Dagblaðið Vísir - DV - 06.08.2010, Side 34
34 VIÐTAL 6. ágúst 2010 FÖSTUDAGUR
BARÁTTA SAMKYNHNEIGÐRA
Á ÍSLANDI
Þann 27. júní 2010 urðu tímamót í sögu baráttu samkynhneigðra á Íslandi en þá tóku ný hjúskaparlög gildi
sem leyfa hjónaband tveggja einstaklinga af sama kyni. Á þeirri stundu skaust Ísland beint á toppinn
yfir bestu staði fyrir samkynhneigða til að búa á. Á Íslandi er fyrsti og eini opinberlega samkynhneigði
forsætisráðherrann í heiminum sem gekk í hjónaband um leið og lögin tóku gildi. DV fór yfir sviðið og
rýndi í réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi í gegnum árin.
Í fyrstu heimildum eftir landnám á Íslandi er lítið að finna um samkynhneigð en í Grágás, lagaskrá
Íslendinga frá því á þjóðveldisöld, er minnst á að hefna megi fyrir kynvillu, ef maður gerist „ragur,
stroðinn eða sorðinn.“ Í ýmsum íslenskum lögum á borð við kristnirétt Jóns erkibiskups og síðar
Stóradómi er síðan lögð refsing við kynmökum tveggja karla.
Árið 1869 tóku síðan fyrstu hegningarlög Íslands gildi og var þar refsing lögð við kynmökum
tveggja einstaklinga af sama kyni án tillits til samþykkis þeirra og aldurs. Þá tóku lögin jafnt
til kynmaka tveggja einstaklinga af sama kyni og kynmaka við dýr. Lagagreinin hljóðaði svo:
„Samræði gegn náttúrulegu eðli varðar betrunarhúsavinnu.“ Athöfnin þótti þannig fyrirlitileg og
svívirðileg að mati löggjafarvaldsins.
Eitt frægasta dæmið um notkun á þessari umdeildu lagagrein var árið 1924 þegar Guðmundur
Sigurjónsson Hofdal, þekktur íþróttamaður, ólympíufari og glímukappi var dæmdur af undirrétti
Reykjavíkur í átta mánaða betrunarhúsvinnu fyrir að hafa mök við aðra menn. Guðmundur játaði
fúslega fyrir rétti að hafa átt „holdlegt samræði við aðra karla“ undangengin 15–18 ár, enda stoltur
samkynhneigður maður.
Afar athyglisvert er að skoða hvað almenningur á þeim tíma skrásetti, en þar skína fordómarnir í
gegn.
„Til dæmis var svo ástatt í sveit minni að þar dó allt að því helmingur barna á fyrsta ári, flestallir
höfðu beinkröm, sumir sjóndaprir (syfilis), sumir alkoholistar, en hommi var enginn svo vitað sé
nema Ólafur gossari, svo sem um hann er skráð. Lesbía þorði engin að vera. Um þessar og aðrar
aberrationir ástalífsins var fátt skráð, ég ætla það finnist ekki framar á pakkhúsloftum, og hafi
aldrei verið á þeim neinum,“ skrifaði Málfríður Einarsdóttir um samkynhneigð í Borgarfirði um
aldamótin 1900.
Þessi frumstæðu lög giltu í rúm 70 ár, allt þar til ný lög voru samþykkt á Alþingi árið 1940 að
danskri fyrirmynd og var þá lagagreinin um refsingu við kynmökum tveggja einstaklinga af sama
kyni lögð niður.
Sýnileiki samkynhneigðra jókst ár frá ári og með nýrri kynslóð fjölmiðlamanna
sem höfðu fordómalausan áhuga á málefnum samkynhneigðra urðu samkyn-
hneigðir sífellt meira áberandi í umræðunni. Hugrakkir einstaklingar tóku af
skarið og komu í viðtöl, til að mynda tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson
sem talaði mjög opinskátt og blátt áfram um kynhneigð sína. Þessir einstaklingar
ruddu brautina fyrir aðra og brátt breyttist hugarfar almennings á Íslandi til
samkynhneigðra.
Í júní 1996 fylgdi Alþingi öðrum Norðurlöndum eftir og samþykkti lög um
staðfesta samvist fólks af sama kyni. Staðfest samvist var þannig gerð jafngild
hjónabandi gagnkynhneigðra með þeim undantekningum að ættleiðingar og
tæknifrjóvganir voru ekki heimilar og einungis borgaralegum vígslumönnum
var heimilt að staðfesta samvist fólks af sama kyni, en ekki kirkjunnar mönnum.
Þetta skref var þó aðeins lítið því enn höfðu gagnkynhneigð pör ýmis réttindi
sem samkynhneigðum var meinað um auk þess sem ekki var hægt að skrá
samvistina hjá Hagstofu Íslands. Fríkirkjan í Reykjavík er aðskilin þjóðkirkjunni
og hóf þá þegar hjónavígslur frammi fyrir guði og mönnum. Séra Hjörtur Magni
Jóhannsson forstöðumaður Fríkirkjunnar og prestur beitti sér ötullega á þessum
vettvangi og skrifaði margar greinar í blöð samkynhneigðum til stuðnings.
Síðar um haustið þetta sama ár lagði dómsmálaráðherra frumvarp fyrir Alþingi
sem fól í sér breytingar á 180. gr. og 233. a. gr. almennra hegningarlaga en þær
fjalla um mismunun vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða og
kynhneigðar. Frumvarpið var samþykkt og þar með gert refsivert að neita fólki
um vöru eða þjónustu vegna kynhneigðar þess og óheimilt að ráðast opinber-
lega með háði, rógi, smánun eða með ógnunum á mann eða hóp manna vegna
kynhneigðar þeirra.
Þetta breytti því þó ekki að samkynhneigðir urðu enn fyrir aðkasti og sem dæmi
má nefna að söngvarinn dáði Páll Óskar varð fyrir ruddalegri framkomu af hálfu
núverandi alþingismannsins Árna Johnsen á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum
sumarið 1996. Árni veittist að Páli þar sem hann var að kyssa kærasta sinn, stíaði
þeim í sundur og hrinti kærasta Páls harkalega utan í vegg. Um þetta gat fjöldi
fólks vitnað, þar á meðal Emilíana Torrini söngkona sem minntist á atvikið í
viðtali við Séð og heyrt. Árni hafði þá um sumarið ítrekað kallað samkynhneigða
kynvillta í umræðum á Alþingi.
Það er skemmst frá því að segja að þegar frumvarp til laganna sem samþykkt
voru í júní þetta sama ár, var lagt fram var Árni Johnsen sá eini sem bar upp mót-
bárur gegn lögunum og kaus gegn þeim. Hann var á þeirri skoðun að frumvarpið
veitti samkynhneigðum forréttindi umfram aðra þjóðfélagsþegna.
„Ef samkynhneigt fólk á að fá sérréttindi til staðfestrar samvistar, sambúðar, eins
konar vígslu framhjá kirkjunni, af hverju ættum við þá ekki að leyfa fjölkvæni eða
barnagiftingar sem tíðkast víða um heim?“ sagði Árni og líkti þannig hjónabandi
samkynhneigðra við barnaníð. Hann taldi ennfremur að það væri ekki mannrétt-
indabrot að banna hjónavígslur og ættleiðingar samkynhneigðra.
Um allan heim eru til svokallaðar gay pride-hreyfingar þar sem samkynhneigðir
sýna samstöðu opinberlega en upprunalega varð sú hefð til í San Fransisco fyrir
mörgum árum. Árið 1999 urðu Hinsegin dagar á Íslandi að veruleika og ári síðar
fylktu samkynhneigðir, vinir þeirra og fjölskyldur liði niður Laugaveginn í Gay
Pride-gleðigöngunni. Tólf til fimmtán þúsund manns mættu og þótti viðburður-
inn einstaklega vel heppnaður. Allar götur síðan hafa Hinsegin dagar verið árviss
viðburður þar sem samkynhneigðir Íslendingar fagna tilveru sinni og mannrétt-
indum sem þeir hafa barist svo lengi fyrir, auk þess sem þeir sýna samstöðu með
þeim sem enn er brotið á fyrir það eitt að elska fólk af sama kyni. Árið áður opn-
aði skemmtistaðurinn Spotlight á Hverfisgötu og hafði það markmið að bjóða
samkynhneigða sérstaklega velkomna og markaði opnun staðarins viss tímamót.
Örtröð var við dyrnar fyrsta kvöldið og staðurinn hélt miklum vinsældum í þau
ár sem hann var rekinn. Fastagestir þar spönnuðu allt litrófið og reglulegavoru
haldnar drag-sýningar og svokölluð klámkvöld við mikla kátínu viðstaddra. Mikil
gleði og frelsi einkenndi staðinn sem endurspeglaði í raun frelsi samkynhneigðra
einstaklinga sem blómstruðu þegar umræðan opnaðist.
„Spotlight var æðislegur gay-staður fyrir tíu árum síðan. Ég minnist þessara tíma
með mikilli hlýju,“ sagði Páll Óskar Hjálmtýsson í viðtali við Séð og Heyrt í vor
þegar hann rifjaði upp andrúmsloftið á staðnum en hann þeytti þar oft skífum
og skemmti sér meðal vina.
1869
1996
1999
KYNMÖK VIÐ EINSTAKLING AF SAMA KYNI
LAGT AÐ JÖFNU VIÐ KYNMÖK VIÐ DÝR
STAÐFEST SAMVIST
STOLTIR SAMKYNHNEIGÐIR
OG STUÐNINGSMENN FAGNA
Í hegningarlögunum frá 1940 er athyglisvert að löglegur samræðisaldur þeirra sem stunduðu
kynlíf og hneigðust að sama kyni var hærri en hjá þeim sem gerðust sekir um að sænga hjá
manneskju af gagnstæðu kyni og þannig reynt að koma frekar í veg fyrir mök samkynhneigðra.
Kynmök karls og konu utan hjónabands var þannig talið refsilaust ef bæði voru orðin 16 ára.
Væri karlinn eldri og konan yngri var karlinn sökudólgurinn. Í þessum sömu lögum var aldurinn
18 ára fyrir einstaklinga af sama kyni og varðaði allt að þriggja ára fangelsi fyrir þann sem eldri
var, ef sannað var að einstaklingur hefði beitt yfirburðum vegna aldurs og reynslu til að koma
öðrum af sama kyni til þess að taka þátt í mökunum. Lög þessi giltu í rúm fjörutíu ár, allt til ársins
1992, og var þeim ákvæðum er vörðuðu einstaklinga af sama kyni beitt nógu oft til að minnt var
á tilvist þeirra og áttu þau vafalaust sinn þátt í að hræða samkynhneigða frá samneyti sín á milli.
1940 REYNT AÐ HRÆÐA SAMKYNHNEIGÐA FRÁ SAMNEYTI SÍN Á MILLI
Þegar Bubbi Morthens rauf þögnina og samdi lagið Strákarnir á Borginni var algengt að hommar
yrðu fyrir alvarlegum líkamsárásum á götum úti og væru reknir úr vinnu fyrir það eitt að eiga kær-
asta. Textinn endurspeglaði viðhorf til samkynhneigðra á þessum tíma og textinn var afdráttarlaus:
Ég er vel upplýstur, veit allt um hommana
hef lesið bækur, séð kvikmyndir.
Það er í lagi með strákana, þeir bera syndirnar
í þjóðfélagi sem hatar þá.
Sonur minn er enginn hommi
hann er fullkominn eins og ég.
Þó hann máli sig um helgar
þú veist hvernig tískan er.
Í 45 ár lá umræða um réttindi samkynhneigðra í eins konar dvala en eftir að Samtökin ‚78 voru
sett á fót hófst barátta fyrir bættri réttarstöðu homma og lesbía. Helsti upphafsmaður þeirra var
tónlistarmaðurinn Hörður Torfason, sem fyrstur Íslendinga lýsti opinberlega yfir samkynhneigð
sinni í viðtali við tímaritið Samúel haustið 1975. Yfirlýsingin olli miklu uppnámi í þjóðfélaginu og
var Herði í raun ekki vært á Íslandi fyrstu árin eftir viðtalið, var lagður í einelti og flúði að lokum
land.
Árið 1985 var síðan í fyrsta skipti lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um afnám misréttis
gagnvart samkynhneigðu fólki. Allir stjórnmálaflokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn stóðu að
tillögunni. Vendipunktur varð síðan í réttindabaráttunni þegar Alþingi ályktaði um málefni sam-
kynhneigðra þann 19. maí árið 1992. Ályktunin var í raun samhljóða þingsályktunartillögunni frá
1985 en í þetta sinn var hún lögð fram af fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Með þessu var Alþingi að
lýsa yfir vilja sínum til að tryggja að misrétti gagnvart samkynhneigðum ætti sér ekki stað. Í kjölfar
þessa var skipuð nefnd sem gerði ítarlega úttekt á stöðu samkynhneigðra í samfélaginu út frá
lagalegu, menningarlegu og félagslegu sjónarhorni. Skýrslan varð síðan grunnur fyrir þá löggjafar-
vinnu sem átti sér stað í lok 20. aldarinnar.
Í lok níunda áratugarins varð hins hræðilega sjúkdóms alnæmis vart á Íslandi líkt og annars staðar í
heiminum. Þetta var áfall fyrir réttindabaráttu samkynhneigðra og ýtti undir fordóma gegn homm-
um þar sem kvittur komst á kreik um að alnæmi væri „hommasjúkdómur.“ Með aukinni fræðslu og
baráttu Samtakanna ‚78 tókst hins vegar fljótlega að snúa umræðunni í þjóðfélaginu við.
1981 SONUR MINN ER ENGINN HOMMI, HANN ER FULLKOMINN EINS OG ÉG