Bændablaðið - 17.07.2014, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 17.07.2014, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 17. júlí 2014 Birna K. Friðriksdóttir textílhönnuður opnaði vinnustofu í Sunnumörk í Hveragerði: Fékk innblástur um leið og fór að gjósa á Fimmvörðuhálsi Birna K. Friðriksdóttir textílhönnuður var með formlega opnun á vinnustofu sinni og verslun í verslunarkjarnanum Sunnumörk í Hveragerði í liðnum mánuði og hafa viðtökur verið góðar. Opnunin var í tilefni þess að hún, í samvinnu við Pál Jökul Pétursson ljósmyndara, hefur innréttað vinnustofuna með myndum af íslenskri náttúru. Fjöldi gesta hefur litið við og lokið lofsorði á framleiðsluvörur hennar, sem gerðar eru með merkinu Volcap. Um er að ræða fatnað úr íslenskri ull og er hann skreyttur með sérstakri nálaþæfingartækni. „Ég sæki mynstrin sem sett eru á fatnaðinn í íslenska náttúru, svo sem hraunrennsli, norðurljós, mosa, frostrósir og skófir,“ segir Birna. Ég gaus líka Birna er frá Grenivík og bjó í Grýtubakkahreppi allt þar til í ágúst í fyrra þegar hún flutti ásamt fjölskyldu sinni suður á land og kom sér fyrir í Hveragerði. Hún er menntaður textílkennari og hefur starfað bæði í grunn- og leikskólum en lærði einnig textílhönnun Danmörku. „Ég var lengi upptekin við barnauppeldi og ekki sérlega innblásin á þeim tíma, en það má segja að um leið og gos hófust á Fimmvörðuhálsi hafi ég gosið líka,“ segir hún. „Ég var lengi að leita að einhverju sem ég gæti skapað og framleitt, en vandamálið við handverk er hvað það er tímafrekt og sjaldnast hægt að verðleggja vöruna þannig að viðunandi tímakaup náist.“ Birna segir að um leið og gosið hófst og allir fjölmiðlar voru uppfullir af myndum af því hafi hún fundið hjá sér hvöt til að túlka það á myndrænan hátt í sínum verkum. Lendingin var sú að hún notaði sérstaka nálaþæfingartækni, þæfði með nál í fatnaðinn ýmsar myndir sem túlkuðu gosið, grunnurinn er svört prjónavoð og í hana er svo þæfð gosrönd. Hætti í föstu starfi og sinnir eigin framleiðslu „Ég var í óða önn að undirbúa mig fyrir Handverkssýninguna á Hrafnagili sumarið 2012 þegar fyrsta peysan varð til , en fram að því hafði ég einkum verið að vinna með húfur. Þetta vatt svo upp á sig og varð til þess að ég minnkaði við mig vinnu, fór í hálft starf við kennslu á móti minni eigin framleiðslu. Um páskana í fyrra hætti ég svo alveg í fastri vinnu og hef eingöngu sinnt minni vöruþróun og framleiðslu síðan,“ segir Birna. Fljótlega eftir að Birna flutti suður á land kom hún sér upp vinnustofu í Sunnumörk í Hveragerði, um 60 fermetra húsnæði sem hentar henni vel að sögn. Rýmið er opið, fremst er verslun en inn af henni vinnuaðstaða Birnu og geta viðskiptavinir fylgst með henni að störfum. Í vetur og vor vann hún að því að innrétta húsnæði sitt að nýju og hefur nú tekið það í notkun nýtt og endurbætt. Sumarið lofar góðu „Það koma mjög margir hér við, erlendir ferðamenn t.d. í miklum mæli og þeim þykir gaman að fylgjast með mér og eru ánægðir að sjá að þessi fatnaður sem ég framleiði sé alveg íslenskur, þ.e. íslensk hönnun, úr íslensku hráefni og greinilega unninn á staðnum. Viðtökur hafa verið mjög góðar og ég er bjartsýn á framhaldið, það hefur gengið mjög vel í sumar en það má segja að þetta sumar sé eins konar prófsteinn á hvort starfsemi af þessu tagi standi undir sér,“ segir Birna. Vörur hennar eru einnig til sölu á helstu ferðamannastöðum á landinu. „Það gefur mér byr undir báða vængi að fólki líkar þetta vel þannig að ég er bjartsýn á að vel muni ganga.“ /MÞÞ Birna K. Friðriksdóttir textílhönnuður var með formlega opnun á vinnustofu sinni og verslun í verslunarkjarnanum Sunnumörk í Hveragerði í liðnum mánuði. Mikilvægi koppafeitissprautunar er vanmetið Í síðasta Bændablaði var skyldu- lesning um bruna í heybindivélum sem rituð var af forvarnardeild VÍS. Það sem vantaði í þá grein var mikilvægi koppafeitissprautunar, en ef tæki eru í notkun svo sólarhringum skiptir þarf að smyrja í koppa (sem dæmi er það algeng vinnuregla að á beltagröfu er smurt í alla koppa í byrjun hvers dags og á jarðýtum hafa margir það fyrir reglu að smyrja í alla koppa eftir einn dísilolíutank). Flest tæki sem notuð eru við heyskap þurfa nauðsynlega viðhaldi sem felst aðallega í að smyrja í koppa og ef koppurinn er stíflaður þarf að skipta honum út (yfirleitt auðvelt og lítil vinna að skipta um smurkoppa, en borgar sig fljótt). Verum sjáanleg á almennum umferðargötum Nú eru margir á fullu í heyskap og víða má sjá heyrúllur á nýslegnum túnum sem bíða flutnings á þann stað þar sem þær eru geymdar fram á vetur. Mjög misjafnt er milli býla hversu langa vegalengd þarf að flytja rúllurnar, en fyrir þá sem þurfa að fara mikið eftir þjóðvegum er vert að huga að því að vera vel sjáanlegur á veginum í tíma. Að hafa afturljósabúnað í lagi á vagninum og endilega nota gula blikkvinnuljósið ofan á dráttarvélinni ef það er til staðar. Og ef menn eiga ekki gulblikkandi vinnuljós á dráttarvélina sína er hægt að fá það keypt fyrir lítinn pening. Notum öryggisljósabúnað í almennri umferð Fyrir skemmstu var ég á ferð í miklu ferðamannahéraði þar sem umferð er mikil og kom að dráttarvél sem var með rúlluvagn í eftirdragi greinilega á leið að sækja rúllur. Löngu áður en ég kom að honum var ég búin að sjá að þarna færi hægfara tæki þar sem uppi á húsinu var gult blikkandi vinnuljós, stuttu seinna sama dag stoppaði ég við þjónustumiðstöð og sá þar dráttarvél með 17 rúllur á vagni og eina í ámoksturstækjum. Vélinni var vel lagt og væntanlega var ökumaðurinn í kaffipásu, en þegar ég labbaði meðfram vélinni tók ég strax eftir að ljósin fyrir afturljósin voru ótengd. Þegar ökumaðurinn fór af stað kveikti hann ekki heldur á gula vinnuljósinu vegfarendum til merkis um að þarna færi hægfara ökutæki. Fyrir vegfarendur sem á eftir þessum traktor gátu ekki séð hugsanlegar stefnubreytingar vélarinnar á ótengdum aftur- ljósunum. Hjálpumst að og gerum betur, SJÁUMST. liklegur@internet.is Hjörtur L. JónssonÖRYGGI – HEILSA – UMHVERFI Hól fær þessi ökumaður fyrir að vel er raðað á vagninn, en hann hefði mátt tengja afturljósin og keyra með gula vinnublikkljósið eftir þjóðveginum öðrum til öryggis. Opnunin var í tilefni þess að Birna hefur í samvinnu við Pál Jökul Pétursson ljósmyndara inn réttað vinnustofuna með myndum af íslenskri náttúru.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.