Són - 01.01.2007, Qupperneq 121
ÁLITAMÁL Í BÓKMENNTASÖGU 121
Arnar, heldur hvort hann var dómbær á hvorttveggja. Með öðrum
orðum: var krufning hans og útlistun á nútímaljóðum frjó, eins og
Örn telur vera? Eða er ófrjórri umfjöllun vandfundin? Ég dreg þá
skoðun Arnar í efa að einu megi gilda um fræðimenn um bók-
menntasögu hverskonar skáldverk þeir kunni að meta eða séu í raun
hrifnir af. Ég tel að maður sem hefur alist upp í sátt við nútímaljóðlist
og hrifist af þeim margvíslegu möguleikum sem hún hefur að bjóða,
sé að öðru jöfnu betur fallinn til að lýsa henni heldur en sá sem sér
hana fyrst og fremst sem frávik frá eldri ljóðhefðum. Hjá Hugo
Friedrich vekja þegar efasemdir hin mjög svo hæpnu og ógeðugu
heiti sem hann notar til lýsingar á nútímaljóðum. Eða finnast mönn-
um hugtök eins og ‚Enthumanisierung‘, ‚Entpersönlichung‘, ‚Ent-
realisierung‘, ‚Abnormität‘, ‚alogische Dichtung‘ – ómannlegur, óper-
sónulegur, veruleikafirrtur, afbrigðilegur, órökrænn skáldskapur –
finnast mönnum þau björguleg sem almenn lýsing á ljóðheimum
nútímaskálda? Allt neikvæður, og alhæfingar um það sem Friedrich
kallar moderne Lyrik. Mér sýnist hugmyndaheimur Friedrichs bera
sterkan svip af skoðunum Ortega y Gasset hins spænska í bókinni
Afmönnun listarinnar,12 en of langt mál yrði að reyna að rekja þær sifj-
ar hér.
Að síðustu þetta um Hugo Friedrich: Aðferðafræði hans er ótæk.
Hann tekur fram að hann sé ekki að skrifa bókmenntasögu, einungis
að lýsa því sem hann kallar strúktúr eða innviði nútímaljóða. Og í
því skyni að sýna þá innviði tínir hann til glefsur úr ljóðum skálda
eða ummælum þeirra, glefsur sem passa inn í skema sem hann hefur
ákvarðað fyrirfram. Hann býr sér til heildarmynd um ljóðheim og
heimsmynd nútímaskálda þar sem sleppt er öllu sem mælt gæti gegn
myndinni, sem fyrir bragðið verður óhjákvæmilega skökk. Og finni
hann ekkert hjá tilteknu skáldi sem passar í myndina þá býr hann
það til, eins og í dæmi Brechts.13 Með slíka aðferðafræði að vopni
getur hver sem er sýnt fram á einsleitni hvers sem er, jafnvel elds og
vatns.
12 La deshumanización del arte (1925). Reyndar vitnar Friedrich víða í þá bók, t.d. á bls.
168–69.
13 Friedrich útlistar kenningu Brechts um framandgervingu á þá leið að hún sé fólg-
in í því að fjarlægja allt orsakasamhengi verknaðar (sjá nmgr. 10), að hún geri með
öðrum orðum heiminn óskiljanlegan. En allir sem til þekkja vita að kenningin var
einmitt þekkingarfræðilegs eðlis, markmiðið var að sýna daglega hluti í framandi
ljósi í því skyni að þeir yrðu skiljanlegri, að hvatirnar að baki verkum manna yrðu
ljósari.