Dagblaðið Vísir - DV - 20.12.2013, Page 38
Jólablað 20.–27. desember 201338 Fólk Viðtal
Áreittur og fangelsaður
vegna leitar að Tony
Y
usuf bjó við bágan kost í
Íran til ársins 2006 þegar
dvalarkort hans var eyði-
lagt af Bazets-hermönnum.
Yusuf flúði í gegnum Tyrk-
land til Evrópu hvar hann þvældist
á milli landa. Hann kom hingað til
lands árið 2011 og sótti um hæli.
Útlendingastofnun hefur hafnað
hælisumsókn hans á þeim forsend-
um að aðstæður í Afganistan séu
betri en þegar hann flúði. DV hitti
þennan rólyndismann á heimili
hans í Reykjavík og ræddi við hann
um óljósa framtíð og þokukennda
fortíð.
„Farðu heim til þín, þú tilheyrir
ekki þessum stað,“ sagði íslensk
lögreglukona við Yusuf þar sem
hann sat handjárnaður í lögreglu-
bíl á leiðinni upp á lögreglustöðina
Hverfisgötu. Yusuf hafði verið hand-
tekinn inni á heimili sínu, af lög-
reglumönnum sem leituðu að Tony
Omos sem vísa átti úr landi. Tony
fannst ekki heima hjá Yusuf en hann
og félagi hans voru hins vegar hand-
teknir og færðir í fangageymslur lög-
reglunnar þar sem þeir máttu dúsa í
fjórtán tíma án þess að fá að tala við
lögmenn. Félagi Yusuf segist hafa
fengið sömu skilaboð frá lögreglunni
– að hann ætti að fara heim til sín
þar sem hann tilheyrði ekki Íslandi.
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður
Yusuf, segist telja handtökuna til-
efnislausa og ólögmæta, en hún hef-
ur kært málið til ríkissaksóknara. DV
sendi lögreglunni á höfuðborgar-
svæðinu fyrirspurn vegna málsins en
þar á bæ sögðust menn ekki geta tjáð
sig um einstök mál.
Hælisleitendur áreittir
DV hefur fjallað um leit lögreglunnar
að Tony Omos að undanförnu en
samfélag flóttamanna á Íslandi fór
ekki varhluta af henni. Fóru lög-
reglumenn meðal annars ítrekað
heim til barnsmóður hans, Evelyn
Glory Joseph, og tjáðu henni að lög-
reglan myndi koma daglega þangað
til Tony kæmi úr felum. „Ég vil fara úr
felum vegna þess að lögreglan er far-
in að áreita fólk út af mér,“ sagði Tony
í samtali við DV stuttu áður en hann
gaf sig fram við innanríkisráðu-
neytið á föstudag. Yusuf talar einnig
um áreiti lögreglunnar í þessu sam-
hengi en DV hefur rætt við fleiri hæl-
isleitendur sem fengu heimsókn-
ir frá lögreglunni vegna Tonys. „Ég
vil bara að þeir hætti. Þeir eru farn-
ir að áreita fólk, sérstaklega konur og
konur með börn. Þeir koma þangað
klukkan tíu á kvöldin,“ sagði Tony við
DV. Blaðamaður og ljósmyndari DV
heimsóttu Yusuf í íbúð í Reykjavík
sem hann deilir með þremur öðrum
hælisleitendum. Hann færir blaða-
manni og ljósmyndara kaffi og vínar-
brauð og sýnir þar með þá gestrisni
sem Afganir eru einatt þekktir fyrir,
áður en hann fær sér sæti í sófanum
og segir frá heimsókn lögreglunnar í
síðustu viku.
„Svona er Ísland“
„Þeir [lögreglumennirnir] voru há-
værir og reiðir þegar þeir leituðu
í hverju einasta herbergi. Við
spurðum hvort þeir þyrftu að vera
með svona mikil læti en þeir svör-
uðu því til að þeim væri sama hvað
okkur fyndist,“ segir Yusuf sem tek-
ur fram að handtakan hafi fengið á
hann: „Ég bað um að fá að tala við
lögfræðing og þeir sögðu mér að ég
gæti gert það daginn eftir. Ég sagði
þeim að það væri kalt í fangaklefan-
um en þeir sögðu mér bara að svona
væri Ísland. Mér leið mjög illa, bara
illa og ekkert annað.“ Handtakan
kallaði fram minningar úr fortíðinni:
„Afganskir flóttamenn eru áreittir
með sama hætti í Íran. Ég hef upplif-
að þetta allt saman áður.“ Helga Vala
segir skjólstæðing sinn hafa sagt lög-
regluna margoft hafa komið heim til
hans í þeim tilgangi að leita að Tony.
Yusuf hafi ítrekað verið spurður út í
það hvað hann héti og hvaðan hann
væri. Hann hafi því verið orðinn
langþreyttur á þessum yfirheyrslum
þegar lögreglumenn komu enn einu
sinni heim til hans á fimmtudags-
kvöld. „Hann setti upp einhvern
snúð og hringdi á félagsþjónustuna
og bað starfsmann þar um að útskýra
fyrir lögreglunni að hann væri ekki
þessi Tony sem þeir leituðu að,“ seg-
ir Helga Vala. Þetta lagðist hins vegar
ekki vel í lögreglumennina sem
ákváðu að handtaka hann og félaga
hans fyrir að gefa ekki upp nafn skil-
yrðislaust. „Þetta virðast hafa verið
einhverjir stælar í lögreglunni, þeir
vissu algjörlega hvaða mann þeir
voru með í höndunum, enda á hans
heimili,“ segir Helga Vala sem segir
alvarlegt ef lögreglan tekur sig til og
fer að áreita ákveðinn þjóðfélagshóp.
Tilheyrir ofsóttum minnihluta
Eins og greint er frá hér að ofan hef-
ur Útlendingastofnun hafnað um-
sókn Yusuf um hæli á þeim forsend-
um að ástandið í Afganistan sé ekki
jafn slæmt og það var þegar hann
flúði þaðan árið 1996. Helga Vala
segir úrskurð Útlendingastofnunar
í hæsta máta furðulegan. Yusuf sé
shia-múslimi af Hazara-þjóðarbroti
en þeir hafi þurft að sæta ofsókn-
um og pyntingum af hálfu talibana
um áratugaskeið. Slíkar ofsóknir séu
viðvarandi en í byrjun árs voru gerð-
ar tvær árásir sem beindust sérstak-
lega að fólki af Hazara-þjóðflokki,
þar sem nærri 200 manns týndu lífi
og fjöldi særðist. Þá má geta þess að
forseti landsins, Hamid Karzai, lýsti
því nýlega yfir að best væri að mynda
samsteypustjórn með talibönum.
Samt sem áður hefur Útlendinga-
stofnun úrskurðað sem svo að engin
ástæða sé fyrir Yusuf að óttast um líf
sitt í landinu. „Þegar við lítum síðan
til þess að hann fór frá landinu fyrir
sautján árum, þegar hann var sex
ára, og að hann á engan að þar, þá
er auðvitað ruglað að ætla að senda
hann þangað aftur,“ segir Helga Vala.
Yusuf óttast það mjög að verða send-
ur aftur til Afganistan: „Ég á frænda
á lífi í Afganistan en ég hef ekki heyrt
í honum í sautján ár og veit ekkert
hvar hann er.“ Helga Vala hefur kært
úrskurð Útlendingastofnunar til
innan ríkisráðuneytisins og því bíður
hann nú á milli vonar og ótta eftir
ákvörðun ráðuneytisins. Þessi óvissa
hefur fengið mikið á hann: „Eftir að
þeir sögðu mér að umsókninni hefði
verið hafnað þá varð ég mjög sár.
Þetta hefur verið erfiður tími, ég hef
grátið mikið, ég grét í heila viku.“
Hermenn nefbrutu Yusuf
Yusuf er eins og gefur að skilja
orðinn langþreyttur á óvissu og bið.
„Það er erfitt að vera hælisleitandi
hvar sem maður er niðurkominn
í heiminum. Það velur sér enginn
þessa stöðu. Ég til dæmis, ég hef ekki
séð móður mína, bróður eða systur
í sjö ár, ég sakna fjölskyldu minnar
óendanlega mikið,“ segir Yusuf sem
á þá ósk heitasta að fá hæli á Íslandi
enda geti hann ekki snúið aftur til
Afganistan eða Íran. Hann segist
finna til ótta við það eitt að hugsa
til Afganistan: „Ég á bara minn-
ingar um stríð. Talibanarnir voru
hættulegir, mjög hættulegir. Pabbi
fór upp á háaloft en þeir fundu
hann þar og drápu hann en okkur
tókst að flýja út úr húsinu og kom-
ast í burtu. Ég get ekki farið þang-
að aftur enda eru talibanarnir þar
ennþá.“ Minningarnar frá Íran eru
ekki fagrar heldur: „Ég man eftir
því þegar ég var tíu ára gamall að
þrífa hús og búðir í Teheran [höf-
uðborg Íran].“ Þá rifjar hann upp
daginn sem hann var laminn af
Bazets-hermönnum í Íran, en þeir
eyðilögðu meðal annars dvalarkort
hans í árásinni. Yusuf segist hafa
verið á leiðinni út úr verslun með
amerískar kvikmyndir, sem teljast
ólöglegur varningur í Íran, þegar
hermennirnir gripu hann og lömdu.
„Ég var barinn illa, nefbrotinn og
tekinn í varðhald í sólarhring.“
Yusuf hafði áður orðið fyrir ítrekuð-
um árásum Bazets-hermannanna
eingöngu vegna afgansks þjóðernis
síns. Hann átti þess ekki kost að
flýja til annarra borga landsins þar
sem dvalarleyfisskírteini hans hafði
verið eyðilagt og útilokað var að fá
nýtt skírteini. „Eftir þetta flúði ég til
Tyrklands og fór þaðan með bát til
Grikklands.“
Minningar um valdbeitingu
Handtakan á fimmtudag og ummæli
lögreglukonunnar um að Yusuf ætti
að fara aftur heim sitja í honum.
Helga Vala segir erfitt að sjá hvers
vegna lögreglan sá ástæðu til þess
að handtaka þennan litla mann sem
ógnaði engum og færa hann í varð-
hald. Hún spyr hvort slíkt yrði gert
við Íslending í sömu stöðu? „Mér
finnst fullkomlega eðlilegt að spyrja
þeirrar spurningar. Þeir höfðu kom-
ið margoft heim til hans og fengið
nafn hans. Þeir vissu að hann væri
hælisleitandi og ég velti því fyrir
mér hvort þetta hafi einungis verið
gert í þeim tilgangi að hrella hann,
sérstaklega í ljósi þess sem lög-
reglukonan sagði um að hann ætti
kannski bara að hunskast heim.“
Yusuf hefur undanfarnar vikur hitt
starfsmann Rauða krossins vegna
bágrar andlegrar heilsu. Blóðug for-
tíðin hefur sett mark sitt á þennan
unga mann. Aðgerðir lögreglunnar
á fimmtudag drógu fram gamlar
minningar um þá valdbeitingu sem
hann hefur verið beittur í gegnum
tíðina. „Mér líður svo illa vegna alls
sem hefur gerst og þegar lögreglu-
konan sagði mér að fara aftur heim
til mín, á því augnabliki, þá fannst
mér hún vera ógnandi alveg eins og
lögreglan í Íran, eða talibanar.“ n
Yusuf Mahdavi, 23 ára hælisleitandi frá
Afganistan, flúði heimalandið þegar hann var sex
ára. Talibanar réðust inn í þorpið hans í Wardak-hér-
aði árið 1996 og drápu þorpsbúa. Yusuf man óljóst
eftir atburðunum en gleymir því þó aldrei að þennan
dag var faðir hans drepinn. Þá hvarf bróðir hans og
hefur ekki sést til hans síðan. Yusuf, móður hans og
systkinum tókst hins vegar að flýja úr þorpinu og til
Íran. Það vakti upp gamlar minningar þegar hann var
nýlega handtekinn að tilefnislausu á heimili sínu og
færður í fangageymslu lögreglu.
Jón Bjarki Magnússon
jonbjarki@dv.is
„Farðu heim til
þín, þú tilheyrir
ekki þessum stað
Kalt í klefanum Yusuf Mahdavi frá
Afganistan var handtekinn og færður í
fangageymslur þegar lögreglan leitaði að
Tony Omos. Honum fannst kalt í klefanum
en lögreglumenn tjáðu honum að svona
væri Ísland. MYnd SigTrYggur Ari
„Þegar lögreglu-
konan sagði mér
að fara aftur heim til
mín, á því augnabliki, þá
fannst mér hún vera ógn-
andi alveg eins og lög-
regan í Íran, eða talibanar.