Són - 01.01.2007, Blaðsíða 68
HEBA MARGRÉT HARÐARDÓTTIR68
Jakob Jóh. Smári gaf út fjögur kvæðasöfn. Hið fyrsta, Kaldavermsl,
kom út árið 1920 og vakti þegar athygli á höfundinum. Það næsta
kom út 1936 og nefndist Handan storms og strauma. Árið 1939 kom út
Undir sól að sjá og Við djúpar lindir árið 1957. Þýðing á ljóðaflokki eftir
Frederick W. H. Myers, Páll postuli, var gefin út á bók árið 1918.
Ásgeir Hjartarson, sem verið hafði nemandi Jakobs, kemst svo að
orði í grein sinni um skáldið í Tímariti Máls og menningar árið 1949 að
margar af ritgerðum hans og greinum séu „merkilegar á marga lund
og ættu ekki að falla í gleymsku.“ Hann lýsir honum svo:
Smári var skemmtilegur og góður kennari, enda ágætlega að sér
í sinni grein, en svo mildur að hann átti örðugt með að finna að
frammistöðu nokkurs nemanda, og eflaust brugðust ýmsir við
góðmennsku hans á annan hátt en skyldi. Enginn kennara minna
í skóla er mér hugstæðari en hann; gáfur hans, einlægni og ljúf-
mennska munu mér lengi í föstu minni.3
„Þá tók eitthvað að syngja í sál minni“ 4
Jakob byrjaði að yrkja þegar hann var 12 ára gamall. Hann sagði
sjálfur: „Eitthvað á tólfta ári las ég Úraníu eftir Flammarion, og hafði
hún mikil áhrif á mig. Hún braut fyrir mér „veraldar-eggið“ og ég sá
út í endalausan geiminn. Og þá orti ég nokkur kvæði eða vísur stjarn-
fræðilegs efnis.“5 Síðan byrjaði hann ekki að yrkja af alvöru fyrr en
sumarið eftir stúdentspróf. Þá var hann á leiðinni vestur í Dali, ásamt
nokkrum Dalamönnum. Jakob sagði um þetta:
En þegar við komum á Sauraleiti og Suðurdalirnir breiddu
faðminn á móti mér, þagnaði ég. Nóttin var björt, en einhver
móða hvíldi yfir landslaginu, og fegri sýn hef ég sjaldan séð. Þá
tók eitthvað að syngja í sál minni, og áður en mig varði, hafði
ég ort vísu, umhugsunarlítið. [...] En þá fann ég, að ég gat ort,
og næstu daga var ég oft að eiga við að yrkja, og síðan hef ég
alltaf ort öðru hvoru.6
3 Ásgeir Hjartarson (1949:249).
4 Jakob Jóhannesson Smári (1958:43).
5 Jakob Jóhannesson Smári (1958:42).
6 Jakob Jóhannesson Smári (1958:43).