Málfregnir - 01.04.1991, Side 19
Innlcnd lán
Innlend lán fela í sér að orðum, sem til
eru í málinu, er fengin ný merking. Petta
er kallað „terminologisering“ í nágranna-
málum okkar og er mjög algeng aðferð.
Baldur skiptir slíkum tántökum í tvennt:
I fyrsta lagi eru tekin orð úr almennu
máli, og í öðru lagi er reynt að vekja upp
gleymd orð og gefa þeim nýtt hlutverk
og þar með nýtt líf.
Um hið fyrra eru mörg dæmi í Tölvu-
orðasafni. Oft hafa ensku heitin orðið til
á þennan hátt og íslensku heitin eru bein
þýðing á þeim. Dæmi um þetta eru t.d.
niemory, sem á íslensku heitir minni, og
printer, sem á íslensku heitir prentari.
Stundum er enska heitið „innlent lán“ í
ensku. en ekki unnt að nota beina þýð-
ingu á íslensku. Gott dæmi um þetta er
enska heitið editor. Af einhverjum ástæð-
um hafa tölvunotendur ekki getað sætt
sig við að kalla þetta þarfa verkfæri ein-
faldlega ritstjóra. Enska orðið key er
dæmi um orð sem hefur fleiri en eina
merkingu í tölvutækni. Auk þess eru
fleiri ensk heiti, t.d. index, sem menn
vilja gjarnan geta þýtt með orðinu lykill.
Pess vegna lagði orðanefndin til að einn
af þessum lyklum, þ.e. sá á lyklaborði
eða hnappaborði, gæti heitið hnappur.
I Tölvuorðasafni er ekki mikið um
gleymd eða hálfgleymd orð sem fengið
hefur verið nýtt hlutverk. Helsta dæmið
er að sjálfsögðu orðið skjár. Við upphaf
sjónvarpsaldar á íslandi lagði Bergur
Jónsson verkfræðingur til að orðið skjár
skyldi tekið upp sem heiti á myndfleti
myndlampa sem á ensku heitir screen.
En merking orðsins skjár breyttist þegar
til sögunnar komu útstöðvar þar sem
myndlampar voru notaðir til birtingar
gagna. Orðið skjár varð þá heiti á öllum
kassanum sem myndlampinn var í og
jafnvel á allri útstöðinni. Orðanefndin
gerði það því að tillögu sinni að mynd-
lampi í kassa ásamt ótilgreindum stýri-
búnaði yrði kallaður skjáald (heitir á
cnsku visual display unit eða monitor)
og útstöð með myndlampa (visual dis-
play terminal) fengi heitið skjástöð.
Orðið skjástöð virðist vera töluvert
notað, en skjáald sést ekki oft, og menn
halda áfram að kalla kassann skjá.
Nýmyndanir
Önnur aðferð við myndun íðorða er ný-
myndanir sem Baldur skiptir í þrennt,
þ.e. afleiðslu, samsetningar og myndun
nýstofna. í Tölvuorðasafni er sægur
afleiddra og samsettra orða, en mér vit-
anlega ekkert dæmi um að nýr stofn hafi
verið myndaður.
Afleidd orð geta verið margvísleg.
Sem dæmi má nefna orðið gjörvi fyrir
processor, rnyndað sem gerandnafn af
sögninni að gera. og ritill fyrir editor,
myndað af sögninni að rita. Lýsingarorð
má mynda af nafnorðum, t.d. biðminn-
ugur fyrir buffered, myndað af biðminni
sem er þýðing á buffer, en biðminni er
dæmi um samsett orð. Einnig er til
örvóttur fyrir directed, myndað af ör.
Orðanefndin hefur gert nokkuð að því
að taka upp lítt notuð viðskeyti eins og
-ildi og -ald (sjá skjáald hér að framan).
Frægasta og umdeildasta dæmið í þeim
flokki er sennilega mótald fyrir modem.
Enska orðið modem er stytting á modu-
lator-demodulator, þ.e. tæki sem mótar
og afmótar merki. Ef búa ætti til íslenskt
íðorð sem segði alla þá sögu yrði það
nokkuð langt. Þess vegna kom fram sú
hugmynd að bæta viðskeytinu -ald við
stofninn í sögninni móta svo að úr yrði
mótald. Önnur leið væri að taka upp
enska orðið nánast óbreytt (sbr. 4. leið
hér á undan) svo að úr yrði orðið
módem. Margir nota það og finna ekkert
athugavert við það. Hins vegar finnur
hver íslendingur að orðið er útlent. í
þessu sambandi er e.t.v. vert að benda á
að Orðanefnd rafmagnsverkfræðinga
greip til viðskeytisins -ald á undan okkur
og myndaði m.a. orðið hitald fyrir heat
19