Són - 01.01.2007, Side 43
HALLGRÍMUR PÉTURSSON SKÁLD ALÞÝÐUNNAR 43
sigling í hægum byr. Hann siglir unglingspiltur til útlanda og nemur
þar bæði handverk og bókleg fræði. Þar fellur hann með giftri konu
sem þar að auki hafði verið hertekin í Barbaríinu. Samtímaheimildir
greina ekkert frá sambúð þeirra en þjóðsagan gerir hana að stórlynd-
um kvenvargi og afguðadýrkanda og fellir hana þar með inn í
mynstrið um skassið og mikilmennið en hún ljær henni einnig ævin-
týralegan glæsileika sem sjaldnast er að finna hjá skassi þjóðsögunnar.
Þjóðsagan greinir meira að segja frá því að sonur deyans, sem Guð-
ríður var ambátt hjá í Barbaríinu, hafi fest ást á henni en ekki fengið
að eiga hana fyrir móður sinni. Hafi hann þá gefið henni að skilnaði
kápu, gersemi mikla, og vildi með því sýna að meiri væri sá er henni
unni í Alsír en hundar þeir er Ísland byggðu. Er ekki laust við að hér
endurómi saga úr Laxdælu af því er Ingibjörg konungssystir gaf
Kjartani Ólafssyni moturinn forðum.
Eftir að Hallgrímur er kominn að Saurbæ og orðinn frægur af
sálmakveðskap fara að spretta upp þjóðsögur um hann og halda
áfram að magnast eftir dauða hans uns þær fullkomna þá mynd af
skáldinu sem þjóðin þekkir. Hann er kraftaskáld sem kveður drauga
jafnt upp sem niður og ekki getur hann stillt sig er hann sér af
predikunarstóli hvar tófa kemur í tún og bítur lamb en kveður hana
dauða upp úr miðri ræðunni:
Þú sem bítur bóndans fé,
bölvuð í þér augun sé,
stattu eins og stofn af tré,
stirð og dauð á jörðunne.
Honum hefnist að vísu fyrir að misnota svo gjafir Guðs og missir
skáldgáfuna um tíma. Hann fær hana þó aftur úti í skemmu þar sem
hann er að hengja upp kjöt með vinnumanni sínum. Segir sagan að
Hallgrímur stæði á gólfi og rétti vinnumanni upp krofin en vinnu-
maður sæti uppi og hengdi á rárnar. Þótti honum prestur ekki rétta
nógu hátt og sagði: „Upp, upp!“ Kom þá skáldskapargáfan aftur yfir
Hallgrím og hélt hann áfram og kvað:
Upp, upp mín sál og allt mitt geð,
upp, upp mitt hjarta og rómur með,
hugur og tunga hjálpi til
þá herrans pínu eg minnast vil.