ir hans, Arnór Guðjohnsen, var einn- ig þjóðþekktur knattspyrnumaður á sínum tíma. Þetta umtal hefur svo aukist á síðustu tíu árum eftir að Eiði byrjaði að ganga vel á knattspyrnu- vellinum og hefur það einkum snú- ist um að hann sé helst til sérhlífinn í fótboltanum en einnig um einkalíf hans þar sem mörgum hefur fundist sem honum þyki hið ljúfa líf kannski helst til skemmtilegt. Þurfti karakter til að rífa sig upp Arnar Gunnlaugsson knattspyrnu- maður er góður félagi Eiðs og léku þeir saman í Bolton um tíma. Þeg- ar hann lítur yfir kynni sín af Eiði er honum minnisstæðast hvernig Eiður náði að rífa sig upp úr meiðslum sem hann varð fyrir í leik með U-18 ára landsliði Íslands gegn Írum, tveim- ur árum áður en hann fór til Bolton. Eftir að hafa spilað nokkra leiki með KR sumarið 1998, þar sem það vakti mikla athygli íslenskra knattspyrnu- áhugamanna hvað Eiður var í lé- legu formi, samdi Bolton við hann. „Ég hafði ekkert séð hann spila eftir að hann meiddist fyrr en hann kom í æfingaferð með Bolton til Írlands nokkrum kílóum of þungur. Ég man að Colin Todd, knattspyrnustjóri Bolton, var búinn að spyrja okkur mikið um hann. Þrátt fyrir aukakíló- in var alveg ljóst hvað hann hafði mikla hæfileika og það tók Bolton ekki langan tíma að gera við hann samning. Svo var hann fljótlega orð- inn einn af lykilmönnunum í Bolt- on,“ segir Arnar. Hann segir að Eiður hafi sýnt mik- inn karakter þegar hann reif sig upp úr meiðslunum og kom ferli sínum á rétta braut. „Þegar menn lenda í svona alvarlegum meiðslum geta þeir annaðhvort bugast og gefist upp eða tvíeflst við mótlætið og ákveðið að vinna sig út úr þeim. Hann er svo ekki bara karakter heldur hefur hann alveg óbilandi trú á eigin hæfileik- um,“ segir Arnar sem telur að afrek Eiðs á fótboltavellinum verði seint endurtekin af öðrum hér á landi. Knattspyrnumaðurinn Guðni Bergsson, sem lék með Eiði hjá Bolt- on og studdi við bakið á honum meðan hann var að koma ferli sín- um á réttan kjöl eftir meiðslin, segir að það sem fyrst og fremst einkenni Eið séu einstakir hæfileikar hans sem fótboltamanns. „Þetta er það sem líf hans hefur að mestu snúist um. Hann er afar mótaður af lífi atvinnu- mannsins í fótbolta, bæði í gegn- um föður sinn og svo eins í gegnum þennan glæsta feril sem hann hefur átt sjálfur,“ segir Guðni. Vel liðinn af flestum Arnar segir að eftir því sem hann best viti sé Eiður mjög vel liðinn af flestum þeim félögum sem hann hafi spilað hjá, en tekur þó fram að vissulega sé erfitt að fullyrða um það. Sjónvarpsmaðurinn Auðunn Blön- dal, vinur Eiðs, tekur undir þetta og segir: „Maður sér það í öllum liðum sem hann er í, hvort sem það er Bar- celona eða Chelsea, að hann er allt- af með vinsælli leikmönnunum og vel liðinn enda var hann varafyrirliði hjá Chelsea þegar liðið vann fyrsta meistaratitilinn sinn. Ég hef tekið eft- ir þessu þegar ég hef heimsótt hann að liðsfélagar hans eru yfirleitt mjög ánægðir með hann sem liðsfélaga og hann er hrókur alls fagnaðar,“ segir Auðunn. Guðni segir að Eiður hafi verið fljótur að aðlagast leikmannahópn- um hjá Bolton og að honum hafi lynt vel við sína félaga. „Hann var vel liðinn þarna mjög snemma,“ segir Guðni. Lokaður í margmenni Auðunn segir jafnframt að Eiður sé mikill húmoristi og grallari sem sprelli mikið og sé skemmtilegur í góðra vina hópi. Hann eigi aftur á móti erfiðara með að slaka á í kring- um fólk sem hann þekkir ekki vel og eigi erfitt með að tala við það og sýni því ekki sitt rétta andlit í marg- menni. Auðunn skýrir þetta sem svo að Eiður geti verið nokkuð feiminn og skrýtinn hvað þetta varðar og sé lengi að opna sig. Guðni segir að Eiður sé tilfinninga- rík manneskja sem vilji hafa gaman af hlutunum og hafa líf og fjör í kring- um sig og að hann sé mikill húmor- isti. Hann tekur hins vegar undir orð Auðuns um að Eiður virðist oft vera lokaður í augum þeirra sem þekkja hann ekki. „Með tíð og tíma, í þess- ari stöðu sem hann er í og þetta fræg- ur, þá setja menn upp ákveðna vörn þannig að hann kannski hleypir ekki öllum að sér. Hann hefur kannski enga þörf á því heldur... Annars er yf- irleitt mikið fjör í kringum hann og það hefur verið gaman að kynnast honum,“ segir Guðni. Reikningurinn næstum mánaðarlaun Auðuns Auðunn segir að Eiður sé gjarn á að stríða vinum svolítið á góðum stund- um. Þannig segir hann að hann og Eiður hafi eitt sinn farið saman út að borða á gamla Apótekinu. Hann seg- ist hafa ákveðið að bjóða Eiði í mat svona til tilbreytingar því Eiður borgi nú yfirleitt reikninginn þegar þeir fari saman í mat. Auðunn segir að þeir félagarnir hafi borðað þríréttað þetta kvöld og að Eiður hafi séð um að panta rauð- vínið. Svo þegar reikningurinn kom hafi hann slagað hátt upp í mánað- arlaun Auðuns. „Ég fékk næstum því taugaáfall þegar ég sá reikninginn og bað um að fá að tala við þjóninn til að spyrja hann hvaða rugl þetta væri nú eiginlega því við værum nú bara tveir. Þá var Eiður búinn að velja hel- víti dýrt rauðvín til að hrekkja mig aðeins. En hann endaði nú svo á því að borga rauðvínið sjálfur,“ segir Auðunn. Víti Eiðs Eitt af því sem hefur loðað við Eið og verið honum til hnjóðs er áhugi hans á fjárhættuspilum. Eiður við- urkenndi í viðtali við breska blaðið The People árið 2003 að hann hefði eytt helst til miklu í fjárhættuspil í gegnum tíðina og að hann ætlaði sér að hætta því. Þá var Eiður leikmað- ur Chelsea og hafði blaðið greint frá því að hann hefði eytt 400 þúsund pundum, eða rúmum 50 milljónum króna á þáverandi gengi, í fjárhættu- spil síðustu fimm mánuðina þar á undan. Eiður hafði átt við meiðsli að stríða og sagði blaðinu að honum hefði leiðst og spilað fjárhættuspil til þess að drepa tímann. „Ég byrjaði á þessu aðallega af því mér leiddist og ég vildi drepa tímann. Svo kom að því að ég var búinn að skuldsetja mig út af þessu,“ sagði hann í viðtalinu. Eiður virðist því hafa sótt í spila- vítin þegar honum leið illa og hann lenti í mótbyr. Þannig segir sagan að Eiður hafi eitt sinn farið í spilavíti í London eftir að hafa farið á veit- ingastað þar í borg með fleira fólki. Nokkrir af þeim Íslendingum sem léku á Englandi á þeim tíma höfðu hist á veitingastaðnum ásamt eig- inkonum sínum. Á veitingastaðn- um voru Hermann Hreiðarsson, Ívar Ingimarsson, Brynjar Björn Gunn- arsson og Heiðar Helguson. Þegar leið á kvöldið lenti Eiður í orðaskaki við einn borðfélaga sinna og struns- aði út af veitingastaðnum og inn í næsta spilavíti þar sem hann mun hafa tapað nokkru fé. Eftir því sem næst verður komist hefur Eiður hins vegar náð tökum á þessum veikleika sínum enda sagði hann í viðtalinu við breska blaðið The People að hann vildi ekki vera háður fjárhættuspilum. „Ég hef áttað mig á því hversu hættuleg fjárhættuspil geta verið... Ég get vel skilið hvernig ungt fólk getur orðið háð fjárhættu- spilum og ég skal glaður vera öðrum víti til varnaðar um að ánetjast þeim ekki,“ sagði hann í viðtalinu og var ljóst að leikmaðurinn vildi vinna bug á þessu vandamáli. Ýmsir hafa hins vegar orðið til þess í vikunni að rifja um glímu Eiðs við spilafíknina eftir að fréttist af því að hann væri á leið til Mónakó; borg- ríkið er þekkt fyrir spilavíti sín og flykkjast margir ferðamenn þangað á hverju ári til þess að freista gæfunn- ar. Auðunn og Arnar segjast hins veg- ar ekki kannast við að Eiður stundi fjárhættuspil um þessar mundir. Latur eins og flestir fótbolta- menn Arnar Gunnlaugsson segir aðspurð- ur hlæjandi að helsti galli Eiðs sé kannski hvað hann sé húðlatur. „Ég kynntist aðeins hans helstu göllum þegar ég var úti í Bolton því við vor- um mikið saman þarna Íslendingarn- ir. Hann er auðvitað húðlatur eins og flestir aðrir fótboltamenn. Þeir sem eru í þessari atvinnumennsku í fót- bolta eru bara eins og stór börn, þar á meðal ég sjálfur. Það eru ekki mikl- ar áhyggjur sem maður þarf að hafa; bara mæta á æfingar og annað slíkt. Það er bara fjölskyldan, vinirnir og fótboltinn. En þetta er nú allt meint á jákvæðan hátt,“ segir Arnar. Auðunn segir að Ragnhildur kona Eiðs hafi einmitt bent á þetta sama atriði þegar hann gerði þátt um Eið í sjónvarpsþáttaseríunni Atvinnu- mennirnir okkar. „Hún sagði að Eið- ur gæti verið svolítið latur stundum, við heimilisverkin og annað slíkt,“ segir Auðunn og bætir því við að Eið- ur geti einnig verið svolítið frekur og ákveðinn á stundum. Framhald á næstu síðu BREYSKt ÓSKABARN ÍSLANDS Á tÍMAMÓtUM „Þegar menn lenda í svona alvarlegum meiðslum geta þeir annaðhvort bugast og gefist upp eða tvíeflst við mótlætið og ákveðið að vinna sig út úr þeim.“ IngI F. VILhjáLmsson blaðamaður skrifar ingi@dv.is skin og skúrir Eiður með konu sinni, Ragnhildi Sveinsdóttur, á tónleikum James Blunt í Laugardalshöll í fyrra. Þrátt fyrir mikla velgengni á fótboltavellinum á liðnum árum hefur Eiður þurft að berjast við nokkurt mótlæti á ferlinum, meiðsli, spilafíkn, lítinn spilatíma hjá Barcelona og svo auðvitað Gróu á Leiti. Varð snemma fótboltahetja Eiður Smári varð snemma mjög efnilegur í fótbolta. Strax þegar hann var lítill drengur og spilaði með ÍR var byrjað að tala um Eið sem hálfgert fyrirbæri á fótboltavellinum; svo góður þótti hann.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.