Són - 01.01.2007, Page 101
Berglind Gunnarsdóttir
Pablo Neruda
– maður og haf
Þegar litið er yfir ljóðagerð Pablos Neruda sést að hún skiptist eftir
ákveðnum tímabilum. Þetta minnir á Picasso í málaralistinni, enda
unnu báðir þessir menn stórvirki hvor á sínu sviði. Hjá Neruda
fylgja tímabilin æviferli hans á býsna skýran hátt. Í fyrsta lagi marka
ljóðagerð hans uppvaxtarár í Chíle, stúdentaár og fyrstu ástir, í öðru
lagi tíminn þegar Neruda dvelur sem konsúll í Austurlöndum fjær,
Jövu, Burma og Ceylon, í þriðja lagi árin á Spáni fram að borgara-
stríðinu, í fjórða lagi hans pólitíska skeið í Chíle og víðar og loks í
fimmta lagi síðustu árin sem hann eyðir gamall maður í húsi sínu, Isla
negra, við sjóinn. Ljóð hans eru frábær vitnisburður um viðburðaríkt
líf hans og kenndir og einnig meðal, jafnvel vopn til að komast af,
stundum í ævintýralega erfiðum aðstæðum. Á þeirri vegferð hefur
hann svo smám saman eflst að þroska og styrk.
Allir, sem á annað borð lesa ljóð, ættu að finna eitthvað við sitt hæfi
í ljóðagerð þessa mikilvirka skálds. Jafnvel pólitísku ljóðin, sem menn
fjargviðrast stundum yfir, þykja búa yfir skáldlegum eigindum, enda
Neruda alltaf skáldlegur, sama hversu jarðbundin og prósaísk verk
hans kunna að vera. Hátindur verka hans, Canto general, verður til
meðan Neruda starfar af krafti sem kommúnisti og beitir skáldlegu
innsæi sínu í þágu alþýðunnar í Rómönsku Ameríku. Þar „má sjá að
skáld jafnstórt í sniðum og Neruda er fært um að skapa mikinn skáld-
skap þó að ljóðrænu tungutaki sé fórnað fyrir pólitískan ásetning“.1
Tveir sögulegir viðburðir sem Neruda lendir í um ævidagana eru
harmsögulegir. Þeir marka tímamót í þeim löndum og heimshlutum
þar sem þeir gerðust, en höfðu djúp og afdrifarík áhrif á hann. Annar
var borgarastríðið á Spáni og hinn uppreisn chíleska hersins gegn rétt-
kjörnum forseta landsins, Salvador Allende, en í kjölfar þess fylgdi ein-
ræðisstjórn Pinochets. Báðir voru þessir atburðir blóðugir í meira lagi
1 Anderson-Imbert, Enrique (1969:605).