Són - 01.01.2007, Page 21
GÁTAN UM SÉRHLJÓÐASTUÐLUNINA 21
l-ið ekki á milli jafngildisflokka.65 Næsta spurning er hins vegar hvers
vegna klasinn sk geti þá ekki alveg eins stuðlað á móti /k/ ef það er k-
ið sem afmarkar jafngildisflokkinn. Því svarar Kristján á þann hátt að
út frá bragfræðilegu (metrical) sjónarhorni séð er það alltaf fyrsti þátt-
ur klasans sem miðað er við, þ.e. upphaf klasanna sem stuðla saman
verður að vera eins. Þess vegna getur sk ekki stuðlað við k heldur
aðeins við sk þó svo að í rauninni greini k-ið á milli jafngildisflokk-
anna.66
Lág hljómun einkennist af því að viðkomandi þáttur er lítt eða
ekki atkvæðisbær miðað við nærliggjandi þætti sem hafa til að bera
meiri hljómun og eru atkvæðisbærir í meira mæli. Út frá þessu er hægt
að líta svo á að tómi stuðullinn sem fer fyrir framstöðusérhljóðanum
sé hljómunarlágmark. Stuðlunin byggist á lágmarks hljómun í upp-
hafi orða og ef þessi framstöðusæti eru tóm, eins og gerist þegar orð
hefjast á sérhljóða, eru þar heldur ekki þættir sem skipa þeim í mis-
munandi jafngildisflokka (they are trivially non-distinct), sbr. það sem
rætt var hér að ofan. Þetta nægir til þess að sérhljóðarnir geta myndað
einn jafngildisflokk þó að þeir séu í sjálfu sér ólíkir.67
Lokaorð
Hér að framan hafa verið raktar helstu kenningar um það hvers
vegna leyft er að stuðla með mismunandi sérhljóðum, um leið og
samhljóðarnir lúta reglum sem ganga í þveröfuga átt. Þessum kenn-
ingum má gróft tekið skipta í fjóra flokka og setja þá fram á eftirfar-
andi hátt:
a) raddglufulokun á undan sérhljóðinu
b) sögulegur uppruni sérhljóðanna
c) sameiginlegur þáttur [+sérhljóðakenndur]
d) tómur stuðull
65 Þetta er fyrir tíma sníkjuhljóðsins [t] sem seinna tróð sér inn á milli s og l með þeim
afleiðingum að jafngildisflokkar stokkuðust upp. Sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson
(2004:54 o.áfr.).
66 Kristján Árnason (2007:92).
67 Kristján Árnason (2007:92). Paul Kiparsky (1978) setti fram kenningu um sér-
hljóðastuðlun og framstöðuklasana sk, sp og st. Kenning hans er á sömu nótum og
það sem kemur fram hjá Kristjáni og Roman Jakobson, þ.e. að það sem stuðlar er
ekki sérhljóðinn sjálfur heldur skýrir hann fyrirbærið m.a. út frá mismunandi
styrkleika í atkvæðum (Words alliterate if their initial „W“ is the same, sjá um það
t.d. Minkovu (2003:141 og 211)). Kiparsky (1978:43–45).