Són - 01.01.2007, Síða 118
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON118
mér reyndar allgóðar vonir um að þeir sem lesa grein mína muni sjá
að nákvæmara orð yfir þessar ávirðingar mínar er skoðanaágreiningur,
ágreiningur við Örn – oft djúpstæður – um eðli bókmennta og bók-
menntasögu, um sögu ljóðlistar á Vesturlöndum á síðustu hálfri
annarri öld og um endurnýjun íslenskrar ljóðlistar um miðja 20. öld.
En hitt er jafnljóst að þeir sem lesa ekki greinina fá ekki svo mikið
sem hugboð um efni hennar og um málflutning minn af endursögn
Arnar.
Rétt er, áður en lengra er haldið, að gera nokkra grein fyrir um-
ræddri ritgerð minni „Þankabrotum um ljóðbyltingar“ sem Örn var
að svara. Hún var hugsuð sem kafli í bók um skáldskap Sigfúsar
Daðasonar og kom lítillega endurskoðuð í henni síðastliðið vor og
nefnist þar „Útúrdúr um ljóðbyltingar · Þættir úr sögu nútímaljóða“.4
Tilgangur minn með kaflanum var að setja breytingarnar sem urðu í
íslenskri ljóðlist um miðja síðustu öld í alþjóðlegt samhengi, að sjá þær
í ljósi þeirra byltinga í ljóðagerð sem urðu í Evrópu og Norður-
Ameríku á seinnihluta 19. aldar og fyrrihluta þeirrar tuttugustu. Ég
rakti fáeina þætti úr sögu nútímaljóða, greindi frá mismunandi skoð-
unum og setti fram mínar eigin, og reyndi að lýsa bæði staðreyndum
máls og álitamálum eftir því sem kostur var í svo stuttu ágripi, enda
er það helsta forsenda þess að lesandi geti sjálfur myndað sér skoðun
á umræðuefni hverju sinni. Og þegar ég taldi að það væri málflutningi
mínum til skýrleika gagnrýndi ég í fáein skipti áður framkominn
skilning á íslenskum nútímaljóðum, en Örn hefur sem kunnugt er
fjallað mikið um það efni. Helsta tilefni gagnrýni minnar á Örn í
greininni var bókmenntasögulegt: það mat hans að sáralítil ummerki
módernisma séu greinanleg hjá Sigfúsi Daðasyni, en það taldi ég til
marks um grunnan skilning á skáldinu og um gallaða skilgreiningu á
módernisma.
Til þess að leiða í ljós skoðanaágreining okkar Arnar, og hvað það
var sem ég gagnrýndi, held ég mig í því sem hér fer á eftir ekki ein-
göngu við svargrein hans í Són heldur vísa einnig í fyrri skrif hans –
bókina Kóralforspil hafsins · Módernismi í íslenskum bókmenntum og fleira –
skrif sem ekki er víst að allir lesendur Sónar þekki. En til að taka af öll
tvímæli: Síst hef ég á móti því að Örn Ólafsson myndi sér eigin
skoðanir á bókmenntum 20. aldar á Íslandi og víðar og tefli þeim
gegn mínum og annarra, það er að sjálfsögðu heilagur réttur hans.
4 Þorsteinn Þorsteinsson (2007:80–128).