Són - 01.01.2007, Page 131
ÁLITAMÁL Í BÓKMENNTASÖGU 131
Kristinn var hliðhollur ungu skáldunum, lengi framan af að minnsta
kosti, og prentaði ljóð þeirra í tímariti sínu. Bæði hann og Halldór
Kiljan Laxness skrifuðu lofsamlega um Stein Steinar. Þegar Jóhannes
úr Kötlum breytti ljóðstíl sínum stóð ekki á Kristni að gefa út hin
nýstárlegu ljóð hans og ljóðaþýðingar. Annað skiptir þó meira máli í
þessu sambandi: Örn byggir ályktun sína á því að ekki hafi verið
amast við ljóðum í frjálsu formi fyrr á öldinni og því hefði það sama
átt að gilda um ljóð atómskáldanna. Þar með er hann að segja að ljóð
þeirra hafi haft fátt annað fram að færa en ‚bragbreytingu‘.39
Í bókmenntum er allajafna í gildi einhverskonar óorðaður samn-
ingur milli höfunda og lesenda. Þegar skáld rýfur þann samning og
fer að yrkja annarskonar ljóð (segir til að mynda upp sáttmálanum
um að ljóð séu um eitthvað, séu mímetísk, raðar upp brotum án
tenginga eða yrkir torræðar ljóðmyndir) má búast við neikvæðum
viðbrögðum meirihluta lesenda og gagnrýnenda, og oft tekur það
langan tíma að sættast við hið nýja. Stundum verða aldrei fullar sætt-
ir, sem væntanlega á sér þá skýringu að ekki sé allt nýtt gott. Ég er
fyrir mitt leyti sannfærður um að það var ekki breytingin á hinu ytra
ljóðformi sem ljóðelskur almenningur á Íslandi setti fyrir sig, heldur
hitt að mörgum fannst ljóðin óskiljanleg, fannst þau ekki koma sér
við. Næg dæmi eru um ámóta viðbrögð í sögu ljóðlistarinnar. Franska
symbólismanum á seinnihluta 19. aldar var yfirleitt illa tekið af al-
menningi og gagnrýnendum.40 Ekki var þar þó um að kenna breyttu
ytra formi ljóðanna heldur breyttu inntaki og skáldskaparaðferð.
Fyrsta erindið í fyrsta ljóði fyrstu bókar Sigfúsar Daðasonar
hljóðar svo:
Mannshöfuð er nokkuð þungt
en samt skulum við standa uppréttir
og sumarið bætir fyrir flestar syndir okkar.41
39 Örn talar um bragarhátt fríljóða og prósaljóða (2006a:126 og víðar). Það er undar-
leg orðanotkun; bragur er það sem kallað er metrum á erlendum málum; hann er
sjálfstætt mynstur sem gengur gjarna aftur í bundnum ljóðum, jafnvel allt frá
fornöld. Enn er verið að yrkja undir Sapfóarhætti, brag sem fundinn var upp á
eynni Lesbos í Eyjahafi um 600 f.Kr. að því er talið er. Bundin ljóð og óbundin
eru ekki mismunandi bragarhættir heldur mismunandi ljóðtegundir og hin síðar-
nefndu segja skilið við brag: Form fríljóða er nýtt í hverju ljóði og meira að segja
í hverju erindi ljóðs.
40 Sbr. Jacques Lethève (1959:151–276).
41 Sigfús Daðason (1951:7).