Dagblaðið Vísir - DV - 19.09.2014, Blaðsíða 22
22 Skrýtið Helgarblað 19.–22. september 2014
Skrýtnar og skemmtilegar
staðreyndir um Rússland
n Rússland er jafn stórt og Plútó n Íbúum fækkar og fækkar n Nota níu tímabelti
Rússland hefur verið mikið í fréttum á þessu ári, meðal annars vegna Vetrarólympíuleikanna í Sochi og forsetans Vladimírs Pútín sem
hefur verið að hnykla vöðvana, að þessu sinni í Úkraínu. Vefritið Business Insider tók fyrir skemmstu saman nokkrar magnaðar stað-
reyndir um þetta risastóra og fjölmenna ríki sem teygir sig ansi víða.
Jafn stórt og Plútó
n Já, þið lásuð rétt. Rússland er stærsta
ríki heims, 17 milljónir ferkílómetrar. Litla
Ísland er bara 103 þúsund ferkílómetrar
og því er Rússland 165 sinnum stærra.
Þetta er ótrúleg stærð en til samanburðar
er plánetan Plútó aðeins 16,6 milljónir
ferkílómetra.
Ótrúlegar olíuleiðslur
n Rússland er auðugt af náttúruauðlindum
og selja Rússar gríðarlegt magn af gasi til
nágrannaríkja sinna í Evrópu. Til þess að
flytja þessar afurðir; olíu, gas og eldsneyti
þarf öflugt leiðslukerfi. Heildarlengd
rússneska leiðslukerfisins – sem flytur allar
þessar afurðir, bæði innanlands og utan – er
hvorki meira né minna en 259.913 kílómetr-
ar. Til samanburðar er ummál jarðar 40.075
kílómetrar.
Rússum fækkar og fækkar
n Rússneska þjóðin hefur elst mikið á
undanförnum árum og hefur Rússum fækk-
að um 6,6 milljónir frá árinu 1993. Þetta
svarar til alls íbúafjölda Jórdaníu, Paragvæ
eða El Salvador. Árið 2010 voru íbúar Rúss-
lands 142 milljónir en mannfjöldaspár gera
ráð fyrir að þeim muni fækka niður í 126,6
milljónir fyrir árið 2050.
Ríkt af auðlindum
n Sem fyrr segir er Rússland auðugt af
náttúruauðlindum eins og jarðgasi. Birgðir
Rússa af jarðgasi myndu duga til að fylla
13,2 milljarða sundlauga í Ólympíustærð.
Fyrir þá sem ekki vita eru slíkar laugar 50
metra langar, 25 metra breiðar og að jafnaði
um þriggja metra djúpar.
Olían dugar í 75 ár
n Áfram af náttúruauðlindum Rússa. Rúss-
land notar að jafnaði 3,2 milljónir tunna
af olíu á dag en olíubirgðir Rússa eru að
minnsta kosti 87 milljarðar tunna. Ef Rússar
halda þessari notkun sinni nokkurn veginn
óbreyttri munu olíuauðlindirnar duga þeim í
að minnsta kosti 75 ár til viðbótar.
Níu tímabelti
n Rússland teygir sig víða, svo víða að níu
mismunandi tímabelti eru í landinu. Áður
voru reyndar ellefu tímabelti notuð en árið
2010 var þeim fækkað niður í níu. Ástæðan
fyrir þessu var sú að það flæktist stundum
fyrir fólki að hafa svo mörg tímabelti.
Há morðtíðni
n Morðtíðni í Rússlandi er um tvöfalt hærri
en í Bandaríkjunum – og þá er nokkuð mikið
sagt. 9,7 af hverjum hundrað þúsund íbúum
eru drepnir á ári í Rússlandi, en til saman-
burðar eru 4,7 af hverjum hundrað þúsund
íbúum drepnir í Bandaríkjunum.
Drekka mikið
n Rússar drekka að meðaltali 6,3 skot af
áfengi í hverri viku að meðaltali samkvæmt
tölum sem Euromonitor birti ekki alls fyrir
löngu. Til samanburðar drekka Bandaríkja-
menn 3,3 skot af áfengi í hverri viku. Hvorki
Rússar né Bandaríkjamenn komast þó með
tærnar þar sem Suður-Kóreumenn hafa
hælana. Þeir skola niður 13,7 skotum í viku
að meðaltali.
Stórhættulegt vatn
n Karachy-vatn við suðurhluta Úralfjalla
er líklega eitt hættulegasta vatn í heimi,
eða því sem næst. Gríðarlegur kjarnorkuúr-
gangur er í vatninu, þannig er fullyrt að ef
manneskja við hestaheilsu myndi standa
við vatnið í eina klukkustund myndi hún
verða fyrir svo mikilli geislun að hún dæi.
Seldu Alaska
n Alaska tilheyrir Bandaríkjunum en það
hefur ekki alltaf verið þannig. Allt til ársins
1867 tilheyrði Alaska Rússlandi en það ár
ákváðu yfirvöld í Rússlandi að selja þetta
gríðarstóra landsvæði til Bandaríkjamanna.
Hver ferkílómetri kostaði 4,74 Bandaríkjadali
og greiddu Bandaríkjamenn samtals 7,2
milljónir Bandaríkjadala fyrir Alaska. Upp-
hæðin jafngildir um 120 milljónum dala í dag.
Með riffla á lofti Rúss-
neskir hermenn bregða á leik
fyrir framan eitt þekktasta
kennileiti Moskvu, höfuð-
borgar Rússlands.